2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Forréttindagildrurnar fjórar

Höfundur / Helga Baldvins Bjargardóttir 

Að gefnu tilefni í kjölfar umræðu á Alþingi um krónu á móti krónu skerðingu. Þegar maður í margfaldri forréttindastöðu, bregst við gagnrýni frá manneskju eða hópi, sem hefur minni forréttindi og býr við kúgun sem er utan hans reynsluheims, er gott að reyna vara sig á fjórum algengum forréttindagildrum:

 

1) Miðdepils-gildran: (ATH! Ekki Miðflokks-gildran, þótt ég skilji misskilninginn) Fólk í forréttindastöðu er yfirleitt svo vant því að sjónarhorn þess sé hið rétta sjónarhorn og að tilfinningar þess skipti svo miklu máli að það missir oft algjörlega sjónar á þeirri gagnrýni sem sett er fram af fólki í jaðarstöðu. Í þessari umræðu virtist Steingrími liggja meira á að bregðast við þeirri persónulegu móðgun, sem hann upplifði þegar Inga Sæland sakaði vinstri stjórn hans og Jóhönnu Sigurðardóttur um að hafa koma á krónu á móti krónu skerðingunni, en að fjalla efnislega um krónu á móti krónu skerðinguna og réttmæti hennar.

Þetta gerði Steingrímur, verandi ófatlaður karlmaður í þeirri auknu valdastöðu sem fylgir því að vera forseti Alþingis, til að bregðast við gagnrýni frá kvenkyns þingmanni sem býr við samtvinnaða jaðarsetningu kvenfyrirlitningar, fötlunarfyrirlitningar og aldursfordóma.*

AUGLÝSING


2) Viðkvæmni-gildran: Þegar jaðarsettir einstaklingar benda fólki í forréttindastöðu á að eitthvað sem það hefur gert eða sagt sé niðurlægjandi, meiðandi eða særandi fyrir þá, eru algengustu viðbrögð forréttindafólksins að bregðast við með reiði, vörn, ásökun á móti eða algjörri þögn. Þetta eins og miðdepils-gildran verður til þess að fólk í forréttindastöðu heyrir ekki þann sársauka eða áskoranir sem fólk í jaðarstöðu er að reyna koma til skila. Steingrímur varð reiður, fór í vörn og kom með ásakanir á móti. (Hæ Klausturþingmenn, þið líka muniði).

3) Bjargvættar-gildran: Þegar fólk í forréttindastöðu gerir eitthvað sem virkar gott og jákvætt fyrir jaðarsetta hópa, en löngunin til að raunverulega bæta stöðu þessa jaðarsetta hóps ristir ekki dýpra en svo að öll orkan fer í að hampa sér fyrir það sem vel er gert í stað þess að taka gagnrýni, axla ábyrgð og gera betur. Hin meintu góðverk, verða því ekki annað en tilraun til að létta á eigin sektarkennd vegna eigin stöðu og forréttinda í samfélaginu.

Steingrímur gat bara séð það góða sem honum fannst hann hafa gert fyrir öryrkja á sínum tíma, en ekki skoðað hvort framkvæmdin á meintu góðverki væri mögulega gagnrýnisverð. Fötlunarfyrirlitning birtist einmitt oft í umræðu um hvað fatlað fólk og öryrkjar séu kostnaðarsamir fyrir samfélagið og þeim er iðulega gert að vera þakklátir fyrir það sem að þeim er rétt, en alls ekki krefjast einhvers meira.

4) Form-gildran: Þegar fólk í forréttindastöðu afvegaleiðir umræðu jaðarsettra hópa með því að einblína á formið en ekki efnið. Þannig fer öll áherslan á að skoða HVERNIG hlutir eru sagðir, hvaða baráttuaðferðir eru notaðar eða hvernig baráttumálum er forgangsraðað í stað þess að skoða um HVAÐ málið snýst. Þannig kemur forréttindafólk sér hjá því að þurfa takast á við kjarna málsins. Steingrímur sagði í ræðu sinni vera orðinn „ansi hugsi yfir því hvert samtök öryrkja og samtök aldraðra eru komin þegar nánast enginn talar orðið um þann hóp félagsmannanna sem er lakast settur og ekkert hefur annað en strípaðar greiðslurnar“. Það er ekki hans, sem karls í margfaldri forréttindastöðu, að ákveða hvernig jaðarsettir einstaklingar og hópar forgangsraða sinni mannréttindabaráttu.

Hann getur sjálfur orðið bandamaður og unnið að bættari kjörum þeirra, sem hafa ekkert annað en strípaðar greiðslurnar, en hann er ekki sá sem segir jaðarsettu fólki hvernig og í hvaða röð það eigi að há sína baráttu.  Og fyrst hann þurfti að bæta við „Jóhanna Sigurðardóttir, einn merkasti félagsmálaráðherra þessarar þjóðar, á annað og betra skilið frá kynsystrum sínum“ væri ekki vitlaust að líta í eigin barm, áður en hann sakar kvenkyns þingmann um að bregðast kynsystrum sínum, því þessi föðurlegi vandlætingartónn reiða forréttindakarlsins sem byrsti sig í pontu, angar einmitt af kvenfyrirlitningu.

Sem manneskja í margfaldri forréttindastöðu sjálf er þetta sá lærdómur sem ég hef dregið af því að reyna lifa grunngildi mannréttinda í verki. Að iðka mannréttindi er mun flóknara en að fara um þau fögrum orðum. Sem femínisti, lögmaður, þroskaþjálfi, mannréttinda aktivisti og foreldri vil ég axla mína ábyrgð á að stuðla raunverulegu jafnrétti og menningu þar sem borin er virðing fyrir mannréttindum allra. Í því felst að ég þarf bæði að axla ábyrgð á eigin hegðun og hafa hugrekki til að kalla aðra til ábyrgðar þegar þeir detta í forréttindagildrurnar fjórar. Það er hægt að bregðast við gagnrýni á málefnalegan hátt og án þess að ýta undir frekari kúgun og jaðarsetningu þeirra einstaklinga og hópa sem berjast fyrir mannréttindum sínum.

*Nú hugsa talnaglöggir lesendur, já en Steingrímur er nokkrum árum eldri en Inga. Jú vissulega, en aldursfordómar birtast mjög ólíkt eftir kynjum. Á meðan aukinn aldur karlmanna færir þeim aukna virðingu virkar það þveröfugt á konur eftir fimmtugt.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is