Föstudagur 19. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Huggulegt teboð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Óla Björn Kárason

Hugmyndin um að hófsemd sé dyggð í baráttu hugmynda er ein birtingarmynd hins pólitíska rétttrúnaðar sem náð hefur að festa rætur í íslensku samfélagi líkt og í fleiri lýðræðisríkjum. Málamiðlun er sögð skynsamlegust. Samræðustjórnmál koma í stað átakastjórnmála, sem eru sögð arfleifð gamalla tíma. Kjörnir fulltrúar eiga að setjast niður, ræða málin og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Allir gefa eftir sem er sífellt auðveldara eftir því sem hugsjónir verða fjarlægari.

Draumurinn er að stjórnmál hætti að snúast um pólitískar hugsjónir og snúist heldur um „praktískar lausnir“ sem fundnar eru út eftir samræður, líkt og um huggulegt teboð sé að ræða. Öllu er pakkað inn í skemmtilegheit og orðskrúð. Umbúðir koma í stað hugmyndafræði.

Hugmyndafræði samræðustjórnmála og málamiðlana er hættuleg. Pólitísk og hugmyndafræðileg mörk milli stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna þurrkast út. Stjórnmálamenn samræðunnar byggja ekki á skýrri hugmyndafræði heldur á almennum og óljósum stefnumálum. Þeir forðast efnisatriði, vilja ekki brjóta mál til mergjar eða takast á með rökræðum við þá sem eru annarrar skoðunar. Þeim fellur betur að nota klisjur og innantóma frasa og vilja ræða ferla og tæknilegar útfærslur.

Pólitísk hrossakaup verða auðveldari og jafnvel viðurkennd leið í stjórnmálum. Niðurstaðan verður eitthvert moð eða hrærigrautur sem matreiddur er í fundarherbergjum og þingsölum þar sem málamiðlun er mikilvægari en að standa fast við grunnhugsjónir. Kerfishugsun nær yfirhöndinni. Hófsemd er sögð dyggð.

„Hugmyndafræði samræðustjórnmála og málamiðlana  er hættuleg. Pólitísk og hugmyndafræðileg mörk milli stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna þurrkast út.“

Samkeppni raskar hugarró

- Auglýsing -

Þannig nær pólitísk rétthugsun yfirhöndinni í þjóðfélagsumræðunni og fjölmiðlar spila undir. Samkeppni hugmynda raskar hugarró þeirra sem sitja í teboðinu. Ögrar samtalinu og ógnar sameiginlegri niðurstöðu. Hugmyndabarátta og rétthugsun geta því aldrei átt samleið.

Hugmyndafræðileg átök og hörð skoðanaskipti skila okkur áfram. Andstæðum skoðunum er hægt að sýna umburðarlyndi og pólitískum mótherjum kurteisi. Það á hins vegar ekkert skylt við hófsemd.  Hófsemd í réttindabaráttu samkynhneigðra hefði skilað jafnlitlu og hófsemd í jafnréttisbaráttu kynjanna eða þegar lagt var til atlögu við ofurvald lögverndaðra yfirstétta. Þau ríki þar sem átök hugmynda – samkeppni hugmynda – hefur verið leyfð eru mestu og öflugustu velferðarríki heims. Krafan um að gera átakastjórnmál útlæg er því krafa um stöðnun og afturför. Með henni er reynt að koma í veg fyrir samkeppni hugmynda. Hófsemd er því ekki alltaf dyggð, allra síst þegar barist er fyrir grundvallaratriðum.

Fyrir stjórnmálamanninn er örugglega miklu þægilegra að ræða málin stutta stund í huggulegheitum og ná sáttum. En slíkur stjórnmálamaður er ekki mikils virði og jafnvel hættulegur.  Ef kjósendur standa í þeirri trú að valið sem þeir eiga í kjörklefanum sé lítið annað en val á milli mismunandi tedrykkjumanna, sem sumir eru huggulegri og skemmtilegri en aðrir, sjá þeir lítinn tilgang í að taka þátt í kosningunum. „Það er sami rassinn undir þeim öllum.“ Og þannig molnar undan lýðræðinu.

- Auglýsing -

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -