2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Einangrun

Eftir / Önnu Kristjánsdóttur

Það er farið að styttast í þessu úthaldi. Lestin að verða full og fimm vikur liðnar af túrnum. Útgerðin er búin að gefa út að við eigum að vera í landi á mánudag eftir rúma viku. Úff, mikið er ég farin að hlakka til eftir þennan leiðinda brælutúr þar sem ekkert var að hafa fyrstu tvær vikurnar vegna brælu og fátt annað að gera en að halda sér í veltingnum. Heppni að við erum með frábæran kokk sem veit hvernig á að halda lífi í mannskapnum. Það er líka eins gott að fara í land á áætluðum tíma. Olían endist ekki mikið lengur en það. Það sem er þó enn verra er skapið. Að vera á veiðum lengst norður í Dumbshafi í vetrarveðri er ekkert sem er ákjósanlegt. Jafnvel þótt MaKinn hafi malað þýðlega og áhyggjulaust allan túrinn þarf hann líka sitt viðhald og viðgerðalistinn lengist dag frá degi. Það verður gott að komast í frí, hitta fjölskylduna, börnin, kærustuna, félagana. Bara tíu dagar eftir.

Komið hífopp. Vonandi verður eitthvað í. Það gæti stytt túrinn ef það verður sæmilegt að hafa þessa daga sem eftir eru.

Þetta var bara örstutt dæmi um einangrun eins og nú á sér stað víða um heiminn. Að vera á frystitogara í sex vikna túr norður í höfum er ekki fyrir hvern sem er. Íslenskir sjómenn þekkja það vel að vera fjarverandi frá fjölskyldum sínum svo vikum og mánuðum skiptir, ekki bara á togurum. Einn félagi minn er skipstjóri á erlendu flutningaskipi og hann kemst ekki í frí af því að allar hafnir eru lokaðar og enginn fær að fara í land neinsstaðar. En hann má sigla áfram enda spyrja olíuslöngurnar úr landi, þar sem verið er að taka olíu hverju sinni ekki að því hvort kórónavírus sé um borð, kosturinn er hífður um borð með krana og lestun og losun skipsins fer fram án þess að nokkur mannshönd snertir hvora aðra. Jafnvel þótt hann kæmist í frí, kæmist hann ekki heim því flest flug liggja niðri.

AUGLÝSING


Sjálf sit ég í blokk í litlum bæ á eyju undan Afríkuströndum og hefi setið hér í fimm vikur og það eru bara tíu dagar eftir uns ég fæ að hreyfa mig annað en út í búð til að kaupa í matinn. Mér líður samt ljómandi vel. Ég á nóg að bíta og brenna, kannski pínulítið einmana. Það eru bara tíu dagar eftir uns ég kemst í land, afsakið úr húsi og get farið að lifa eðlilegu lífi á ný.

Kannski er ég bara vön einangrun. Hefi verið á frystingu svo vikum skiptir og ef ég man rétt var lengsta úthaldið mitt á sjó án þess að fara í frí einir átta mánuðir. Voru þeir kannski níu eða tíu, ég man það ekki enda sjóferðabækurnar mínar vel geymdar norður á Íslandi. Það þótti bara ekkert tiltökumál í þá daga að vera fjarri fólkinu sínu svo mánuðum skipti. Í dag bý ég að þessari reynslu og kemst ágætlega af í mánuð eða mánuði í viðbót og jafnvel lengur verði útgöngubannið framlengt.

Innilokuð börnin hér á Spáni, Ítalíu og víðar eiga hinsvegar bágt, lokuð inni eða búa við takmarkað frelsi. Þau eiga alla mína samúð.

Viltu birta pistil á mannlif.is? Sendu okkur línu.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum