2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Að sýna umhyggju

Leiðari úr 22. tbl Vikunnar

Nýlega horfði ég á TED-fyrirlestur um fíkn og hvernig samfélagið hefði nálgast fíkla á röngum forsendum. Fyrirlesarinn vildi meina að þörfin fyrir fíkniefni minnkaði í jöfnu hlutfalli við þá umhyggju og alúð sem samfélagið legði í þegna sína. Hann nefndi að mýs í búri kysu alltaf fremur vatn blandað fíkniefnum umfram hreint ef umhverfi þeirra væri autt og snautt. Væri hins vegar nógan félagsskap annarra músa að hafa og afþreyingu í búrinu, leiðir til fyrir mýsnar til að láta reyna á lipurð sína, útsjónarsemi og forvitni færu þær undantekningalaust frekar að uppsprettu hreins vatns.

Löngunin í deyfilyf minnkaði sem sagt í jöfnu hlutfalli við umhyggju fyrir þörfum músanna. Hann benti á að allir þyrftu á því að halda að finnast þeir tilheyra hópi og vera virkir og virtir meðlimir innan hans. Fíklum hefur fram að þessu verið ýtt út á jaðar samfélagsins, því veikari sem þeir verða því utar og að lokum út af brúninni.

Þessi fyrirlestur kom upp í huga minn þegar ég sat að spjalli við Guðrúnu Hauksdóttur Schmidt, eða Gurru eins og hún er alltaf kölluð. Sonur hennar var í hópi heimilislausra í Reykjavík síðustu árin áður en hann lést á síðasta ári. Þorbjörn Haukur varð fíkill eftir alvarlegt bílslys. Hann þurfti á sterkum verkjalyfjum að halda mjög lengi og fékk enga hjálp við að venja sig af þeim eða aðlagast þeim breytingum sem urðu á persónuleika hans og líkama vegna áverkanna.

Fjölskylda Þorbjörns Hauks sýndi honum umhyggju og ástúð og reyndi að styðja hann en þau gátu þetta ekki ein. Ef samfélagið hefði komið á móti og stutt hann til sjálfstæðis og sjálfsbjargar hefði kannski gegnt öðru máli. Veltum fyrir okkur hvernig saga hans hefði endað ef hann hefði verið sendur í áfengismeðferð um leið og mögulegt var að minnka verkjalyfjaskammtana.

AUGLÝSING


Ímyndum okkur líka að hann hefði fengið þjálfun til að vinna vinnu sem hentaði heilsu hans, stuðning fyrstu skrefin í starfi og að ráðgjöf hefði boðist fyrir foreldra hans varðandi hvernig þau gætu sem best tryggt framtíð hans. Sjáum það fyrir okkur að fjölskyldan öll hefði gengið inn í umhyggjusamt heilbrigðiskerfi þar sem ótti þeirra, áhyggjur og vanmáttur gagnvart alvarlegum meiðslum hefði mætt skilningi og farið í úrvinnsluferli. Þegar myndin fer að skýrast í huganum er erfitt að sjá hvernig maður sem svo vel hefði verið búið um hefði endað á götunni. Einmitt þessi vöntun situr í móður hans. Síðasta daginn sem þau áttu saman mæðginin lofaði hún honum að láta sig málefni heimilislausra varða og hefja baráttu til að bæta hag þeirra. Hann varð djúpt snortinn og glaður, áreiðanlega bæði vegna þess að honum þótt gott að finna umhyggjusemi mömmu sinnar og að hann vissi að hún fylgdi ævinlega vel eftir öllu sem hún lofaði.

Nú þegar hefur Gurra gert mikið í þágu þessa hóps og þráir að gera enn betur. Hún hefur kraftinn, ástríðuna og viljann og vonandi bera Íslendingar gæfu til að nýta sér það.

Sjá einnig: Sneri sorginni upp í sigur og berst fyrir bættum hag heimilislausra

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is