Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

„Hinsegin menning“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Iva Marín Adrichem er söngkona og aktívisti: 

Fátt hefur mér fundist fallegra en að sjá hvað samstaða með réttindabarátta hinsegin fólks var sjálfsögð í íslensku samfélagi og að sífellt fleiri virtust sameinast um að fagna fjölbreytileikanum. Þegar ég heyri talað um að fagna fjölbreytileikanum í samhengi við hinsegin fólk og aðra sem tilheyra minnihlutahópum vakna hjá mér alls konar spurningar. Hvað lítum við á sem fjölbreytileika? Er allur fjölbreytileiki raunverulega velkomin og velséður? Snýst fjölbreytileiki aðallega um það sem við sjáum utan frá eða er fjölbreytni hugarfars og persónuleika það sem skiptir mestu máli? Undanfarið hefur mér fundist æ erfiðara að átta mig á því hvað við í samfélaginu álítum að endurspegli fjölbreytileika,
sérstaklega þegar kemur að viðhorfum aðgerðarsinna og fólks sem margir telja að standi í
framlínunni í baráttu fyrir betri heimi.

Hinseiginleiki skiptir okkur mismiklu máli

Persónulega finnst mér það fallegasta við samfélagið okkar hvað fólk er ólíkt innanfrá. Að sjálfsögðu á það alveg jafnt við um hinsegin fólk og alla aðra. Hinseginleiki skiptir okkur mismiklu máli, rétt eins og þörf okkar til að tilheyra ákveðnum hópi. Sumum okkar sem vissulega heyrum undir hinsegin regnhlífina finnst óþægilegt þegar vísað er til okkar sem hinsegin fólks. Ég minnist þess vel þegar ég heyrði þetta orð fyrst. Þá var ég unglingur að átta mig á kynhneigð minni og með frekar lélegasjálfsmynd. Mér fannst þversögn í því að menn töluðu um að vera hinsegin á meðan samkynhneigð virtist vera orðin almennt viðurkennd í samfélaginu og mismunandi kynhneigðir eða óhefðbundin kyntjáning, sjálfsagður og eðlilegur hluti mannlífsins.Þó svo þetta orð hafi verið farið að venjast ágætlega, þá hrekk ég samt stundum enn í kút þegar það er notað og kýs ég að nota það ekki um sjálfa mig og helst ekki um annað fólk, nema það kjósi sjálftað skilgreina sig sem hinsegin.

Þetta viðhorf er alls ekki vinsælt og ég upplifi það sem svo að ákveðinn hópur innan „hinsegin samfélagsins“ sé mjög ósáttur við þau okkar sem erum ekki nógu virkir þátttakendur í „hinsegin menningu“. Sérstaklega hef ég orðið vör við að samkynhneigt fólk sem kýs að lifa lífi sem flestir myndu flokka sem hefðbundið og einfalt verði hreinlega fyrir aðkasti aðgerðarsinna innan hinsegin samfélagsins. Af einhverjum ástæðum virðist þessum aðilum mjög illa við sá staðreynd að samkynhneigð sé álitin nánast jafn sjálfsögð og gagnkynhneigð og það er eins og samkynhneigðir einstaklingar megi ekki falla of mikið inn í hið „hefðbundna“ samfélag. Ég hefði haldið að flestir myndu samgleðjast þegar fólk er að lifa því lífi sem það kýs sjálft og tjá sig á þann hátt sem það vill, sérstaklega þar sem baráttan fyrir þessum grundvallar mannréttindum hefur kostað margra ára blóð, svita og tár.

Á örfáum vikum hef ég upplifað skitkast, hatur og ljótleika

Stundum hef ég á tilfinningunni að ég og annað fólk sem finnst kynhneigð okkar ekki það
mikilvægasta í veröldinni skuldum öðrum að vera róttæk, taka alls konar pólitíska afstöðu og gera einkalíf okkar opinbert í þágu activisma. Síðustu daga hafa þessi viðhorf orðið deginum ljósari fyrir mér og á örfáum vikum hef ég upplifað skítkast, hatur og ljótleika sem ég vissi ekki að íslenskt samfélag byggi yfir. Þess má geta að ég hef helgað stóran hluta lífs míns mannréttindabaráttu og hef ég margt ljótt séð, en ekkert í líkingu sem á eftir fer hér að neðan.

Á dögunum lét höfundur einnar þekktustu bókaseríu í heimi þau orð falla á samfélagsmiðlum að einungis séu til tvö líffræðileg kyn, þ.e. karlar og konur. Hún hafði sett spurningarmerki við að konu í Bretlandi var vikið úr opinberu starfi fyrir að segja opinberlega að líffræðilegu kynin séu tvö. Jafnframt mótmælti hún því að fólk væri þvingað til að nota orð eða orðræðu sem samræmist ekki vísindum, s.s. að fólk fari á blæðingar, ekki konur.

- Auglýsing -

Án þess að vilja rekja þá atburðarrás sem á eftir fór í netheimum er skemst frá því að segja að þessum rithöfundi bárust fjölmargar líflátshótanir, svo ekki sé minnst á hótanir um líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi. Hér er um að ræða sjálfskipaða boðbera réttlætisins úr öfgaarmi hinsegin samfélagsins. Atburðarrásin erlendis fór svo úr böndunum að haldnar voru bókabrennur þar sem verk viðkomandi rithöfundar voru brennd. Fyrir mér hringja bókabrennur mjög sterkum viðvörunarbjöllum, því yfirleitt eru slíkir gjörningar skýrt merki um að mannkynið sé að sigla í hræðilega tíma sem einkennast af grófum aðförum að tjáningarfrelsinu. Stuðningsfólk viðkomandi rithöfundar hefur líka orðið fyrir kerfisbundinni útilokun, hótunum og bæði opinberu og persónulegu einelti sem enn sem komið er er þó bundið við netheima.

Í allri umræðu hef ég reynt að vera kurteis

Ég sem ötul talskona tjáningarfrelsis tók upp hanskann fyrir þessum skoðunum og hef fordæmt þau sem opinberlega hvöttu til ofbeldis, bókabrenna og útskúfunar fólks fyrir að tjá skoðanir sínar. Það var eins og við (kven)manninn mælt, að í hinsegin samfélaginu fékk ég þá fyrirsjáanlegu útreið að vera sökuð um fordóma og hatur á trans fólki. Útskúfað fyrir að hafa skoðun sem stendst ekki kröfur öfgaarmsins og að verja tjáningarfrelsið. Þeir sem þekkja mig vita ósköp vel að ég sé allt fólk sem manneskjur og dæmi engan út frá því að vera trans, með rautt hár eða prumpa glimmeri.

Kaldhæðnin er sú að sama fólkið og hafði mikið fyrir því hér áður fyrr, að innprenta í mig óharðnaðan unglinginn, að ég sem samkynhneigð, fötluð kona af blönduðum uppruna, sé kúguð og jaðarsett fórnarlamb hatandi samfélags, segir mér nú að mig skorti skilning á tilveru jaðarsettra einstaklinga.

- Auglýsing -

Enn meiri kaldhæðni sé ég í því að í flestum tilvikum eru þau sem ganga harðast gegn okkur sem höfum tjáð okkur til varnar ofangreindum rithöfundi, ekki transfólk. Svo virðist sem hér er um að ræða fólk sem aðgreina samfélagið eftir hópum og vill eigna sér minnihlutahópa og fórnarlömb sem það telur sig eiga að berjast fyrir. Í allri umræðu hef ég reynt að vera kurteis og opin fyrir öðrum sjónarmiðum og málefnalegum rökfærslum. Langflest svörin einkennast af því sem hefur best virkað fyrir slíka hópa til að berja niður
málefnalega umræðu þ.e.a.s. að beita gaslýsingartaktíkinni. Í henni felst að afvega­leiða, neita allri sök, setja fram mót­sagn­ir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í auka­at­riðin og túlka atburða­rás eftir á sem hentar mál­stað þeirra.

Nú hef ég, ásamt nokkrum vinum mínum stofnað frjálslyndan, opinn og lýðræðislegan
umræðuvettvang, fyrst og fremst ætlaðan samkynhneigðu og tvíkynhneigðu fólki en útilokar enga. Vettvanginn köllum við LGB teymið og þar verða allar skoðanir leyfðar og tilfinningarök ekki notuð til að útiloka fólk eða afvegaleiða mikilvæga umræðu. Eftir að við settum í loftið Facebooksíðu og létum skýra stofnyfirlýsingu fylgja, fór allt á hliðina á
samfélagsmiðlum. Okkur hefur verið hótað margvíslegri útilokun og ofbeldi.

Fjölskyldumeðlimir hafa fengið skilaboð þar sem áhyggjum og andúð á mér er lýst og fólki sem hefur stutt við okkar málstað er gert upp hatursfullar skoðanir. Einnig höfum við fengið fjölda skilaboða frá fólki sem segist líða eins en þorir ekki að tjá sig af ótta við einelti eða jafnvel að missa vinnu sína og lífsviðurværi. Eftir þessar uppákomur, ásamt mörgum fleiri, er ég orðin uppfull af vonbrigðum og sorg.

Ég er orðin virkilega fóbísk fyrir þöggun

Mín skoðun er að fólkið sem talar hæst um fjölbreytileika kunni ekki að meta fjölbreytileika nema þegar kemur að utanaðkomandi eða meðfæddum eiginleikum á borð við kyn, kynhneigð, aldur, fötlun, húðlit o.s.frv. Fjölbreytileika í hugsunarhætti, pólitískri afstöðu og lífstíl er virkilega ábótavant og mér finnst því miður viljinn til að fagna honum ekki vera fyrir hendi innan „hinsegin samfélagsins“. Þar hefur fjölbreytileikanum beinlínis verið fórnað í þágu skoðannakúgunar af hendi örfárra aðgerðarsinna sem myndar háværan minnihluta sem enginn valdi sem talsmenn.

Ég hef engan áhuga lengur á að vera talin hinsegin. Til að svara þeirri spurningu hvort ég sé hinseginfóbísk er stutta svarið nei. Hinsvegar skal ég fúslega viðurkenna að ég er orðin virkilega fóbísk fyrir þöggun, einelti, útskúfun og yfirgangi hinna sjálfskipuðu aðgerðarsinna innan minnihlutahópa. Mér finnst sú fóbía ekki neikvæð og vonast innilega til þess að fleira fólk fari að vakna til lífsins og þykja vænt um fjölbreytileika í öllum sínum myndum, sama hvort það hentar þess heimssýn eða ekki. Fjölbreytileikinn er eitt af því dýrmætasta sem við eigum en hann verður að fá að haldast í hendur við virðingu fyrir tjáningarfrelsinu. Nú þurfum við öll að svara fyrir okkur fullum hálsi og rétta úr kútnum. Það er einfaldlega of miklu að tapa!

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -