2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Bláa föðursystirin

Síðast en ekki síst
Eftir / Sólveigu Jónsdóttur

Bróðursonur minn elskulegur á ættir sínar að rekja til suðrænna slóða. Hann er með súkkulaðibrún augu og augnhár sem teygja sig hálfa leið til tunglsins. Hárið dökkt og húðin brún. Einhverju sinni, þegar hann var þriggja ára gamall, fórum við í sund saman. Aldrei þessu vant sátum við í rólegheitum í vaðlauginni og spjölluðum. Hann vildi segja mér frá því hvernig fjölskyldan hans væri á litinn. „Mamma er brún, ég er ljósbrúnn og pabbi er laxableikur.“ Þetta stemmdi allt saman svo næsta stig var að spá í hvernig Sóla frænka væri á litinn. „Hún er blá“ svaraði hann án umhugsunar og klappaði á lærin á mér sem ég var reyndar mjög hissa á að hann hafi fundið jafnfyrirhafnarlaust þar sem þau runnu saman við ljósbláan lit flísanna í lauginni.

Ég er hvít á hörund. Sú staðreynd setur mig óumbeðið í forréttindastöðu í heiminum og lífinu. Á sama hátt setur sú staðreynd líka ákveðna ábyrgð á herðar mér. Íslendingar af öðrum kynþáttum hafa lýst því að þurfa ítrekað að taka umræðuna um þessi mál við börnin sín, oftar en ekki í kjölfar þess að þau hafa verið uppnefnd eða orðið fyrir aðkasti. Og hér kemur þetta með ábyrgðina. Það er á mína ábyrgð að taka þessa umræðu við mín börn, þó svo að það séu ekki þau sem verða fyrir aðkasti.

Tilheyrandi forréttindahópi ber mér að leggja mitt af mörkum til að koma í veg fyrir menningu þar sem börn, og annað fólk, eru kölluð niðrandi nöfnum eða sagt að snáfa aftur „heim til sín“. Þegar heima er kannski ekki meira framandi staður en Árbærinn. Ég er þakklát þeim sem stigu fram og deildu nýverið ömurlegri reynslu sinni af kynþáttamisrétti hér á landi. Þannig verður ábyrgð okkar hinna enn þá skýrari við að skapa samfélag þar sem allir eiga heima. Sama hvort við erum brún, ljósbrún eða laxableik. Nú eða blá.

AUGLÝSING


Viltu birta pistil á mannlif.is? Sendu okkur línu.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum