Þriðjudagur 23. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Hlúum að hjartanu okkar og hvert öðru

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir stuttu birti vinkona mín viðtal við sig á Facebook þar sem hún talaði um hvernig hún fann hamingjuna eftir að hafa lent í stóru áfalli. Í þessu einlæga viðtali talaði hún um hvernig hún fór í gegnum gríðarlega sársaukafullt tímabil, eftir að áfallið sjálft var yfirstaðið, þar til að hún gat ekki meir og fór að leita lausna.

Trauma er ekki það slæma sem hendir þig, heldur það sem gerist innra með þér þegar eitthvað slæmt hendir þig – segja margir fremstu sálfræðingar nútímans. Þessi vinkona mín talaði um nákvæmlega þetta, hvernig innra líf hennar umturnaðist eftir að atvikið átti sér stað. Heimurinn var skyndilega orðinn að ógnandi stað þar sem hætturnar leyndust alls staðar og hver sem er var líklegur til illra verka. Hún var rænd öllu öryggi og hugurinn var þjakaður af ótta. Atvikið sjálft var löngu liðið hjá en innra með henni stoppaði tíminn þegar atvikið gerðist og hættan því sífellt áþreifanleg.

Ég bý að persónulegri reynslu af nákvæmlega þessu. Á fræðimáli er þetta kallað áfallastreita og í mínu tilviki var hún flókin og langvarandi. Það sem kom mér mest á óvart þegar ég fór að kafa inn í sjálfan mig var að sjá hvar sárasta þjáningin átti sér uppsprettu. Það sem vó þyngst voru ekki öll hræðilegu atvikin sem áttu sér stað, heldur var það allt það góða sem átti sér EKKI stað.

Ég var ekki gripinn. Ég fékk enga úrvinnslu á því sem átti sér stað innra með mér. Ég upplifði mig ekki geta, mega og jafnvel ekki kunna að tala um það. Ég var einn og án getu til að höndla það, svo ég aftengdist sjálfum mér og afleiðingarnar voru skelfilegar.

Mannskepnan er fær um að ganga í gegnum hinar ótrúlegustu þolraunir og til eru óteljandi dæmi um nákvæmlega það, til dæmis vinkona mín sem ég nefndi hér að ofan. Til dæmis ég. Það er þó eitt sem er lykilatriði í þessu öllu saman, það sem aðskilur mannskepnuna frá öðrum skepnum; það sem Margaret Mead sagði vera fyrsta merki um upphaf siðmenningar og það er samkenndin.

Við lifum á tímum sem eiga sér enga hliðstæðu og það hefur verið hreyft við innra lífi okkar allra. Sumir standa sterkari á svellinu en aðrir en ég leyfi mér að fullyrða að enginn hefur sloppið við aukaverkanir hinnar andlegu heimskreppu sem læðst hefur yfir hnöttinn eins og mistur sem enginn sér fyrr en allt í einu. Einangrun, fjarlægðarskyldur, fjöldatakmarkanir, samkomum aflýst, veisluhöldum frestað, atvinnuleysi, andlegt gjaldþrot.

- Auglýsing -

Mannfólk þrífst illa án tengsla, við þurfum á hvert öðru að halda. Ungbörn láta lífið ef þau eru ekki tekin upp, þrátt fyrir að öllum öðrum grunnþörfum þeirra sé sinnt. Ég held að þetta breytist lítið þegar við erum komin í fullorðinsbúninginn, eini munurinn er að andlátið birtist sem aftenging af andlegum toga þótt líkaminn lifi enn. Því fylgir vondur verkur og hann getur orðið mörgum ofviða.

Það hefur líklega aldrei verið mikilvægara en nú, að við sem heild stígum inn í samkenndina. Þann eiginleika sem var upphaf siðmenningar og okkur öllum til lífs. Í stað þess að stíga enn frekar í sundur og aðgreina okkur í hópa þá vona ég að við getum tekið höndum saman og sigrast á þessu sem ein heild. Við erum í þessu saman, öllsömul. Bólusettir og óbólusettir. Saman komumst við í gegnum þetta, með samkenndina að vopni og von um hækkandi sól.

Trauma er ekki það slæma sem hendir þig, heldur það sem gerist innra með þér þegar eitthvað slæmt hendir þig – hlúum að hjartanu okkar og hvert öðru.

- Auglýsing -

Höfundur: Bjarki Steinn Pétursson, jógakennari.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -