Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Hryllingur mannlífsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 6. tölublaði Vikunnar 2020

Allt frá því ég stautaði mig í gegnum fyrstu Agöthu Christie-bókina á ensku, þrettán ára gömul, hef ég verið sjúk í sakamálasögur. Þessi drottning glæpasagnanna hafði lítið verið þýdd á íslensku og aðeins brennandi áhugi minn hélt mér gangandi blaðsíðu eftir blaðsíðu þar sem meira en sjötíu prósent orðanna voru framandi. En með hjálp samhengisins skildi ég sumt og orðabókin var líka góður vinur. Og áfram hélt ég. Næsta bók var aðeins auðveldari og smátt og smátt bættust fleiri höfundar í safnið. Ngaio Marsh, Dorothy L. Sayers, Margery Allingham og fleiri og fleiri. Raunverulegir glæpir hafa hins vegar aldrei höfðað neitt sérstaklega til mín. Kannski finn ég skjól í að ímynda mér að svona hryllilegir atburðir myndu aldrei gerast í raunveruleikanum sem er auðvitað barnalegt óraunsæi. Unnur Arna Borgþórsdóttir er algjör andstæða mín hvað þetta varðar. Raunverulegir glæpir heilla hana mest en hún dregst að þessum málum af sömu ástæðum og ég gríp hverja leynilögreglusöguna á fætur annarri. Það er sálfræðin að baki sem heillar.

Hvers vegna gera menn öðrum illt? Er grimmdin okkur eðlislæg eða kemur hún til af vondu atlæti? Og hvernig bregst fólk við hræðilegum aðstæðum? Það er áhugavert, hvort sem setið er í notalegum setustofum breskra sveitasetra og hlustað á Hercule Poirot eða Miss Marple útskýra hvað rak morðingjann til ódæðisverksins eða á lögreglumenn í starfi fyrir yfirvöld í heimalandi sínu rekja málavexti. Þess vegna kýs Unnur Arna að lesa um hræðileg morðmál og verstu glæpamenn sögunnar og rekja fyrir hlustendum hlaðvarpsins Morðcast, hvað gerðist og hvers vegna. Hún segir frá illmennum en líka hetjum sem hefja sig upp yfir illskuna og leggja allt í sölurnar til að bjarga öðrum.

Sjálf er Unnur Arna samviskusöm og dugleg kona. Hún er vegan vegna þess að hún vill að við göngum vel um jörðina og sýnum dýrunum virðingu og hún var mikil íþróttakona þar til að slys dró úr getu hennar til að stunda þær. Aðeins átján ára fótbrotnaði hún í fótboltaleik og fituambólur fóru á flakk um blóðrásina og enduðu upp í heila. Læknar vissu fyrst ekki hvað væri að og skáru þess vegna í brotna fótinn til að létta á þrýstingi. Vegna þess er Unnur Arna sjaldan verkjalaus en hún er þakklát fyrir að ekki fór verr. Hugsanlega getur hún þess vegna auðveldlega sett sig í spor þeirra sem verða fyrir ofbeldisárás og þurfa að leiða hjá sér sársaukann ætli þeir að lifa af. Umfram allt er hún hins vegar glaðlynd, hugmyndarík og skemmtileg stúlka sem sönn ánægja er að segja frá hér í Vikunni.

Sjá einnig: Morð á morð ofan á Egilstöðum

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -