Miðvikudagur 5. október, 2022
5.8 C
Reykjavik

Heimilisofbeldi – Af hverju fer hún ekki frá honum?

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Höfundur / Íris Eik Ólafsdóttir, fjölskyldufræðingur, réttarfélagsráðgjafi og sáttamiðlari hjá Samskiptastöðinni.

Af hverju fer hún ekki frá honum?

Eflaust eru margar ástæður fyrir því. Ein þeirra er að hún óttast í raun meira að fara en að vera. Á heimilinu er hún orðin sérfræðingur í að lesa í aðstæður og bregðast við til að fyrirbyggja ofbeldi. En ef hún fer þá þekkir hún ekki aðstæður og hefur enga stjórn á ofbeldismanninum… á ofbeldismanni sem hefur margítrekað hótað að gera eitthvað hræðilegt ef hún fer. Sama má segja um karla sem búa við heimilisofbeldi en þeir búa oft og tíðum við annars konar ógn, til dæmis hótanir um að þeir muni ekki fá að hitta börnin sín eða óttast að vera ekki alltaf á heimilinu til að vernda börnin fyrir ofbeldi móður ef hún er gerandinn.

Ofbeldishringurinn

Heimilisofbeldi fer í hringi, svo kallaðan „ofbeldishring”. Á fyrsta stigi er spenna að safnast upp, á öðru stigi losnar um hana í formi líkamlegrar eða andlegrar árásar. Þá tekur við þriðja stigið sem er kallað „hveitibrauðsdagarnir.”

Flestir eru á einu máli að þriðja stigið sé hættulegast því það sé ástæðan fyrir því að þolandinn fari ekki frá gerandanum. En þetta stig spilar einnig stórt hlutverk í stjórnun gerandans, hann lofar bót og betrun, segist ætla að leita sér hjálpar eða fara í meðferð, sendir blóm, býður jafnvel á deit og í dekur. Gerandinn er fullur eftirsjár og sýnir sínar bestu hliðar. Þarna fær þolandinn trú að þetta muni aldrei gerast aftur, gerandinn muni taka sig á og allt sé orðið eins og það á að vera. Oft eru lýsingar á gerandanum á þessu stigi á þá leið að ekki sé hægt að hugsa sér betri maka, allt leikur í lyndi þar til spenna byrjar að safnast upp á ný og nýr hringur hefst. Eftir því sem parið gengur í gegnum fleiri ofbeldishringi þá styttist tímabilið þar sem stig „hveitibrauðsdaganna” varir, ofbeldið eykst og verður alvarlegra (Lenore Walker, 1979).

- Auglýsing -

Athugið að hér er einungis stiklað á stóru í lýsingu á birtingarmynd ofbeldis sem er einungis hugsuð til þess að gefa hugmynd af vítahring heimilisofbeldis.

Þú ert ekki ein/einn fáðu ráðgjöf

Allir geta lent í þessum lúmska vítahring. Þegar manneskja býr við heimilisofbeldi upplifir hún sig eina og fasta í þessum aðstæðum. En þú ert ekki ein/einn, taktu upp símann og fáðu ráðgjöf. Það er bæði hægt að taka stór og lítil skref til að aðstoða þig. En fyrsta skrefið er alltaf að komast í samband við einhvern sem skilur aðstæður þínar, hefur hjálpað mörgum í þínum sporum og kann að leiðbeina þér með framhaldið út frá þínum forsendum.

- Auglýsing -

Í neyðartilfellum skaltu hafa samband við 112 og ekki hika. Hægt er að fá ókeypis viðtöl hjá Kvennaathvarfinu en þar er vaktsíminn 561-1205 opinn allan sólarhringinn og í Bjarkarhlíð s. 553-3000 er hægt að fá viðtöl að kostnaðarlausu hjá félagsráðgjöfum, lögreglu og lögfræðingum.

Ef þig grunar að þú sért að beita einhvern ofbeldi er afar mikilvægt að þú leitir þér aðstoðar, það munu allir virða það við þig og aðstoða. Á vef lögreglunnar má finna ýmsan fróðleik og lista yfir fagaðila sem eru sérfróðir um þessi mál bæði fyrir þolendur og gerendur ofbeldis: https://www.logreglan.is/fraedsla/ofbeldi/heimilisofbeldi/

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -