Föstudagur 23. september, 2022
6.1 C
Reykjavik

Ófullkomnar, hráar, hugrakkar og án „filters“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Eftir / Katrínu Petersen og Unni Maríu Birgisdóttur

Áður en við leggjum í hann. Það að hafa „engan filter“ eða að vera „án filters“ snýst ekki um – í þessum pistli – að leyfa sér að segja eða gera hvað sem er til þess eins að stuða eða særa aðra. Hér snýst „filtersleysi“ um að sleppa taki á krónískri glansmynd sem er ekki sönn og oft og tíðum erfið byrði fyrir okkur að bera. Við erum að tala um „filtera“ eða „síur“ sem við notum til þess að pússa til ímynd okkar og þætti í lífi okkar áður en við deilum með umheiminum. Oft er sú mynd sem við sendum frá okkur í gegnum einhvers konar samfélagsmiðla orðin svo breytt frá upprunalegri útgáfu að hún getur farið að brengla hugmyndir okkar um raunveruleikann. Við getum talið það saklaust að „filtera“ líf okkar og myndir, en afleiðingin getur orðið sú að sýn okkar á raunveruleikann hreinlega skerðist. Það sem okkur þykir verst og sárast að horfa upp á er þegar við eigum það svo til að bera okkur sjálf og líf okkar saman við eitthvað sem er óraunverulegt. Slíkur samanburður getur verið ávísun á sorg, depurð og vonleysi.

Getið þið ímyndað ykkur hversu frelsandi og hversu mikil hetjudáð það væri ef við leyfðum okkur að sleppa þessum filter, ef við sýndum lífið eins og það raunverulega er, og við deildum þeirri mynd oftar? Enginn glans, ekkert glimmer, ekkert „photoshop“, bara blákaldur, hrár og fallegur raunveruleikinn. Það er nefnilega í okkar mannlega ófullkomleika sem við tengjum best hvert öðru. Þegar við viðurkennum fyrir þeim sem við treystum hver við raunverulega erum.

Í haust var kosið í nýja stjórn FKA Framtíðar og fljótlega eftir fyrsta fund stjórnar var það öllum stjórnarkonum kýrskýrt að þema þessa starfsvetrar yrði að vera „enginn filter“, eitthvað sem við allar þráðum sárlega eftir þetta lærdómsríka og krefjandi ár sem nú senn er á enda. Þetta ár hefur sýnt okkur enn betur en áður að glansmyndin er fyrir framan skjáinn. Fyrir neðan skjáinn er það raunveruleikinn, á náttbuxunum eða jafnvel bara á nærbuxunum, leikföng út um allt og brauðmylsna í sófanum – sem allt er svo mannlegt. Tæknin er frábær og hefur létt okkur lífið mikið þetta árið en tæknin býður líka upp á veröld glansmynda sem getur verið ósköp lýjandi og yfirborðskennd til lengdar.

Það er mikilvægt að við sýnum lífið og tölum um það eins og það er – ekki í formi þeirrar glansmyndar sem birtist þegar við erum búin að prófarkalesa, trimma, filtera og „fullkomna“ þá ímynd sem við sendum frá okkur. Það getur verið svo hollt og gott að tala um þá hluti sem við erum að upplifa, það sem við erum að ströggla við, lífið í öllum sínum ófullkomleika, því það er þar sem við tengjumst hvert öðru sterkustu böndunum og upplifum að við séum ekki ein.

Okkur þótti áhugavert að fylgjast með viðbrögðum við nýrri auglýsingu Nova á dögunum þar sem hugrakkt og alls konar „venjulegt“ fólk spriklar um allsbert í allri sinni dýrð, stolt af líkama sínum og án allrar skammar. Sumir brugðust við á þann hátt að þarna væri um að ræða ófullkomna líkama, suma jafnvel í „röngum“ hlutföllum og ekki nægilega slétta, sem teldist nú kannski ekki alveg eðlilegt eða „normið“ í auglýsingum (sem átti sennilega einmitt að vera tilgangurinn). Þá spyrjum við – erum við ekki aðeins farin fram úr okkur sjálfum í filteranotkun þegar okkur finnast eðlilegir líkamar skrítnir og jafnvel óeðlilegir? Því miður er þetta staðreynd, við sjáum orðið ekki ljósmyndir án filters, né heyrum við orðræðu án þess að hún sé ritskoðuð frá a-ö. Króníska glans- og glamúrmyndin er jú allsráðandi í okkar nútímasamfélagi.

Við hjá FKA Framtíð viljum leggja okkar á vogarskálarnar til að reyna að jafna aðeins út þessa glansmynd og óraunverulegu staðalímyndir sem gerir mörg okkar svo óþarflega sorgmædd.

- Auglýsing -

Skilaboðin sem við meðtökum eru með þeim hætti að allir hafi það svo ægilega gott og séu svo gott sem fullkomnir, ólíkt okkur sjálfum. Við erum öll ófullkomin, að reyna okkar besta, með þvott á þvottasnúrunni sem við höfum ekki nennt að ganga frá, klístur á eldhúsgólfinu, peppandi í okkur kjark til takast á við öll verkefni dagsins, með ferska nýja frunsu í framan og „imposter syndrome“ (blekkingarheilkenni eins og það kallast víst á íslensku) á hæsta stigi – og hvað með það! Það er akkúrat í filtersleysinu sem við raunverulega sjáum hvert annað og tengjumst á svo innilega mannlegan máta og það er það sem við hjá Framtíðinni ætlum að ræða um í vetur.

FKA Framtíð er fyrir okkur allar, konur sem vilja efla hver aðra og vaxa. Við leggjum okkur fram um að tengjast hver annarri, bæði til að læra af og lyfta hver annarri upp. Við bjóðum upp á vettvang til að deila og miðla reynslu, og auka eigin styrk með innblæstri frá öðrum konum. Við stuðlum að virkri uppbyggingu tengslanets og fræðslu sem nýtist sem innlegg í starfsframa og þróun, bæði fag- og persónulega.

Konur eiga að vera konum bestar og er FKA Framtíð frábær stökkpallur fyrir ný tækifæri og framþróun – þar sem nægt ljós er fyrir alla. Við trúum því að saman séum við sterkari og enn betra er ef við mætum til dyranna eins og við erum klæddar, á náttbuxunum ef við viljum, ófullkomnar, hráar, hugrakkar og án „filters“.
Komdu með – í allri þinni filterslausu dýrð!

- Auglýsing -

Katrín Petersen, ráðgjafi og í stjórn FKA Framtíðar.
Unnur María Birgisdóttir, framkvæmdastjóri og í stjórn FKA Framtíðar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -