• Orðrómur

Álfarnir syngja ofan við Galtarvita – Vitavörður á sundi

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Eina af perlum Vestfjarða er að finna í Keflavík við ysta haf þaðan sem Galtarviti hefur um áratugi lýst sjófarendum leið. Það er ekki einfalt að komast að Galtarvita. Þeir tímar koma að einungis fuglinn fleygur kemst á þessar slóðir. Sjóleiðin frá Suðureyri er algengasta leiðin en lendingin við vitann er háð því að sjólag sé gott.

Algengast er að fólk aki sem leið liggur í Bolungarvík og þaðan til Skálavíkur. Þar er bifreiðum gjarnan lagt, skammt frá Meiri-Bakka og haldið gangandi fram Bakkadal, meðfram Þverá sem silfurtær tifar um farveg sinn og prýðir dalinn. Þetta er strax á fótinn. Framundan er 5 kílómetra leið, sem þó segir minnst um það erfiði sem er framundan.  Göngumaður, sem kemur þarna í fyrsta sinn, sér aðeins snarbrött fjöll framundan. Hann veltir fyrir sér að þetta virðist aðeins vera fært fuglinum fljúgandi. En eftir því sem fólkið kemur hærra opnast leiðin upp á brún. Skyndilega sést Bakkaskarð, sem er hin viðurkennda leið frá Skálavík og upp fjallið. En það er vissulega snarbratt. Göngufólkinu er þó huggun að það eru línur upp snarbrattann til halds og trausts. Þannig má fikra sig upp meðfram klettabelti  í rólegheitum.

Snarbratt Bakkaskarð

Fyrr en varir stendur fólk í Bakkaskarði og erfiðasti áfangi leiðarinnar er að baki. leiðin um Bakkaskarð er þó aðeins fær um sumarið. Snjóhengjur eru gjarnan í skarðinu og hamla för fólks. Norðan við gönguleiðina er fjallið Öskubakur sem státar að elstu jarðlögum á Íslandi. Framundan er Norðdalur. Við rekjum okkur eftir honum áleiðis að Galtarvita. Ferðafélag Íslands stendur fyrir ferðinni sem ber hið lýsandi nafn Ég held ég gangi heim. Það er til heiðurs Valgeiri Guðjónsson, þeim glettna og orðheppna tónlistarmanni og Stuðmanni. Valgeir dvaldi nokkur sumur á Galtarvita hjá frænda sínum, Óskari Aðalsteini, rithöfundi. Allir Íslendingar þekkja einhver laga eða ljóða Valgeirs sem eru gjarnan hlaðin speki og húmor. Ekki er óhugsandi að sveitadrengurinn á Galtarvita hafi teygað í sig skáldagáfuna þar sem hann horfði til hafs úr vitanum í víkinni. Við göngum niður í grös. Þar er áð um stund í blíðskaparveðri. Aðeins fuglasöngur rýfur kyrrðina. Þarna á enginn leið um nema við, fuglarnir og stöku refir sem fagna vorinu eftir erfiðan vetur.

- Auglýsing -

Díana Júliusdóttir og Ólafur Jónasson framan við vitann.

Leiðin niður Norðdal gengur greitt. Við göngum meðfram læk sem ber hið virðulega nafn, Keflavíkurá. Að sunnaverðu stendur Göltur og veitir skjól. Skyndilega birtist Galtarviti örstutt frá okkur. Þarna er reisulegt íbúðarhús og svo auðvitað sjálfur vitinn sem sendir út ljósmerki sín eftir að dimmir. Þapð er langt um liðið síðan seinasti vitavörðurinn hvarf á braut og sjálfvirknin tók við af mannshöndinni. Nú koma varðskipsmenn öðru hvoru til viðhalds. Svo eru það eigendurnir, Ólafur Jónasson leikmyndasmiður og Díana Júlíusdóttir ljósmyndari sem koma reglulega til að viðhalda húsum og njóta einsemdarinnar í Keflavík. Stöku gönguhópar koma til að upplifa þau lífsgæði sem felast í því að vera fjarri heimsins skarkala.

Haldið upp Bakkaskarð. Gott að hafa línu sér til trausts.

- Auglýsing -

Þegar ófært er um Bakkaskarð er helsta leiðin til og frá vitanum á sjó. Vandinn er hins vegar sá að vitinn er fyrir opnu hafi og mikil ókyrrð í sjónum gerir lendingu í fjörunni erfiða. Dögum saman er því ófært sjóleiðina. Algengasta leiðin að vetri er að ganga fjöruna fyrir Gölt. En þá er eins gott að vera meðvitaður um sjávarföll. Hluta leiðarinnar er aðeins hægt að fara með góðu móti á fjöru. Þá þarf einnig að huga að snjóflóðahættu og grjóthruni úr snarbröttu fjallinu. Það getur á köflum verið háskaför. Óskar Aðalsteinn lýsti göngu fyrir Gölt þar sem hann heyrði á stundum drunur af grjóthruni og skriðuföllum. Gangan frá Galtarvita og fyrir Gölt endar á Norðureyri, gegnt Suðureyri.

Í eldhúsinu á Galtarvita. Guðað á glugga.

 

Landneminn í Sunndal

- Auglýsing -

Í Sunndal, ofan við Galtarvita, má sjá rústir. Steindór Sigurðsson, frá Botni í Súgandafirði, hafði bitið það í sig að verða einskonar landnemi á þessum slóðum. Hann gerði sér lítið fyrir, lagðist út, og hóf byggingarframkvæmdir árið 1901 með þvi að hlaða mikla grjótveggi við fallega tjörn sem er sannkölluð dalprýði. Það var þó ekkert vit í því að setjast þarna að, gripið var í taumana og áform útilegumannsins runnu út í sandinn eða kannski grjótið. Eftir standa rústirnar um drauminn sem varð ekki að veruleika. En það er fleira í Sunndal. Ólafur landeigandi fullyrðir að í klettum dalsins, ofan við bæjarstæði útilegumannsins, sé álfar. Hann hefur oftar en einu sinni upplifað það í einsemd og kyrrð Galtarvita að heyra úr fjarskanum yndisfagran söng og hljófæraslátt. Og Óskar Aðalsteinn hafði fullyrt það sama. Þegar nóttin læðist að í Keflavík leggur maður við hlustir. Tófa gaggar í fjarlægð og ekki er fráleitt að hljóðfærasláttur og álfasöngur berist með golunni frá hömrunum í fjallinu háa.

Litli maðurinn

Að kvöldi dags er tilvalið að grípa í lestur einhverra bóka Óskars Aðalsteins. I Dagbók vitavarðar er honum tíðrætt um yngsta son sinn, litla manninn eins og hann kallar. Drengurinn er spurull og íhugull. Falleg frásögn. Ég spyr Ólaf hvað hafa orðið um drenginn. Það reynist vera sorgarsaga því hann var myrtur í Reykjavík, þá kominn á miðjan aldur.

Eitt af því góða við að dvelja á Galtarvita er að þar er ekkert símasamband. Eina sambandið við umheiminn er að jafnaði í gegnum VHF-talstöð sem nota má í neyðartilvikum. Mest allt áreyti er því að baki þegar komið er niður úr Bakkaskarði eða fyrir Gölt. Á öðrum degi ferðarinnar voru einhverjir orðnir fréttaþyrstir. Þeir lögðu því leið sína upp á Gölt til að meðtaka skilaboð af Netinu og lesa sér til um fréttir.

Vitavörður á sundi

Við höfðum í einni ferðinni gert ráð fyrir að fá mat sendan með björgunarsveitarbáti frá Suðureyri. 30 manna gönguhópur hafði gert áform um að elda kjötsúpu sem björgunarsveitin myndi koma með ásamt öðru trússi. Það var ókyrrð í sjónum þegar báturinn með vistirnar birtist og tvísýnt með lendingu. Úr varð að báturinn kom eins nærri og mögulegt var en ekki upp í fjöru eins og venjan var. Ólafur var kominn í vöðlur, klár að taka á móti vistunum. Þá vildi ekki betur en svo til að kassann með kjötinu rak frá landi. Vitavörðurinn gerði sér lítið fyrir og tók nokkur sundtök og kom kassanum að landi þar sem aðrir biðu eftir að taka við lífsnauðsynjunum. Að kveldi var veisla og síðan kvöldvaka þar sem ljóðskáldið Sigmundur Ernir Rúnarsson flutti frumort ljóð um Galtarvita. Svo var farið í sérútbúið gufubað í smáhýsi við vitann.

Gönguhópurinn Toppgyðjurnar við Galtarvita. Hópurinn á rætur í Ferðafélagi Íslands.

Norðureyri stendur undir snarbrattri hlíð og þekktur staður vegna snjóflóða sem þar hafa fallið. Þrátt fyrir mannskæð og mikil áföll í gegnum tíðina byggðu menn alltaf upp aftur. Harðneskja og þrjóska varð til þess að ekki var gefist upp fyrr en í fulla hnefana. Síðasta húsið sem var byggt er eins og plógur. Stefnið vísar upp í fjallið til að kljúfa snjóflóðin sem örugglega koma. Svo fluttu síðustu ábúendurnir en rústir steinhússins standa eftir sem minnisvarði um liðna tíð og eilífa baráttu við snjóflóð og skriðuföll.

Frá Norðureyri verður fólk að fá bátsferð til Suðureyrar. Óravegur er inn allan Súgandafjörð og fyrir fjörð. Að sumri til er mögulegt að fara yfir Gölt, skammt frá Norðureyri, um svokallað Kýrskarð. Leiðin er brött og ekki á allra færi. Fullyrt er að kvíga hafi verið teymd yfir fjallið og alla leið að Galtarvita en það er ekki staðfest.

Sofið úti undir vegg í sumarnóttinni.

Hundur hrapar

Á heimleiðinni er farið um Bakkaskarð. Leiðin fram Sunndal er löng og alltaf á fótinn. Hundurinn Tinni skoppar við hlið okkar. Eins og ævinlega þá er niðurleiðin alltaf hættulegust. Við fikrum okkur niður eftir spottanum. Við hlið okkar er kletturinn. Þangað álpast Tinni og hrapar fram af brúninni. Nokkrir úr hópnum horfðu á hann hrapa og gáfu frá sér niðurbæld óp. Fallið var nokkrir metrar og hann lenti á bakinu og eins og bolti skoppaði hann upp aftur. Þetta leit illa út. En hundurinn lá grafkyrr í smástund áður en hann reis á fætur, vankaður, en heill á húfi. Ofboðslegur léttir.

Við göngum niður dalinn, meðfram hjalandi læknum, og að bílunum sem bíða okkar í Skálavík. Stórkostleg ferð er að baki með tilheyrandi minningum.

 

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -