Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Leigumenn Samherja og æra blaðamanns

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji er í vondum málum. Mútur og annað siðleysi hefur átt sér stað í útrás fyrirtækisins í Namibíu. Félagið hefur komist yfir miklar veiðiheimildir í landinu með aðferðum sem verða í besta falli að teljast vafasamar. Miklir fjármunir runnu til áhrifamanna í Namibíu sem höfðu stöðu til að liðka fyrir því að fyrirtækið fengi kvóta við strendur landsins. Ekki er deilt um það að úr sjóðum Samherja runnu fjármunir sem höfðu allt annað en eðlilegan tilgang. Ríkisútvarpið og Stundin í samvinnu við alþjóðleg samtök unnu ítarlegar fréttaskýringar um framferði Samherja í Namibíu. Umfjöllunin hefur orðið til þess að spillingarlögreglan í Namibíu hefur handtekið þá sem þáðu fé eða greiða af sjávarútvegsfyrirtækinu. Um er ræða menn embættismenn og stjórnmálamenn úr efsta lagi samfélagsins. Í framhaldi af málinu hefur Samherji hrakist frá Namibíu með rekstur sinn. Ekki er um það deilt að framganga ráðamanna fyrirtækisins var beinlínis svívirðileg. Mútur hafa átt sér stað. 

Heimurinn allur varð vettvangur Samherja

Samherji er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Íslendinga. Fyrirtækið reis til hæstu hæða fyrir dugnað skipstjórans Þorsteins Vilhelmssonar og Þorsteins Más Baldvinssonar framkvæmdastjóra. Þeir áttuðu sig á þeim tækifærum sem lágu í kvótakerfinu. Með svokölluðum skipstjórakvóta fengu þeir miklar veiðiheimildir. Skipstjórinn var aflakló og fyrirtækið stækkaði óðum. Þeir keyptu önnur fyrirtæki og urðu smám saman risi í sjávarútvegi. Svo hófst útrásin og Samherji fótaði sig erlendis. Evrópa og Færeyjar opnuðust þeim og gróðinn var mikill.  Heimurinn allur varð vettvangur Samherja og óskabörn íslensku þjóðarinnar voru með byr undir vængjum. 

Samherjamenn hafa þótt harðir í horn að taka. Seðlabankinn taldi fyrirtækið hafa brotið lög með viðskiptum yfir landamæri og sektaði Samherja. Sektin var felld niður af Hæstarétti en málið allt var fyrirtækinu erfitt. En sá ímyndarskellur var þó grín ef litið er til mútumálsisn í Namibíu. Það mál gæti hæglega orðið Samherja að falli. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri hefur svarið af sér sakir og segist ekki hafa vitað af framferði undirmanna sinna í Afríku. Vandinn er hins vegar sá að forstjóri og stjórn eru ævinlega ábyrg fyrir rekstrinum. Ef vel gengur þá uppskera æðstu menn rétt eins og þeir gjalda fyrir afglöp eða áföll í rekstri. Skipstjóri ber ævinlega ábyrgð á skipi sínu, hvort sem er í svefni eða vöku. Þar liggur vandi Þorsteins Más og stjórnar Samherja. Múturnar meintu urðu á þeirra vakt og engin leið að millistjórnendur Samherja taki endanlega ábyrgð á svívirðunni. 

Fréttamenn Samherja eru á beit í bakgarði fyrirtækisins

Nýjasta útspil Samherja er að koma sér upp leigumönnum til hvítþvottar. Rannsókn á fyrirtækinu er keypt og komið upp fótgönguliði til að klekkja á sendiboðunum sem hafa dregið syndir og sukk fyrirtækisins fram í dagsljósið. Samherja nægir ekki að hafa þau völd sem felast í því að hafa einkaleyfi á fiskveiðum. Þeir vilja koma sér upp sínu eigin dómskerfi og sínum eigin fjölmiðlaheimi. Þeir vilja verða allsráðandi og undanþegnir reglum samfélagsins. Liður í þessu er að taka niður þann fréttamann sem gekk lengst í uppljóstrunum varðandi mútur í Namibíu. Nýjustu fréttir um að hann hafi átt við 10 ára gamla skýrslu um verðlag á sjávarafla eru vísbending um að hann verði afgreiddur með öllum tiltækum ráðum. Þorbjörn Þórðarson, fyrrverandi fréttamaður, er nýttur til þess að koma höggi fyrrum kollega og berja Ríkisútvarpið niður í leiðinni. Jón Óttar Ragnarsson, fyrrverandi rannsakandi hjá Sérstökum saksóknara, er nýttur til að teikna upp þann veruleika sem Samherja hugnast. Aðferðin er sú að koma sér upp sinni eigin fréttastofu sem hefur aðallega þann tilgang að sverta sendiboða hinna illu tíðinda. Þeir líta þannig á að fall sendiboðans leiði til þeirra eigin upprisa. Fréttamenn Samherja eru á beit í bakgarði fyrirtækisins. Það er ekkert til sparað með auðinn að vopni. Nú er fjallið komið með jóðsótt. 

Þetta er sama nefndin og sektaði sjónvarpsstöðina Hringbraut

Nú kann svo að vera að Helgi Seljan hafi misstigið sig eins og leigumenn Samherja fullyrða. En það eru til aðferðir til að varpa ljósi á það mál. Blaðamannafélagið heldur úti siðanefnd. Þá er svokölluð Fjölmiðlanefnd starfandi. Henni er ætlað að koma skikk á mál sem snúa að fjölmiðlum. Þetta er sama nefndin og sektaði sjónvarpsstöðina Hringbraut vegna þátta sem gerðir voru um vonsku Seðlabankans gagnvart Samherja sem styrkti gerð þáttanna. Loks eru það dómstólar. Ef Samherjamenn vilja sækja réttlæti þá ber þeim að fara með sín mál í þann farveg í stað þess að kokka upp mál og niðurstöður eftir sínu höfði. Við eigum kerfi sem er fullfært um að fjalla um framgöngu Helga Seljan og Ríkistvarpsins. En þessi gerð réttlætis hentar væntanlega ekki milljarðamönnunum sem ætla að afgreiða daglaunamanninn eftir sínum eigin kokkabókum. Nauðsynlegt er að íslenska þjóðin fylgist vandlega með framvindunni næstu daga og láti ekki glepjast. Samherji er ekki hafinn yfir lög og rétt fremur en Ríkisútvarpið og Helgi Seljan. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -