2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Að hæla sjálfum sér

Ég hef skrifað ótal pistla um mikilvægi þess að vera sinn besti vinur. Umræða sem svo sannarlega á rétt á sér þrátt fyrir að orðræðan um eigin yfirburði hafi aldrei verið háværari.

Áður forðuðust foreldrar það eins og heitan eldinn að hampa börnum sínum af ótta við mikilmennskubrjálæði og mont sem gæti fylgt í kjölfarið. Börn áttu að vera lítillát og hógvær og bera helst hrósið til baka ef það bærist óvænt.

Leyfar af þessari uppeldisstefnu eru vissulega enn sýnilegar, einna helst meðal kvenna sem svara fyrir sig fullum hálsi við hverskyns hrós. Einbeitingin verður aldrei meiri en þegar kemur að því að afsanna sannleiksgildi jákvæðra hvatningsorða í sinn eigin garð.

Húsfrúin með veisluborðið sem svignar undan veitingum á það til að segja: „Iss þetta lítilræði“, í stað þess að þakka falleg orð hungraðra gesta sem dást af myndarskapnum. Sæta vinkonan í nýju skónum myndi líka allt of oft bera við: „Ég keypti þessa skó á útsölu“, eða „Nei ég er ekkert fín í dag, sérðu þessa bólu“, í stað þess að taka hólinu fagnandi.

AUGLÝSING


Þessa hegðun þekki ég vel bæði úr persónulegu og vinnutengdu umhverfi enda sjaldgæf sort kvenna sem mætir í myndatöku og finnur sig ekki knúna til þess að benda á ótrúlegustu galla í eigin útliti. Galla sem enginn annar myndi sjá þótt þankagangurinn sé fullkomlega skiljanlegur.

En það er munur á að hvatningasvelta og hreinlega drekkja í hrósi því einhvern staðar þarna á milli mættust kynslóðirnar tvær. Sú sem reyndi að bæta hrósleysi forfeðra sinna upp með stöku hvatningarorði til hátíðarbrigða og svo kynslóðinni sem á eftir kom en hún kollvarpaði kerfinu með svo miklu hrósi að skjallið missti nær alla merkingu sína.

Þörfin eftir viðurkenningu er vissulega sammannleg og getur eins og allt sem gott er orðið ávanabindandi, því einskorðast hróskynslóðin ekki við neinn tiltekinn aldur. Samfélagsmiðlar auðvelda vissulega leiðir eftir klappi á bakið og hafa flestir gert sig seka um auðmjúklegt mont við hversdagslegar athafnir. Yfirlitsmyndum hefur nú verið skipt út fyrir þröngskornar andlitsmyndir enda sjálfhverfan fyrir löngu orðin umhverfinu yfirsterkari.

Með vinsældum sjálfsmyndarinnar hóf útlitsdýrkunnar skrímslið sig á flug og hefur síðan þá vaxið og dafnað í samvistum við þann algenga fylgifisk sem like-blætið hefur reynst vera. Snjallsímar veita bæði börnum og fullorðnum harða samkeppni um hvert sjónum er beint en hugarheimur skjáfíkninnar endurspeglar einmitt sama markmið, að næra hégómann.

Frá kynslóðinni sem ekki mátti hrósa til dagsins í dag, þar sem allt snýst um að strjúka sínu eigin egói læðist sú hugsun að hvernig sjálfhverfukynslóðinni gangi að hrósa afkomendum sínum og um leið hvort hólið leiði aftur til heimahúsanna. Það er að segja hvort ásetningur þess að hæla sérstöðu barna sinna megi rekja til eigin yfirburða þegar kemur að barnauppeldi. Vonandi eymir þó enn eftir ögn af hógværð svo foreldrar framtíðarinnar geti hrósað fleirum en sjálfum sér.

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni