2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Af hverju lykta Íslendingar?

Höfundur / Kjartan Örn Sigurðsson

Í upphafi aldarinnar starfaði ég í Englandi og þurfti einu sinni sem oftar að ferðast út á flugvöll í leigubíl. Í þetta skiptið var ég að fara í fyrstu ferðina mína til Moskvu. Leigubílstjórinn var af pakistönskum uppruna og ég man að ég staldraði stuttlega í huganum við lyktina í bílnum hans. Ég var nokkuð viss um að lykt í leigubíl Pakistana væri ólík lykt í leigubíl innfæddra Englendinga.

Í flugvélinni sat ég við hliðina á Rússa sem krafðist þess að ég deildi með honum skosku viskíi og hlustaði á hann segja mér frá öllum „kostum“ Rússlands. Hann var eigandi súkkulaðiverksmiðju, átti konu og tvö börn og yngri en vel menntaða hjákonu. Hann sýndi mér myndir af þeim öllum til sönnunar. Hann sagði mér að í Rússlandi væru engir hommar og engir svartir menn. Ég man hvað mér fannst þessi yfirlýsing fordómafull og rasísk. Var þetta bara hann eða endurspeglaði hann samfélagið sem ég var nú að heimsækja í fyrsta sinn?

Ferðafélagi minn reyndist óvenju gestrisinn og líkaði greinilega ágætlega við þennan forvitna Íslending. Þegar ég kom út úr flugstöðinni í Moskvu hrópaði hann á mig og bauð mér far á hótelið með sér og hjákonunni sem komin var að sækja hann. Þetta var myndaleg kona sem talaði góða ensku. Þau vildu ólm sýna mér borgina og keyrðu fram hjá helstu kennileitunum áður en þau skiluðu mér á hótelið. Hótelið var uppi á einni af sjö hæðum borgarinnar. Það var komið kvöld, hótelið á mörgum hæðum og borgin upplýst. Eftir þessi áhugaverðu fyrstu kynni af Rússlandi sá ég fyrir mér að geta notið útsýnisins yfir borgina út um gluggan á herberginu mínu.

„Yfirmaðurinn hallaði sér lítillega yfir borðið í áttina að hvíta, sköllótta Íslendingnum og sagði svo ekki eins hátt og áður: „En herra, það eru Kóreumenn á níundu hæð!“ Nú fóru að renna á mig tvær grímur.“

AUGLÝSING


Stúlkan í afgreiðslunni sagðist því miður ekki eiga herbergi með útsýni fyrir mig. Með skoska birtu í brjóstinu lagði ég ríkari áherslu á mál mitt en vanalega sem varð til þess að hún sótti yfirmann sinn. Þetta var viðkunnalegur maður sem gekk beint í málið: „Því miður, herra, við eigum aðeins herbergi með útsýni á níundu hæð“, sagði hann. Níunda hæð hljómaði ekki illa í mín eyru, hátt uppi og örugglega með góðu útsýni. Ég sagðist vera til í það. Yfirmaðurinn hallaði sér lítillega yfir borðið í áttina að hvíta, sköllótta Íslendingnum og sagði svo ekki eins hátt og áður: „En herra, það eru Kóreumenn á níundu hæð!“ Nú fóru að renna á mig tvær grímur. Fyrst þetta með hommana og svörtu mennina í flugvélinni og nú að Kóreumenn væru flokkaðir á sérhæð á hótelinu. Hann sá mig örugglega sem hreinræktaðan aría þótt augun væru brún. Var hugsanlegt að skallinn tengdi mig við hægri öfgamenn? Ég gat ekki tekið þátt í þessu! „Það er allt í lagi, ég get gist á sömu hæð og Kóreumennirnir,“ sagði ég. Yfirmaðurinn horfði undarlega á mig, hallaði sér enn lengra yfir borðið og hvíslaði svo: „En herra, þú veist að Kóreumenn lykta.“

Yfirmaðurinn gat ómögulega látið mig gista á níunudu hæð þannig að á endanum fékk ég herbergi á elleftu hæð með frábæru útsýni yfir borgina. Það var reyndar verið að endurgera hæðina en herbergið mitt var rúmgott og hreint. Þvílíkt ferðalag! Ég lagðist á magann á rúmið með andlitið í koddann. Koddinn var hreinn en þessa lykt kannaðist ég ekki við. Var þetta lyktin af Rússlandi?

Nokkrum vikum síðar var ég staddur í Noregi á fundi. Ég hóf fundinn á kurteisishjali og sagði stutta skemmtisögu af nýlegri heimsókn minni til Rússlands og að þar væru menn flokkaðir á hæðir hótela eftir þjóðerni vegna ólíkra þjóðarilma! Norðmönnunum var ekkert sérstaklega skemmt yfir þessari frásögn en höfðu sig að lokum í að segja mér að nýlega hefði verið framkvæmd könnun meðal nýbúa í Noregi um hvað þeim fyndist um Norðmenn. Niðurstaðan hefði verið skýr. Nýbúum í Noregi fannst Norðmenn lykta. Þeir höfðu þá verið spurðir út í lyktina og almennt voru nýbúarnir sammála um að Norðmenn lyktuðu eins og kúamykja. Þeir sögðu mér að Norðmenn hefðu velt þessu mikið fyrir sér, móðgaðir og niðurlægðir, og líkleg ástæða fyrir þessari lykt talin tengjast mataræðinu. Jógúrt, ostar og aðrar mjólkurvörur sem Norðmenn neyttu í miklum mæli væru líklegri til að mynda súra líkamslykt.

Tíminn leið og það var komið sumar í Englandi. Eitt föstudagskvöld var okkur hjónunum boðið í grillpartí til enskra nágranna sem störfuðu í fluggeiranum. Hann var flugumferðastjóri á Heathrow og hún vann við þrif í flugvélum. Það var nokkuð liðið á kvöldið þegar ég og nágrannakona mín lentum á tveggja manna tali. Nánast eins og ég væri að æfa mig fyrir uppistand ákvað ég að segja henni frá ferðalaginu mínu til Rússlands og niðurlægðu Norðmönnunum. Hún hló með mér að óförum annarra og ég nýtti tækifærið: „Verður þú vör við ólíka lykt í þínu starfi? Finnst þér flugvél frá Indlandi lykta ólíkt flugvél frá Noregi?“ spurði ég. Hún svaraði játandi en varð flóttaleg í framan eins og hana grunaði hvaða spurning kæmi næst. „Og hvaða þjóð finnst þér lykta verst?“ spurði ég. Það varð þögn. „Ég vil ekki móðga þig“ sagði hún. „Þú móðgar mig ekki neitt“ sagði ég „eru það við Íslendingar?“

„Það er alveg svolítið til í þessu hjá nýbúunum í Noregi,“ sagði hún mér þá. „Vélarnar frá Norðurlöndunum lykta eilítið eins og kúamykja í samanburði við önnur lönd en þegar við opnum vélarnar frá Íslandi þá mætti halda að einhver hefði brotið rotið egg.“

Þetta var lærdómsríkt kvöld. Eitt var mér þó alveg ljóst að auk þess að borða skyr og osta þá baða Íslendingar sig upp úr íslenska eldfjallavatninu. Blanda sem einkennist af kúamykju og súlfati. Ég hafði bæði lært af hverju og af hverju Íslendingar lykta.

Viltu birta pistil á mannlif.is? Sendu okkur línu.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum