2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Frelsið er yndislegt

Áhugamál og ástríða fólks er misjöfn. Ég er til að mynda forfallinn ferðalangur og elska að drekka í mig menningu og sögu þjóða í gegnum bragðlaukana og myndavélina mína enda hef ég ferðast töluvert í gegnum tíðina, mikið í Evrópu en einnig í Ameríku og Asíu. En eins og alkunna er þá hafa ferðalög legið niðri undanfarna mánuði, ekki bara hér á Íslandi heldur alls staðar í heiminum og það hefur reynst mörgum erfitt. En þótt ég fái fiðring í magann við tilhugsunina um að skreppa upp í flugvél og setjast niður á notalegum stað á götuhorni í Róm í 30 stiga hita með aperol-spritz í hönd og ítalska smárétti á kantinum þá hefur það komið mér á óvart hvað ég er spennt núna að fara að ferðast innanlands. Ísland hefur nefnilega upp á svo margt að bjóða og nú fær landinn heldur betur að upplifa frelsið og víðáttuna í stórbrotinni íslenskri náttúru, frelsið er nefnilega yndislegt eins og segir í góðum dægurlagatexta hljómsveitarinnar Nýdanskrar.

Þetta sumar verður ef til vill svolítið eins og að stíga aftur í tímann um kannski ein 15 ár eða svo, því þótt við eigum eflaust og vonandi eftir að sjá einhverja erlenda ferðamenn þá er nokkuð ljóst að þeir verða mun færri en undanfarin ár. Kannski kemst þetta sumar í sögubækurnar undir nafninu heimasumarið mikla eða Íslendingasumarið. Hver veit? Eitt er víst að allir eru að skipuleggja eitthvað skemmtilegt íslenskt sumarfjör annaðhvort í tjaldi, húsbíl eða á hóteli. En það þarf ekki endilega að fara langt eða gera eitthvað flókið, það eru oft svo litlir og einfaldir hlutir sem geta veitt fólki hamingju. Lykillinn er að sitja ekki bara heima í volæði og bíða eftir að hamingjan komi heldur að búa okkur hana til sjálf. Það er svo auðvelt til dæmis með góðri máltíð, litlum fallegum hlut, ferðalagi á Þingvelli með góðum vinum og nesti í farteskinu eða garðveislu með fjölskyldunni. Ég segi stundum við manninn minn, þegar ég er búin að tjá honum nokkrum sinnum hvað eitthvað sé gott, skemmtilegt eða fallegt og hann farinn að horfa á mig með mæðusvið, hvað hann sé heppinn að vera giftur konu sem er gædd þeim eiginleika að gleðjast yfir litlu hlutunum í lífinu. Skál fyrir því!

Fyrir nokkru las ég grein um áhrif ferðalaga á hamingjuna. Þar kom fram að ferðalög geti veitt okkur hamingju mörgum árum seinna þar sem hægt er að hverfa aftur til baka í huganum og kalla þannig fram ánægjulegar minningar sem geta endurvakið hamingjuna. Myndir geta hjálpað til við að fríska upp á minnið og þess vegna er brýnt að muna eftir að smella af. Við vinnsluna á þessu blaði var mikið talað um Ísland, ferðlög, útilegur, íslenska veitingastaði, gististaði og afþreyingu enda er stór og afar skemmtilegur kafli um nokkra veitingastaði og kaffihús í Hveragerði og Borgarfirði í þessu blaði. Við skelltum líka í sælkeragarðveislu og gerðum frábærar uppskriftir fyrir íslensku útileguna. Á meðan sá þáttur var í vinnslu spiluðum við íslenskar dægurperlur sem okkur fannst passa í hið rammíslenska ferðalag. Umræðurnar urðu fljótt líflegar og skemmtilegar og allir höfðu sterkar skoðanir á því hvað ætti heima á þessum lagalista sem við ákváðum að búa til og setja inn á Spotfy og þeir sem áhuga hafa geta nálgast undir nafninu Gestgjafinn – Ferðalög (Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir). Allir voru þó sammála um að lagið Ég vil fara upp í sveit með Helga Björns ætti heima efst á listanum því íslenska sveitin er engu öðru lík.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum