2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Andartak eilífðar

Leiðari úr 29. tölublaði Vikunnar

„Lífið er dýrmætt“ er einn af þessum frösum sem fólk notar í tíma og ótíma. Vandinn við slíkar klisjur er sá að því oftar sem þeim er slengt fram þess merkingarminni verða þær. Allir vita að þetta er rétt en enginn finnur neitt sérstaklega fyrir sannleikanum sem felst í orðunum, þ.e.a.s. fyrr en hann stendur sjálfur frammi fyrir dauðanum í einhverri mynd. Þá opnast skilningarvitin og allt í einu verður grasið svo grænt, blómin ilmandi, börnin  indæl, tónlistin falleg og manneskjan svo stórkostleg í öllum sínum myndum. Það er illt að þessa lexíu skuli ekki vera hægt að læra til fulls nema í gegnum mjög erfiða reynslu.

Þótt Ása Tryggvadóttir hafi sannarlega ekki verið í hópi þeirra sem minnst meta þær góðu gjafir sem öllum hlotnast hér á jörð þá er ég viss um að hún rétt eins og ég átti til að ergja sig yfir smámunum og vera af og til pirruð yfir einhverju sem engu skiptir.

Örlagastund hennar rann hins vegar upp úti á Spáni fyrir þremur árum. Hún og maðurinn hennar Hólmsteinn Björnsson voru þar til að fagna þrjátíu ára brúðkaupsafmæli þegar Ása missti meðvitund. Vikum saman var henni ekki hugað líf og eftir margar og margvíslegar læknisaðgerðir og meðferðir er Ása að komast til heilsu að nýju. Hún verður aldrei söm en hún finnur núna djúpstætt þakklæti fyrir að hafa lifað af og gleði sem ekki er sambærileg við neitt sem hún upplifði áður.

AUGLÝSING


Mér finnst alltaf verðmætt að lesa viðtöl við fólk sem staðið hefur á landmærum lífs og dauða. Það fer nefnilega enginn í gegnum slíka reynslu án þess að það setji djúpstætt mark á sálina. Í sumum tilfellum heldur fólk áfram að klóra í sárið svo undan blæðir lengi á eftir en aðrir kjósa að leyfa því að gróa með græðandi smyrslum alls hins góða í veröldinni.

Ása er líka heppin. Hún á góða fjölskyldu sem studdi hana með ráðum og dáð. Allir voru boðnir og búnir að vera við hlið hennar og það hlýtur að vera jákvæð reynsla að finna hversu mikils maður er metinn, að finna að maður á góða að. Hún er líka, að eigin sögn, ein þeirra sem alltaf hefur verið leitandi. Hana þyrsti í þekkingu og var þess vegna alltaf að menntast meira og veita sköpunarþrá sinni farveg. Hún fann vissulega að mörgum þótti þetta fullmikill hringlandagangur og að einhvern tíma bæri fólki að setjast að á sinni hillu og sitja sem fastast. En til allrar lukku gerði hún það ekki. Opinn hugur er nefnilega ávísun á þroska, aukna mennsku og menntun.

Sjá einnig: Missti meðvitund á þrjátíu ára brúðkaupsafmælinu

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is