Fimmtudagur 25. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Leikhús tískunnar – Theatre de la Mode

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur: Linda Björg Árnadóttir, hönnuður og lektor við Listaháskóla Íslands

Þegar Þjóðverjar hernámu París árið 1940, var öllum tískuhúsum lokað og þau ekki opnuð aftur fyrr en eftir að borgin var frelsuð árið 1944. Tísku- og textíliðnaðurinn hafði fyrir stríð verið næststærsti iðnaður Frakklands og vinnuveitandi. Á meðan á hernáminu stóð voru Þjóðverjar með plön um að flytja iðnaðinn og þekkinguna til Berlínar og ætlunin var að gera Berlín að tískuborg heimsins en það gekk augljóslega ekki eftir. Þá var talað um að einn tískukjóll af bestu gæðum væri að sama virði og tíu tonn of kolum og að flaska af Parísarilmvatni var virði tveggja tonna af bensíni.

Eftir stríð þurfti að finna leið til þess að koma iðnaðinum aftur af stað en efni voru af skornum skammti og ekki var nein augljós leið til hvernig best væri að bera sig að.

Forkólfar tískunnar komu upp með algerlega frábæra hugmynd. Tískuhúsin tóku sig saman og bjuggu til mörg hundruð dúkkur sem voru 1/3 af manneskju að stærð og hönnuðu og saumuðu á þær tískufatnað. Þessar dúkkur átti síðan að senda í ferð fyrst um Evrópu og svo til Ameríku í þeim tilgangi að safna peningum til stríðsaðstoðar en einnig til þess að sýna þekkingu á hönnun og handverki sem átti sér ekki hliðstæðu í vestrænum heimi. Þessi sýning var kölluð „Theatre de la Mode“ eða Leikhús tískunnar.

Tískuhúsin sem tóku þátt voru m.a. Dior, Nina Ricci, Hérmes, Sciapparelli, Balenciaga og mörg fleiri. Notaðir voru afgangar af textíl frá því fyrir stríð (það var það eina sem var til) og allt var búið til í þessari „mineature“ stærð; rennilásar, hnappar, hanskar, hattar og handtöskur og hvergi var slakað á gæðum. Skartgripafyrirtækin Van Cleef and Arpels og Cartier bjuggu til skartgripi á dúkkurnar, hárgreiðslumenn greiddu hár og andlit voru máluð. Dúkkunum var stillt upp á eins konar sviði og með þessu átti að segja sögu tísku, sýna þekkingu og færni og endurlífga iðnaðinn ásamt því að safna peningum.

Þetta tókst með eindæmum vel og sló í gegn. Sýningin ferðaðist fyrst til borga Evrópu, m.a. London og Kaupmannahafnar en svo til Ameríku. Í þessari ferð náðist að safna háum upphæðum sem fóru í uppbyggingu í Frakklandi en einnig í að kynna þekkingu hins franska tískuiðnaðar. Í framhaldinu varð eftirspurn eftir franskri tísku og hófst þá endurreisn iðnaðarins.

- Auglýsing -

Þetta var í raun mjög vel heppnuð ímyndarherferð. Á þessum tíma var auðvitað mun erfiðara að miðla efni en í dag. Það var heldur ekki í boði að vera með tískusýningu með klæðnaði í fullri stærð því að það var einfaldlega ekki til efni eða aðföng til þess og slíkt hefði ekki fengið eins góða kynningu og þetta frumlega verkefni. Þarna var, af litlum efnum en mikilli útsjónarsemi og hugmyndaauðgi, endurbyggður iðnaður sem leggja þurfti af í nokkur ár vegna heimsstyrjaldarinnar.

Leikhús tískunnar féll síðan í geymslu og gleymdist þangað til að það fannst aftur árið 1987 og hefur síðan verið lagfært og núna er hluti þess til sýnis í Mary Hill Museum í San Francisco.

Við íslendingar sjáum núna fram á að þurfa að endurbyggja ferða- og hótel iðnaðinn algerlega. Megi útsjónarsemi og hugmyndaauðgi verða okkur að leiðarljósi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -