Jarðskjálftabirgðir

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Eftir / Nönnu Rögnvaldardóttur matreiðslubókahöfund

Fyrir fjöldamörgum árum, þegar börnin mín bjuggu ennþá heima, voru þau einhverntíma að velta fyrir sér dálitlum lager af niðursuðudósum sem ég átti í búrinu, og spurðu mig til hvers ég væri eiginlega að sanka þessu að mér. Ég sagði að það gæti nú verið gott að eiga þetta ef einhverjar hamfarir yrðu, til dæmis Suðurlandsskjálfti – ég held að ég hafi nefnt hann sérstaklega af því að þá var nýbúið að vera að ræða eitthvað um hættu á slíkum. Þetta þótti skondið og eftir þetta gekk dósasafnið undir nafninu jarðskjálftabirgðirnar – og gerir enn.

En ég var reyndar ekkert að búa mig sérstaklega undir jarðskjálfta og þetta voru ekki dósir með fiskbúðingi, saxbauta eða grófhökkuðu kindakjöti í hlaupi, sem þá var hægt að fá (fiskbúðingur fæst reyndar enn). Nei, þetta voru tómatar og tómatvörur af ýmsu tagi, nokkrar gerðir af baunum, kókosmjólk, túnfiskur og ýmislegt fleira sem mér fannst gott að eiga og geta gripið til í stað þess að hlaupa út í búð. Öll mín búskaparár hef ég tekið af jarðskjálftabirgðunum eftir hendinni og fyllt á þær jafnóðum, þetta eru ekki þrjátíu ára gamlar dósir, þótt ég ætli ekki að fullyrða um aldurinn á sumum þeirra.

Þetta gildir ekki bara um niðursuðuvörur. Ég er yfirleitt vel birg af kornvöru, pasta, þurrkuðum baunum og öðru sem geymist vel, frystirinn er oftast fullur og grænmetisskúffan í ísskápnum líka. Ekki vegna þess að ég kaupi inn í stórum umbúðum, eiginlega þvert á móti því að ég bý ein og reyni frekar að kaupa litla skammta ef hægt er. En ég reyni að fara sjaldan í búð og hef nýtt mér heimsendingar mikið síðustu tvö árin.

Og nú eru hamfarir skollnar á, óvænt og þó ekki. Ég er búin að vera í einangrun í sex vikur, vinn heima og fer ekki út fyrir hússins dyr. Fer ekki í búð, læt ekki senda mér neitt matarkyns, fæ engan til að kaupa fyrir mig og skilja eftir á stigapallinum. Ég er nefnilega að nýta jarðskjálftabirgðirnar mínar, nú er þeirra tími kominn. Allan þennan tíma hef ég eingöngu verið að elda og nýta hráefni sem ég átti til þegar einangrunin hófst – og þar sem ég ákvað ekki að gera þetta svona fyrr en á þriðja degi hafði ég ekkert birgt mig upp umfram venjuleg helgarinnkaup.

Svo að nú koma birgðirnar sér vel, og líka allt þetta sem ég hef keypt af því að ég hef rekist á það einhvers staðar og það er óvenjulegt eða ódýrt eða bara girnilegt og ég hef ætlað að nota einhverntíma en sá tími hefur ekki komið – fyrr en núna. Sumu var ég búin að steingleyma og man jafnvel ekkert hvaðan er komið …Ég er í sambandi við marga erlenda matreiðslubókahöfunda og áhugafólk um mat og flestir hafa sömu sögu að segja: nú er verið að grúska í skápunum og draga fram alls konar gleymt góðgæti og finna leiðir til að nota það í sóttkvíarmatseldinni.

Auðvitað klárast sumt fljótt, til dæmis ýmislegt ferskt grænmeti, salat og þess háttar, svo kannski mjólkurvörur og fleira, en það er svo oft hægt að finna eitthvað sem nota má í staðinn og þar kemur niðursoðna og frosna grænmetið sér vel og eins baunir af ýmsu tagi er hægt að nota ótrúlega víða (ég notaði nýverið t.d. afgang af blönduðum baunum í kókoskúlur í staðinn fyrir smjör). Ég hef að minnsta kosti ekki eldað mér sama eða svipaðan rétt tvisvar allan þann tíma  sem ég hef lifað á jarðskjálftabirgðunum.

Reyndar hef ég sagt frá kvöldmatnum mínum á blogginu mínu í máli og myndum en það er fyrst og fremst dagbókin mín, ekki uppskriftir fyrir aðra (þótt sjálfsagt megi finna ýmislegt nothæft í þeim), því að þær byggjast á því sem ég átti til þegar einangrunin hófst og þar kenndi sannarlega ýmissa grasa, sem ekki finnast í hverju búri. Þetta er bara lýsing á því hvernig spilað er úr því sem til er. Ég veit ekki hvað ég held þessu lengi áfram; ég á nóg af ýmsu enn en það er farið að reyna aðeins meira á hugmyndaflugið og sköpunargleðina.

En ef maður ætlar nú að búa sig undir hamfarir eða sóttkví, þá er eitt og annað sem gott er að eiga: hrísgrjón, pasta og gjarna aðrar kornvörur; ýmsar tegundir af niðursoðnum og/eða þurrkuðum baunum, niðursoðnir tómatar, frosinn maís, grænar baunir og annað grænmeti; kartöflur og rótargrænmeti með frekar langt geymsluþol (ekki gleyma lauk); ávextir, ferskir, frosnir og þurrkaðir; kryddmauk, sósur og krydd til að bragðbæta matinn; hveiti og ger til að baka brauð (nei, það þarf ekki að vera súrdeigsbrauð); smjör og olía; kaffi eða te. Og allt hitt sem ykkur finnst nauðsynlegt í daglegri matargerð. Hitt er svo einstaklingsbundið hvort fólk á í ísskáp eða frysti, beikon, kótelettur, nautahakk, kjúklingabringur og ýsuflök – eða jarðskokka, kjúklingahjörtu, kálfatungu, guanciale eða risarækjur. Úr þessu öllu má gera alveg ljómandi góðan mat ef búrskápurinn er vel birgur.

Og það eru ýmsir kostir við að eiga dálitlar matarbirgðir. Ekki bara ef maður skyldi þurfa skyndilega í sóttkví eða ef bresta á náttúruhamfarir eða önnur óáran. Það getur líka komið sér vel fyrir budduna í tímabundnum örðugleikum að fara í gegnum skápa og frysti og athuga hvað til er og hvort ekki sé hægt að nota það í staðinn fyrir að eyða peningum í eitthvað annað. Matarreikningurinn minn fyrir undanfarnar sex vikur er samtals núll krónur. Það munar um minna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira