Miðvikudagur 27. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Fjörutíu ára gay saga frá sjónarhóli samtímamanns

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun
Eftir / Böðvar Björnsson

Fyrir rúmum fjörutíu árum hófu hommar á Íslandi baráttu fyrir réttindum sínum. Þá áttuðu þeir sig á því að þeir yrðu fyrst að berjast fyrir rétti sínum til að vera til. Þögn, þöggun og fordómar gegn samkynhneigð voru svo yfirgnæfandi að það þurfti dirfsku til að standa með sjálfum sér. Hommar og lesbíur stóðu árum saman í stappi við handhafa hins opinbera valds sem hlustaðu ekki á þau. Fullkomin samstaða ráðamanna minnti helst á íhaldssamt klerkaveldi. Stofnanir samfélagsins viðurkenndu ekki tilvist homma fyrr en banvænn og ólæknandi smitsjúkdómur neyddi heilbrigðisyfirvöld til að tala við homma og hlusta á þá. Það braut ísinn gagnvart stofnunum og fjölmiðlum. Margt sem skiptir máli í sögunni virðist hvergi koma fram og svo það gleymist ekki er hér tínt til ýmislegt sem blasti við þeim sem voru á staðnum.

Stór áfangi var gleðiganga Gay Pride þegar tugir þúsunda sýndu hug sinn.

Réttindabaráttan var erfið en henni miðaði áfram hægt og örugglega og bar að lokum þann árangur að upp úr aldamótunum síðustu hafði orðið algjör bylting í viðhorfum fólks og réttindamálum samkynhneigðra. Stór áfangi var gleðiganga Gay Pride þegar tugir þúsunda sýndu hug sinn. Þá gladdist gay fólk yfir unnum sigrum og hlustaði ekki á varnaðarorð um að andstaða gæti risið upp aftur, kannski í annarri mynd. Þótt ótrúlegt sé gerðist nákvæmlega það og andstaðan kom úr ólíklegustu átt. Innan Samtakanna 78 reis upp hópur sem nýtti sér lægð í félagsstarfinu til að ná völdum og gjörbreytti félaginu. Þar var komið nýtt klerkaveldi, háskólafólk, vel tengt inn í borgaralegt samfélag og netheima.

„Tilvist samkynhneigðra fékkst ekki viðurkennd með viðræðum forystumanna Samtakanna ’78 við klerkaveldið heldur varð fólkið sjálft að gera svo vel að koma úr felum, verða sýnilegt.“

Í stað stjórnar sem sinnti félögunum og hagsmunum þeirra kom stjórn sem taldi sig hafa umboð til að starfa sem hópur fagaðila hafinn yfir almenna félaga. Þetta nýja klerkaveldi tók sér kennivald og innleiddi langsóttar kenningar og skilgreiningar svonefndra hinsegin fræða sem leggjast hreinlega gegn hommum og lesbíum sem íhaldssömu forréttindafólki. Þessi fámenni hópur hrakti helming félaganna, eldri homma og lesbíur, úr Samtökunum 78. Það þótti að vonum ótrúlegt að nú væru félagar í Samtökunum greindir og flokkaðir og síðan metið hverja ætti að styðja og hverjir væru forréttindafólk sem ætti ekkert gott skilið, einskonar örorkumat. Flokkunin þótti ómannúðleg, grimmileg og jafnvel vekja óhugnanlegar minningar og það þótti óviðunandi að almennt væri litið á félagana sem vanmáttugt fólk sem þyrfti leiðsögn og ráðgjöf. Í raun urðu til ný Samtök þar sem ekkert mátti minna á réttindabaráttu, sögu og menningu samkynhneigðra og félagslífið, sem var undirstaða gay hreyfingarinnar, var kæft.

Upphaf tilvistarbaráttu og árekstur við klerkaveldið

Fyrsti hópur samkynhneigðra sem hittist reglulega til að ræða málin varð til 1975 með stofnun Iceland Hospitality, grasrótarsamtaka í nýjum anda hippatímans. Fundir voru óformlegir og skoðanir allra höfðu jafnt vægi. Þar var kominn vísir að hreyfingu sem hommar á öllum aldri gátu leitað til og hitt sína líka. Þá urðu tímamót því félagið átti pósthólf, sem það auglýsti heima og erlendis og í fyrsta sinn var hægt að hafa samband við samkynhneigða á Íslandi. Hommar í þessu félagi mættu á fund í maí 1978 og stofnuðu Samtökin 78. Þar var komið á gamla laginu með tibúnum lögum og styrkri stjórn. Síðan bættust lesbíur í hópinn. Nú hófst markviss barátta með lærðum greinum og umræðufundum en árangurinn lét á sér standa. Árin liðu og félögum leið stundum eins og í fótboltaliði sem hafði ekki unnið leik í mörg ár. Á móti kom að það fjölgaði í félaginu og félagsmenn urðu meðvitaðri um stöðu sína og sjálfsvirðingin og sjálfstraustið jókst.

- Auglýsing -

Fyrstu árin voru Samtökin 78 fremur lokaður og fámennur en stórhuga hópur sem ætlaði sér umsvifalaust í réttindabaráttu með viðræðum við ráðamenn í þjóðfélaginu en rakst strax á vegg. Samfélagið reyndist fullt af ajatollum, klerkaveldi gamalla djúpvitra karla sem þáðu vald sitt frá hinu opinbera og litu á sig sem veraldlegt og andlegt yfirvald. Þetta voru varðhundar síns tíma og eigin sjálfsupphafningar. Um samkynhneigð ríkti algjör þöggun og ráðamenn sáu ekki ástæðu til þess að ræða við fólk sem var ekki til. Það var augljóst að fyrst þurfti tilvistarbaráttu áður en farið væri í réttindabaráttu. Allt fram undir 1990 snerist baráttan fyrst og fremst um að tilvera samkynhneigðra yrði viðurkennd.

Lengi vel fengu Samtökin 78 ekki að auglýsa fundi í blöðum og síst í ríkisfjölmiðlunum en þá hafði ríkið einkarétt á ljósvakamiðlum.

Lengi vel fengu Samtökin 78 ekki að auglýsa fundi í blöðum og síst í ríkisfjölmiðlunum en þá hafði ríkið einkarétt á ljósvakamiðlum. Sjónvarpið birti aldrei fréttatilkynningar og útvarpið stóð fast á því að birta ekki auglýsingar frá Samtökunum. Einn lögskipaður menningarvörður sagði landsföðurlega að „í öllum samfélögum hefði það reynst svona fólki farsælast að láta fara sem minnst fyrir sér.“ Átyllan var gjarna að hommi og lesbía væru dónaleg orð sem væru ekki mönnum bjóðandi. Árið 1985 tlkynnti orðanefnd Kennaraháskólans hvaða orð skyldi framvegis nota um samkynhneigða. Orðin voru hómi og lespa og kynhvarfar og voru afþökkuð þegar í stað.

Félagslífið var forsenda baráttunnar

- Auglýsing -

Tilvist samkynhneigðra fékkst ekki viðurkennd með viðræðum forystumanna Samtakanna ’78 við klerkaveldið heldur varð fólkið sjálft að gera svo vel að koma úr felum, verða sýnilegt. Til þess þurfti fólk að hittast og kynnast og smám saman skapaðist gay félagslíf sem varð undirstaða gay hreyfingarinnar. Það var ekki þannig að einstakir menn hefðu risið upp, rætt við ráðamenn og komið lagabreytingum í gegn og síðan hefðu hommar og lesbíur fylgt á eftir og nýtt sér nýfengið frelsi. Þvert á móti tók fjöldi fólks, hundruð karla og kvenna úr öllum þjóðfélagsstéttum, þátt í baráttunni innan og utan Samtakanna. Margir lögðu mikið á sig því þeim var þetta hjartans mál og sumir slitu sér nánast út fyrir hreyfinguna en fæstra þeirra er getið við hátíðleg tækifæri. Viðræður við stjórnvöld gátu ekki hafist fyrr en hreyfingin var orðin til og samkynhneigt fólk orðið sýnilegt.

Að vera hvergi til og koma úr felum

Áður en samkynhneigt fólk á Íslandi ávann sér tilverurétt var það hvergi til í íslenskum veruleika; hvorki í daglegu tali, blöðum, útvarpi, sjónvarpi, kvikmyndum, fræðiritum, skáldsögum eða dægurlagatextum. Opinberlega var samkynhneigð alls ekki til á Íslandi. Þögnin og þöggunin var alger. Orðið samkynhneigð var ekki til en væri minnst á slíkt var það helst í fréttum um barnaníð eða morð. Eftir 1980 birtust einstöku sinnum greinar sem snertu samkynhneigð á einhvern hátt og það var slík nýlunda að þá loguðu allar símalínur hjá gay fólki. Úr utanlandsferðum komu hommar með dönsk og sænsk blöð með djörfu myndefni handa gay karlmönnum sem birtu greinar um gay málefni, einkamálaauglýsingar og heimilisföng gay samtaka á Norðurlöndum. Siðapostular litu þessi blöð hornauga en þarna opnaðist þó gluggi, staðfesting á því að maður væri ekki einn í heiminum.

„Áður en samkynhneigt fólk á Íslandi ávann sér tilverurétt var það hvergi til í íslenskum veruleika; hvorki í daglegu tali, blöðum, útvarpi, sjónvarpi, kvikmyndum, fræðiritum, skáldsögum eða dægurlagatextum.“

Hugtakið að koma úr felum varð ekki til fyrr en gay hreyfingin kom til sögunnar upp úr 1980. Fyrir þann tíma var að sjálfsögðu hægt að opinbera kynhneigð sína en það var eingöngu einkamál hvers og eins. Hin almenna opinbera skoðun var að þetta væri fólk sem ætti ekki að vera til. Hvort mönnum gekk vel eða illa að bregðast við eigin samkynhneigð eða tvíkynhneigð fór greinilega ekki eftir menntun og þjóðfélagsstöðu en margir sem leyndu ekki kynhneigð sinni urðu afar sérstæðir persónuleikar og urðu brautryðjendur á sinn hátt. Sumir bjuggu til hliðarveruleika sem þeir lifðu í þegar færi gafst. Sá leikur gat þó verið hættulegur því menn töpuðu stundum áttum með skelfilegum afleiðingum.

Þegar samkynhneigðir urðu sýnilegir fékk hugtakið að koma úr felum fyrst merkingu og fólk hafði loksins samfélagslegan bakgrunn til að koma úr felum. Það gerðist á ýmsan hátt en til þess þurfti viljastyrk og dirfsku og hafði bæði kosti og galla. Margir voru „glad to be gay,“ sem er tilfinning nokkuð lík því að vera ástfanginn. Menn voru fegnir að losna úr viðjum staðlaðs samfélags og leita hamingjunnar á eigin forsendum. Á móti kom að með því að koma úr felum voru menn staddir á félagslegum berangri. Oft hættu vinir og nágrannar að heilsa og kuldalegt viðmót og höfnun ríkti þar sem menn höfðu áður notið vinsemdar og virðingar. Fyrir fólk á framabraut var það mannorðsmissir og félagslegt sjálfsmorð að koma úr felum. Það sem fólk óttaðist mest og var enn verra en félagslega útskúfunin, líkamsárásirnar og fyrirlitningin var að sá sem kom úr felum var rændur sjálfum sér. Allt í einu varð hann eða hún „homminn“ eða „lesbían,“ homminn í þriðja bekk eða lesbían í bóksölunni. Svo mátti alltaf búast við lítilsvirðandi viðurnefnum. Lengi vel var fólk sem kom úr felum fyrst og fremst skilgreint og metið út frá kynhneigðinni. Að búa við slíkt er eins og að vera í álögum. Það er stór þversögn í að koma úr felum til að vera maður sjálfur og glata þá sjálfum sér í leiðinni.

Gay hreyfingin verður til

Fyrir daga ódýrra flugferða, frjálsra fjölmiðla og internetsins tók jafnan nokkur ár fyrir nýjungar í menningar- og mannréttindamálum að ná frá löndunum í kring til Íslands en nýir straumar náðu þangað samt. Fram yfir 1980 kusu margir hommar að flytjast til útlanda. Fjörugt gay líf í borgum á borð við Kaupmannahöfn, Amsterdam og San Francisco var heillandi og þar hittu menn stundum íslenska homma sem höfðu flust úr landi áratugum fyrr. Sumir höfðu farið í leit að hamingjunni, aðra hafði yfirstéttarfjölskylda sent burt því þeir voru of áberandi og enn aðrir höfðu hreinlega fengið nóg af að fá kjaftshögg aðra hverja helgi og flúið land. Þessir menn reyndust hinum nýkomnu miklar hjálparhellur og tóku þá inn á heimili sín. Þannig voru gestrisin heimili í Kaupmannahöfn og New York eins konar gay sendiráð. Aðrir fóru styttri ferðir og margir kynntust þá fyrstu ástinni í gay umhverfi og lærðu félagsfærni varðandi ást og kynlíf. Þar áttu menn kost á öðru en vangadansi á skólaballi eða rómantík við Tjörnina. Menn kynntust á gay börum, í einkaklúbbum, almenningsgörðum, brautarstöðvum og öðrum tilteknum stöðum sem voru alþekktir í gay samfélaginu.

Margir hommar og lesbíur, sem höfðu flúið land og búið í útlöndum í nokkur ár, komu heim með splunkuný viðhorf og frjálsari lífsstíl. Þessi hópur dró marga úr felum og smám saman þótti hommum og lesbíum sjálfsagt að þau gætu átt félagslíf á eigin forsendum.

Aukið félagslíf eykur sjálfstraust

Í lok desember 1982 héldu Samtökin 78 fjölmennt gay ball á skemmtistaðnum Manhattan í Kópavogi. Fram til þess höfðu Samtökin aðeins haldið vinnu- og umræðufundi og þetta var fyrsta skemmtun félagsins eftir fjögurra ára starf. Myndir af skemmtiatriðum á ballinu birtust svo í tímaritinu Samúel og vöktu mikla athygli. Það varð ekki aftur snúið. Gay menningin var komin til Íslands og hommar og lesbíur voru orðin sýnileg.

Félagslífið efldist fljótt. Það skapaði samkennd að allir voru jafnir gagnvart afleitri stöðu samkynhneigðra og fljótlega varð til eins konar fjölskyldutilfinning. Til dæmis voru árlegir áramótadansleikir Samtakanna jafnan kallaðir ættarmót. Gay fólki, hvaðan sem það kemur, finnst alltaf sérstakt að koma á gay staði og vera með gay fólki því það er eins og að koma heim.

Efling félagslífsins gekk þó ekki þrautalaust. Ströng áfengislöggjöf og bjórbann ollu því að um helgar hafði almenningur heimapartí út um allan bæ og hommar og lesbíur hittust hjá vinum sem bjuggu miðsvæðis og réðu yfir eigin húsnæði. Skemmtistaðir voru fáir en snemma fengu tilteknir staðir orð á sig fyrir að vera samkomustaðir homma. Fyrstur og frægastur var innri barinn á Hótel Borg, seinna Hábær á Skólavörðustíg og enn seinna bar á fyrstu hæð í

Klúbbnum við Lækjarteig, svo einhverjir séu nefndir. Hommar fóru að öðlast meira sjálfstraust og héldu að þeir gætu sótt þessa staði athugasemdalaust en þá byrjuðu vandræðin.

Ekki á þessum skóm

Á árunum upp úr 1980 var hommum hvað eftir annað meinaður aðgangur að skemmtistöðum. Margir staðir voru með klæðareglur, jakkaföt og bindi, og átyllan var oft fræg setning dyravarða: „Ekki á þessum skóm.“ Ef menn sluppu inn voru þeir sóttir og þeim varpað á dyr með valdi. Það var hommum mikið áfall að það væri samfélagslega viðurkennt að hommar mættu ekki stunda almenna skemmtistaði. Sumir staðir auglýstu á þann hátt að ekki varð um villst að hommar væru ekki velkomnir. Ekki síst til að bregðast við þessu ranglæti stofnuðu hommar klúbbinn MSC Ísland árið 1985. MSC var fyrst og fremst skemmtiklúbbur sem rak félagsheimili í mörg ár. Það var griðarstaður þar sem hommar gátu hist og kynnst á eigin forsendum í menningarlegu umhverfi. Menn lögðu saman og bjuggu til góðan stað.

„Á árunum upp úr 1980 var hommum hvað eftir annað meinaður aðgangur að skemmtistöðum. Margir staðir voru með klæðareglur, jakkaföt og bindi, og átyllan var oft fræg setning dyravarða: „Ekki á þessum skóm.“

Smám saman tók markaðurinn að sinna gay viðskiptavinum með stöðum á borð við Kaffi Gest, Moulin Rouge og „22“ á Laugavegi. Samtökin 78 urðu líka opnari fyrir þörfum fólks til óformlegra samskipta. Margir komu úr felum, félögum fjölgaði mikið og yfirleitt virtist vera vor í lofti og horfur á að hagur samkynhneigðra mundi vænkast en þá dundi yfir ógn sem engan óraði fyrir.

Alnæmi neyddi ráðamenn til að hlusta

Alnæmi, óþekktur, banvænn sjúkdómur, greindist fyrst í Bandaríkjunum 1981. Fyrstu sjúklingarnir voru samkynhneigðir karlar og umsvifalaust var talið að þetta væri hommasjúkdómur sem stafaði af einhverju í líferni þeirra eða væri réttlát refsing guðs. Þegar sannaðist að þetta var veirusýking sem smitaðist með kynmökum varð mikið fjölmiðlafár og hatursbylgja gegn hommum bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Bráðnauðsynlegt væri að koma upp einangrunarbúðum fyrir smitaða og sjúka og helst fyrir homma yfirleitt. Fréttirnar bárust strax hingað og ofsinn og hatrið í garð homma var engu minni hér. Læknar sáu þó að veiran gerði sér ekki mannamun. Veikin greindist fljótlega hér á landi og síðla árs 1985 skall alnæmi af fullum þunga á homma á Íslandi. Margir greindust, flestir ungir menn. Sumir veiktust og dóu en aðrir fengu væg einkenni og þann dóm að lífslíkur væru eitt ár eða ekki það. Engin lækning var til en hægt var að verjast smiti á einfaldan hátt, einkum með því að nota smokka.

Alnæmi, óþekktur, banvænn sjúkdómur, greindist fyrst í Bandaríkjunum 1981. Fyrstu sjúklingarnir voru samkynhneigðir karlar og umsvifalaust var talið að þetta væri hommasjúkdómur.

Nú var yfirvöldum vandi á höndum og þöggunin og þögnin um samkynhneigð hefndi sín. Margir hommar höfðu greinst og eflaust voru fleiri smitaðir úti í samfélaginu. Hvernig gátu heilbrigðisyfirvöld komið nauðsynlegum upplýsingum til manna sem ekki mátti tala um og voru opinberlega ekki til? Vanþekkingin var slík að vel menntaðir og vel meinandi menn héldu að hommar á Íslandi væru þröngur hópur og þeir væru allir í Samtökunum 78 og gætu frætt hver annan þar. Hommar voru ekki hluti af samfélaginu og því áttu allar opinberar forvarnir að snúa að gagnkynhneigðum og Samtökin 78 áttu að sjá um hommana svo lítið bæri á.

Landlæknisembættið boðaði fulltrúa Samtakanna 78 á fundi en í fyrstu neituðu heilbrigðisyfirvöld að sinna hommum á sama hátt og öðrum og báru fyrir sig að það yrði aldrei samþykkt að ræða um homma eins og annað fólk. Læknunum varð þó fljótlega ljóst að hér var ekki aðeins um læknisfræðilegt mál að ræða heldur snerti það beinlínis stöðu samkynhneigðra í samfélaginu. Þá urðu straumhvörf því nú ræddu opinberir embættismenn í fyrsta sinn við samkynhneigða í fullri alvöru sem fullgilda þjóðfélagsþegna og hlustuðu á það sem þeir höfðu að segja. Samtökin 78 voru fús til að reka upplýsingasíma um alnæmi en á fundi kom fram að Samtökin voru að verða húsnæðislaus. Það skildu embættismennirnir strax og nokkrum dögum síðar höfðu Samtökin fengið hús frá borginni á Lindargötu.

Alnæmi olli ólýsanlegum hörmungum, örvæntingu og sorg og felldi marga sem voru driffjaðrir í gay samfélaginu. Sjúkdómurinn og hatursbylgjan varpaði dimmum skugga yfir allt gay samfélagið og fældi marga frá að koma úr felum. Fyrstu árin urðu menn róttækari og sameinuðust í baráttu gegn hatursorðræðu og fyrir auknum réttindum. Þegar árin liðu án þess að nokkur lækning fyndist og menn horfðu á eftir fleiri félögum í gröfina dró úr baráttuandanum og menn fylltust vonleysi. Fyrstu lyfin komu ekki á markað fyrr en í febrúar 1996 og þau höfðu miklar aukaverkanir. Síðan hafa orðið miklar framfarir sem gera fólki kleift að lifa góðu lífi þrátt fyrir smit.

„Fólk missti vinnu og húsnæði vegna kynhneigðar; sambúð para af sama kyni hafði enga réttarstöðu, erfðaréttur var enginn, réttur til ættleiðinga enginn og óheimilt að nýta skattkort maka svo fátt eitt sé nefnt hér.“

Samskipti homma við heilbrigðisyfirvöld vegna alnæmis komu af stað þróun sem var áþekk því sem gerðist í nágrannalöndunum vegna baráttunnar við alnæmi og miðaði að því að hið opinbera færi að sinna samkynhneigðum til jafns við aðra borgara. Fyrst myndaði heilbrigðiskerfið tengsl við homma og þar með gay hreyfinguna, síðan tók félagslega kerfið við sér og loks menntakerfið. Almenn umræða varð vitrænni og fleiri fóru að styðja málstað samkynhneigðra og þá opnuðust ýmsar leiðir til að berjast gegn mismunun og ryðja sér braut inn í samfélagið.

Gay menning í Húsinu á sléttunni

Hús Samtakanna á Lindargötu var opnað 1987. Það var lítið bárujárnshús, kjallari, hæð og ris, sem stóð eitt á mjög stórri lóð og var oft kallað Húsið á sléttunni. Félagar innréttuðu húsið að nýju í sjálfboðavinnu með góðan smið fremstan í flokki. Vinnan gekk vel og á miðhæðinn varð til smekklegur og menningarlegur samkomustaður. Uppi var örlítil skrifstofa með upplýsingasímanum og bókasafn sem stækkaði ört undir sívakandi umsjón duglegs baráttumanns.

Þjóðkirkjan þagði lengst af þunnu hljóði um mál samkynhneigðra, vildi sem minnst af þeim vita og var afar treg í taumi varðandi sambúðarréttindi og hjónavígslur fólks af sama kyni.

Í húsinu ríkti strax góður andi. Samstaða var svo sjálfsögð að hún var ekki rædd. Opið hús tvisvar í viku var mjög vel sótt og líf í húsinu alla daga. Þótt alnæmisóttinn fældi marga frá því að koma úr felum komu fleiri virkir félagar á vettvang og svo margar konur að talað var um blómaskeið lesbía. Til þess var tekið hvað samkomulag homma og lesbía var gott. Útlendir ferðamenn urðu vel séðir gestir og stundum mátti sjá bandaríska pilta úr herstöðinni á Keflavíkurflugvelli sem sátu og lásu bækur úr bókasafninu. Nú urðu til hefðir, sem eru mikilvægar í félagslífi, eins og að hittast í Samtakahúsinu snemma á fimmtudagskvöldum og fara síðan á „22“ á Laugavegi fyrir miðnætti og njóta eins klukkutíma af stemningu sem jafnaðist á við gay staði í stórborgum.

Í baráttunni var af nógu að taka og hún snerist gegn mismunun vegna kynhneigðar á öllum sviðum samfélagsins. Fólk missti vinnu og húsnæði vegna kynhneigðar; sambúð para af sama kyni hafði enga réttarstöðu, erfðaréttur var enginn, réttur til ættleiðinga enginn og óheimilt að nýta skattkort maka svo fátt eitt sé nefnt hér. Stærstu skrefin voru lögin um staðfesta samvist 1996 og hjúskaparlögin 2010. Þjóðkirkjan þagði lengst af þunnu hljóði um mál samkynhneigðra, vildi sem minnst af þeim vita og var afar treg í taumi varðandi sambúðarréttindi og hjónavígslur fólks af sama kyni en Fríkirkjan hafði þá sérstöðu meðal trúfélaga að styðja málstað samkynhneigðra.

Gay fánar blakta á Laugavegi 4

Litla húsið á Lindargötu varð að víkja fyrir nýbyggingum. Með hjálp borgarinnar keyptu Samtökin rúmgott húsnæði árið 1998 á þriðju hæð á Laugavegi 4 undir félagsmiðstöð og þar hélt baráttan áfram við betri skilyrði. Árum saman var þar blómlegt menningarlíf með listsýningum, tónleikum, bókakynningum og alls kyns uppákomum og sístækkandi bóka- og kvikmyndasafni sem var einstætt á Íslandi. Tvisvar í viku var opið hús og áfram hélst sami góði andinn og á Lindargötunni og sem fyrr fannst fólki það vera komið heim. Uppsveiflan hélt áfram og gay félög, MSC Ísland, Konur með konum, Félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra stúdenta og Jákvæði hópurinn stóðu ásamt Samtökunum að Gay Pride, nýjung hér á landi sem tókst betur en nokkur þorði að vona. Tugir þúsunda sýndu gay fólki stuðning og hátíðin dró að sér fjölda gay ferðamanna sem hleyptu lífi í gay menningu á Íslandi.

Hús Samtakanna á Lindargötu var opnað 1987. Það var lítið bárujárnshús, kjallari, hæð og ris, sem stóð eitt á mjög stórri lóð og var oft kallað Húsið á sléttunni. Félagar innréttuðu húsið að nýju í sjálfboðavinnu með góðan smið fremstan í flokki.

Úr samtökum í stofnun

Samtökin fengu styrki frá ríki og borg til ráðgjafar- og fræðslustarfs og stjórnsýslan varð æ fyrirferðarmeiri. Fólk hætti að líta inn og smám saman breyttist félagið úr grasrótarsamtökum í stofnun. Árin liðu og forystan fjarlægðist almenna félagsmenn. Samtökin 78 sem áður voru fyrirlitin voru orðin virt mannréttindafélag og æskilegur vettvangur fyrir ungt fólk á framabraut sem þekkti hvorki til gay lífs né gay sögu og hafði aldrei komið nálægt gay baráttu. Endanlega varð ljóst að slit höfðu orðið milli forystu og félaga þegar húsnæðið á Laugavegi var selt, nýtt húsnæði á Suðurgötu keypt og allt félagssstarf lá niðri í heilt ár þangað til húsið var tilbúið. Þegar opnað var á nýja staðnum varð ekki betur séð en þar væri komið nýtt félag sem enginn kannaðist við. Ekkert sást sem minnti á gay baráttu, sögu og menningu eins og gamla félagið hefði týnst í flutningunum.

„Stærstu skrefin voru lögin um staðfesta samvist 1996 og hjúskaparlögin 2010.“

Samkynhneigðum úthýst úr Samtökunum

Hommar og lesbíur gagnrýndu langflest harðlega öll hinseginfræðin og óvild og jafnvel hatur í garð samkynhneigðra í þeirra eigin félagi. Upp úr sauð á aðalfundi Samtakanna haustið 2016 og kornið sem fyllti mælinn var að félag gagnkynhneigðra sadómasókista skyldi eiga aðild að Samtökunum 78. Þangað til höfðu að jafnaði mætt um 30 félagar á aðalfundi en nú komu 300 manns. Helmingurinn var fólk sem aldrei hafði sést áður á vettvangi félagsins.

Eftir þennan fund sögðu margir hommar og lesbíur skilið við félagið. Sérstaklega var það áberandi um fólk sem hafði stutt gay hreyfinguna árum saman. Eftir baráttu við læknisfræðina sem taldi samkynhneigt fólk sjúkt; við lögfræðina sem taldi það sekt og guðfræðina sem taldi það syndugt þótti fjári hart að þurfa að berjast við kynjafræðina sem telur sig hafa umboð til að ráðskast með líf og tilfinningar samkynhneigðra og endurskrifa sögu þeirra.

Eftir fjörutíu ár

Á þessum fjörutíu árum varð ekki bara gjörbreyting á afstöðunni til samkynhneigðra heldur er samfélagið sjálft alls ekki lengur eins gagnkynhneigt og það var. Nú er gay fólk yfirleitt alls staðar velkomið en hommar og lesbíur, sem trúa ekki á hinseginfræðin, finna greinilega að þau eru ekki velkomin í Samtökunum 78. Samt eru merki þess að nýtt og yngra fólk sé smám saman að hverfa frá þröngsýnum kenningum og átta sig á gildi þess að eiga stað þar sem fólk hittist, kynnist, talar saman, lærir hvert af öðru og myndar hreyfingu sem hefur samtakamátt, öllum til hagsbóta, gleði og ánægju.

Höfundur starfaði lengi í Samtökunum 78 og hlaut mannréttindaviðurkenningu Samtakanna 78 á þrjátíu ára afmæli félagsins árið 2008.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -