Miðvikudagur 4. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Mamma hataði mig svo mikið að hún studdi manninn sem nauðgaði mér

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég á varla góða minningu um móður mína – hún var grimm, fjarlæg og ofbeldisfull á milli þess sem hún gat verið góð og skemmtileg, en þá aðallega þegar annað fólk var í kring.

Það átti alltaf allt að vera fullkomið utanfrá en þegar þú leist inn þá sástu raunveruleikann blasa við þér eins og ís.

Móðir mín gerði aldrei neitt rangt – allt sem hún gerði voru afleiðingar af okkar hegðun eða einhverra annarra; hún lagði sérstaka fæð á mig en dýrkaði systur mína.

Hún kenndi systkinum mínum að það væri í lagi að koma illa fram við mig og meira að segja lagði hún sérstaka áherslu á að ég væri svarti sauðurinn í minni fjölskyldu. Hún sagðist þurfa að læðast með veggjum því hún skammaðist sín svo fyrir mig þegar ég varð unglingur og lét það flakka í mín eyru að hún vildi að ég hefði dáið frekar en að leggja þessa miklu byrði á hana.

Ég hafði farið að stelast til að reykja hass og drekka fyrir fermingu – kom seint heim og stal peningum. Ég var í uppreisn! Ég upplifði mig ekki örugga heima og ég upplifði mig ekki örugga í skólanum vegna eineltis. Ég átti hvergi pláss – mamma hataði að ég væri nefnd í höfuðið á föðurömmu minni, sem var að hennar sögn, vægast sagt vond og svo var hún líka feit – ég skyldi nú passa mig svo ég myndi ekki enda eins og hún, feitur alki.

Hún var viss um að ég væri alki þegar ég var 13 ára og sendi mig á Unglingaheimili ríkisins og svo áttu eftir að fylgja næstu tvö árin, þrjú unglingaheimili til viðbótar því ekki var hægt að hafa þennan brjálæðing nálægt sér.

- Auglýsing -

Ég var fljót að átta mig á að ef ég ætti að lifa af þá þyrfti ég að hætta að finna til, ég þurfti að búa til harðan skráp og ekki treysta neinum. Ekki þurfa á neinum að halda því annars var hætta á að ég yrði meidd.

Mamma kom og fór út úr mínu lífi – eins og sannri narsisískri drottingu sæmir.

Ég mátti vera með þegar það passaði, eins og á jólum, en plís ekki vera að koma nálægt ef ekki er þörf að sýnast fyrir öðrum.

- Auglýsing -

Mamma hataði föður minn og lét alla sem vildu heyra það. Hann var vondur og meira að segja gekk hún svo langt að segja að hann hefði nauðgað sér andlega (hvað svo sem það þýðir).

Hún var og er í endalausri keppni við hann – okkur mátti varla þykja vænt um hann því hún upplifði það sem persónulega höfnun. Við áttum bara að hugsa um hana.

Móðir mín í kví kví lagði svo mikla fæð á mig, dótttur sína – að hún tók afstöðu gegn mér þegar ég sagði frá kynferðisofbeldi sem ég hafði lent í á unglingsárum og meira að segja gekk svo langt í hatri sínu að hún fór að vinna með ofbeldismanninum og hans konu sem andlegur stuðningur útaf þessu erfiða máli.

Hún reyndi að fá mig til að falla frá kærunni hennar vegna, því þetta var henni svo erfitt. Þetta var eftir allt, um hana – hún gæti misst vinnuna sem hún fékk eftir að ég kærði.

Enn á ný fyrirgaf ég henni í von um að eiga fallegt mæðgnasamband, því litla stelpan ég inni í mér óskaði þess svo heitt að hún myndi breytast og að ég gæti farið að treysta henni, enn á ný gerði hún allt til að leggja sem flesta steina í götu mína.

Ég skil núna að ég verð aldrei nógu góð, aldrei nógu sæt, aldrei nógu mjó, aldrei nóg fyrir hana því hún er ekki nógu góð fyrir sig. Ég er bara spegill sem hún heldur á og hún hatar það sem horfir á hana til baka.

Ég eignaðist litla barnið mitt fyrir nokkrum árum – og ég lofaði barninu mínu að það fengi enginn að meiða það eins og ég var meidd, hvorki hún né nokkur annar. Þannig að þegar hún réðist að mér fyrir næstum þremur árum ákvað ég að nóg væri nóg. Barnið mitt fengi ekki að vita af hennar tilvist né hún af barninu og ég lokaði á hana.

Hún og hennar dansandi apar, vinir hennar og fjölskylda reyna endalaust að koma inn samviskubiti um að ég eigi að leyfa barninu að þekkja ömmu sína og hafa meira að segja hótað að loka á mig nema að ég opni á samskiptin aftur við mömmu.

En það sem þau skilja ekki er að þau eru ennþá undir hennar skilyrðingu en ég er sloppin.

Hallelúja, ég er sloppin.

Ég lifði af með allar þær afleiðingar sem þetta hafði, ofsakvíða, þörf fyrir samþykki, ofurábyrgðartilfinningu, leiða, átröskun og týnt sjálf fram yfir þrítugt.

Þá, þökk sé kvíðalyfjum og sjálfsvinnu, hef ég áttað mig á að flókna áfallastreituröskunin mín er betri þegar ég þarf ekki að horfa á ofbeldismanneskjuna mína alla daga og leyfa henni svo að beita barnið mitt ofbeldi líka með sjúklegri stjórnun og undirferli.

Þá er ég frekar tilbúin að fara í gegnum lífið mitt á mínum forsendum og ef þau vilja loka á mig þá verða þau bara að ákveða það. Mamma fær ekki að kenna barninu mínu eins og fljúgandi öpunum sínum hvernig á að koma fram við mig.

Heldur mun ég brjóta hring ofbeldisins með að vera besta útgáfan af mér fyrir litla barnið mitt.

Eitt skal ég viðurkenna sem er kannski skrýtið – en ég sakna hennar ekkert, það sem ég sakna er hugmyndin sem ég bjó til af henni, því hún er dáin þótt mamma lifi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -