Gaslýsing viðkvæma narsistans

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Höfundur / Elísabet Ýr Atladóttur

Hann á svo erfitt. Enginn skilur hann, þótt hann reyni alltaf sitt besta. Enginn gefur til baka, þótt hann gefi allt. Hann er svo skilningsríkur og góður, svo þolinmóður og einlægur, en alltaf er reynt að draga hann niður. Aumingja hann. Af hverju eru allir svona vondir við hann?

Hann er sá sem fyllir heimilið af rafmagnaðri þögn þegar honum mislíkar eitthvað. Þegar hann er reiður hreytir hann í þig fúkyrðum og grætur yfir því hvað þú ert vond við hann. Hann gerir alltaf allt fyrir alla og fær árásir í verðlaun. Hann býður þér að opna þig við hann og virðist svo stuðningsríkur og góður, þar til hann notar það gegn þér daginn sem þú þóknast honum ekki. Hann gerir lítið úr tilfinningum þínum og segir að þú sért að misskilja upplifun þína, útskýrir að tilfinningar þínar eru ekki bara rangar, heldur særandi.

Í dag finnst honum þú alveg rosalega klár og gáfuð. Á öðrum degi finnst honum þú þurfa að hætta að láta sem þú sért betri en allir aðrir. Fólk hefur nefnilega sagt honum að þú sért svo góð með þig, að þú látir því líða eins og það sé ómerkilegra en þú. Hvaða fólk? Hann segir þér aldrei hvaða fólk. Þú þarft líka að hætta að vera svona æst. Af hverju þarftu alltaf að æsa þig svona mikið þegar fólk er bara að reyna að tala við þig? Róaðu þig!

Að setja honum mörk er tekið sem óskiljanlegri sjálfselsku og grimmd. Aðstandendur hans taka hans hlið. Hann á svo erfitt, viltu ekki tala við hann? Ekki loka á þau líka, þau eru bara að reyna að hjálpa!

Hann hættir aldrei. Þau hætta aldrei. Hann á svo erfitt og það er þér og öllum öðrum að kenna; ekki honum. Ábyrgðin er alltaf hjá öðrum. Aumingja viðkvæmi narsistinn.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Þegar tryggingar snúast um fólk

Tryggingafélagið VÍS hefur nýlega vakið athygli fyrir að boða nýjung á bílatryggingamarkaði, svokallaðan Ökuvísi. Ætlunin er að...