Miðvikudagur 24. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Hvenær er í dag?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Jóhönnu Sveinsdóttur

Ég virðist ekki vera sú eina sem hefur misst allt tímaskyn í kófinu. Ég hitti lækninn minn í gær, sem vildi sjá mig aftur eftir tvo mánuði, þannig að hún bókaði mig í byrjun júní. Við vorum síðan báðar jafnhissa þegar við áttuðum okkur á að það er byrjun júní.
Ég held að þetta stafi af því að innri lífsklukkan okkar, þessi sem skynjar tíma og rúm, er í fullkomnu rugli. Klukkan er vön að tikka í takt við rútínuna, þið vitið – jól – áramót – útsölur – stormur – páskaegg  – Eurovision – Þjóðhátíð – skólasetning – ný sería af Survivor – kókakólalestin – aftur jól – margfaldað með u.þ.b. 80 árum = lífið. Við þurfum ekki einu sinni dagatal.

Nema núna byrjaði árið með fimm vikna löngum janúar, svo kom hlaupaár í febrúar, mars stóð í 87 daga, apríl í 76 daga og maí var 2 dagar. Þannig mér reiknast til að við séum á sirka 191. degi febrúmarsiprílimaí-mánaðar og að við séum búin að vera heima hjá okkur síðan í október árið 1997. Þversögnin er síðan sú að sjaldan hefur jafnlangdreginn vetur liðið svona hratt þannig að eðlilega er tímaskynið orðið svolítið brenglað.

Við mænum ráðvillt út um gluggana á einangrunarkössunum okkar, herðum ólina á náttsloppnum, fáum okkur sopa af sérríi og spyrjum okkur: Hvenær er eiginlega í dag? Er mars, eða nóvember? Við stígum út fyrir, horfum í kringum okkur, sjáum býflugu og miðaldra mann á mótorhjóli. Angan af kræsingum á gasgrilli leggur yfir og í fjarska ómar sláttuvél. Við finnum hinn eina sanna íslenska sumarboða leika upp undir náttsloppinn, norðankulda blönduðum sólaryl. Það er nefnilega bara þannig krakkar, það er komið sumar. Nú brosum við framan í rigninguna og keyrum lífsklukkuna aftur í gang. Hvenær er í dag? Það er byrjun júní og klukkan er tvær vikur í lúsmý.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -