2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Öryggi

Höfundur / Stefán Pálsson

Fjögur ár eru stuttur tími en stundum geta fjórir mánuðir verið heil eilífð. Fyrir fjórum árum samþykkti Alþingi þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Hugmyndin hafði upphaflega komið fram í tíð vinstristjórnarinnar eftir hrun og stóð vinnan í á fimmta ár. Verkefnið var heldur ekki lítið: að semja í fyrsta sinn heildstæða stefnu Íslands í þjóðarörrygismálum.

Sjálf stefnan er enginn doðrantur. Þvert á móti er hún skorinorð og sett fram í ellefu punktum. Þegar þeir eru lesnir í dag virðast þeir frá grárri forneskju. Sex til sjö af punktunum ellefu snúast að miklu eða öllu leyti um hernaðarlegar ógnir. Þetta er skjal skrifað af fólki sem er andlega statt í kalda stríðinu og telur að þjóðaröryggi snúist um að fylgjast með rússneskum flugvélum í jaðri lofthelginnar og að skipuleggja heræfingar Nató-sveita með Landhelgisgæslunni. Pólitísku átökin við gerð stefnunnar snerust um að troða þar inn vísunum í annars konar öryggisógnir: farsóttir, tölvuglæpi, fæðuöryggi og umhverfisvá, sem mörgum þótti helber óþarfi.

Eins og þessi þrönga hernaðarlega nálgun hafi ekki mátt vera öllum ljós áður, hafa fyrstu fjórir mánuðir þessa árs undirstrikað skýrt hversu meingölluð og úrelt stefnan er. Árið 2020 hefur fært okkur holskeflu gulra, appelsínugulra og rauðra veðurviðvarana, snjóflóð, jarðskjálftahrinur og vísbendingar um eldvirkni. Alvarlegar spurningar hafa vaknað um orkuöryggi víða um land og heimsfaraldurinn hefur rifið í saumana á heilbrigðiskerfinu og reynt á flest okkar stoðkerfi.

AUGLÝSING


Ef síðustu fjórir mánuðir hafa kennt okkur eitthvað þá er það mikilvægi þess að hafa öflugar stofnanir, viðbragðsáætlanir og skýra stefnu þegar kemur að málum sem varða raunverulegt þjóðaröryggi. Að telja þjóðaröryggi Íslands snúast um byssuleiki Gæslunnar, þjónustu við æfingaflug gestkomandi orrustuþota eða að embættismenn utanríkisráðuneytisins fái að gera sig breiða á Nató-fundum er hlægilegur hégómi. Blessunarlega líður að því að þjóðaröryggisstefnan verði tekin til sinnar fyrstu endurskoðunar og þá gefst vonandi færi á að losna við kalda stríðs drauga frá því fyrir myntbreytingu.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum