Föstudagur 29. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Ég fann mig aldrei sem móðir – Ég var orðin að vondri konu sem ég þekkti ekki lengur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég hef aldrei verið góð móðir. Það var aldrei ætlun mín að eiga börn. Ég vildi frelsi og ævintýri, ekki bleyjur og grát.

Fyrir 40 árum varð ég óvænt ófrísk, ég var aðeins 17 ára. Líf mitt var rétt að byrja og það var svo margt sem mig langaði að gera, barneignir voru ekki á þeim lista.

Ég reyndi að fara í þungunarrof, en of langt var liðið á meðgönguna, ég missti af tækifærinu. Eina leiðin var því að eiga barnið, einstæð og barnung sjálf.

Faðirinn neitaði alfarið allri ábyrgð. Hann gat gert það, ekki ég.

Á meðgöngunni íhugaði ég að láta frá mér barnið til ættleiðingar, en ég þorði því ekki. Hvernig yrði litið á mig ef bumban færi en ekkert barn yrði eftir?

Ég bjó í fámennu bæjarfélagi og yrði örugglega aðalumræðuefni íbúa. Orðspor mitt væri ónýtt.

- Auglýsing -

Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég yrði að finna mér mann. Einhvern sem gæti tekið mig og ófætt barnið að sér. Ég gæti ekki gert þetta ein, það yrði litið á mig sem lausláta herfu. Það skipti mig ekki máli hver maðurinn væri, hann þyrfti bara að vera tilbúinn að taka að sér barnið.

Ég var hálfnuð með meðgönguna þegar aumkunarverður sjómaður bauð mér í dans. Hann var ómyndarlegur, þrekvaxinn og drykkfelldur. Auðvelt skotmark. Hann féllst á að ættleiða barnið. Við giftum okkur og keyptum hús í bænum. Ég lagði mig alla fram við að byggja ímynd hinnar fullkomnu fjölskyldu. Maðurinn minn var meira á sjó en í landi, ég slapp við að þurfa að horfa á hann.

Þegar hann var heima barði hann mig, drakk og krafðist þess að ég fullnægði þörfum hans. Ég þraukaði þar til hann hypjaði sig á sjóinn.

- Auglýsing -

Elsta barnið mitt var aðeins tíu mánaða þegar ég var aftur orðin ófrísk. Ég var búin að sætta mig við líf fullt af volæði og hörmungum, annað barn skipti mig ekki máli. Ég fékk aldrei þetta yfirgnæfandi móðureðli sem er umtalað. Börnin mín voru fyrir mér og ég hataði sjálfa mig fyrir að hafa komið mér í þessa stöðu.

Börnin urðu fljótlega þrjú, fimm ára og yngri.

Andleg heilsa mín fór versnandi og reiðin var yfirgnæfandi. Ég öskraði og reifst í börnunum, en þegar maðurinn minn kom af sjónum hélt ég kjafti, hann sá til þess.

Uppeldið á börnunum var slæmt, ég sýndi þeim ekki umhyggju né stuðning. Þau voru hrædd við mig. Ég vildi vera sæmileg móðir, vitandi að ég yrði aldrei frábær í því hlutverki óskaði ég þess eins að vera sæmileg. Á þeim tíma vissi ég ekki hvernig ég ætti að bæta mig. Skilnaður kom ekki til greina, fjárhagslega var það ekki hægt.

Ég lét því höggin dynja á mér og lét reiðina bitna á börnunum. Í heildina eignaðist ég sex börn, vitandi vel að ég væri ekki hæf til að veita þeim umhyggju eða öryggi.

Hvers konar manneskja kemur svona fram við börnin sín og eignast síðan fleiri?

Ég hafði enga stjórn á aðstæðum og ég var orðin að vondri konu sem ég þekkti ekki lengur.

Loks þorði ég að fara frá manninum mínum. Ég fann mig aldrei sem móðir en náði bata.

Börnin mín eru skiljanlega ekki í neinum samskiptum við mig. Ég hef reynt að biðja þau afsökunar, en það er engin leið að afsaka þetta. Mörg barnanna eru enn að glíma við afleiðingar þess að eiga óhæfa móður og ég lifi með þeirri staðreynd að hafa brugðist þeim og sjálfri mér. Það er mín refsing og ég á hana skilið.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -