2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Andleysið

Tvennt virðist einkum hrjá þjóðina um þessar mundir: Siðferðisbrestur íslenskra sægreifa í suðurhöfum og sífellt lakari lestrargeta unga fólksins. Hér verður leitast við að leysa bæði vandamálin og nota til þess ekki nema um 300 orð. Hversu fljót ungmenni eiga að vera að lesa 300 orð veit ég ekki en hitt veit ég að það er alltaf betra að lesa fallega, sjálfum sér og öðrum til gleði og andans upplyftingar. Lestur er fögur listgrein þegar vel er með farið.

 

Og það eru ekki síst fegurðin og listin sem lyfta sálartetrinu og koma í veg fyrir að andleysið taki öll völd. Það hvarflar óneitanlega að manni að andleysið sé einmitt vandi íslensks samfélags. Það er í hið minnsta sitthvað sem bendir til þess ef rýnt er skrif meistara Þórbergs Þórðarsonar í Bréfi til Láru sem kom fyrst út fyrir jólin 1924.

„Alt, sem ekki kemur að „praktískum“ notum er einskisvert. Þetta er lífspeki andleysisins. Það vakir yfir helgi eignaréttarins eins og villidýr yfir bráð sinni. Heimurinn er „ég“ og „mitt“. Lóðin mín, húsið mitt, ó, togararnir mínir. Trúarbrögð þess er „framtak einstaklingsins“ og „frjáls samkeppni“, löngu úrelt lygaþvæla um nauðsyn gerspiltrar lífsstefnu. Afleiðingin er brask, fjárglæfrar, örbirgð, mannhatur, lítilsvirðing fyrir andlegum efnum, styrjaldir, drepsóttir og dauði fyrir örlög fram.“

Þórbergur sló aldrei af heldur þvert á móti og það verður vart á móti því borið að sitthvað hljómar hér kunnuglega í samtímanum. Og jafnvel sá sem aðhyllist ekki pólitík meistarans verður að játa að þar var á ferðinni snillingur í stíl og orðfæri öllu. Engum líkur nema sjálfum sér og langt á undan sinni samtíð.

AUGLÝSING


Það mætti því kannski leysa þessi tvö stóru vandamál sem angra þjóðina um þessar mundir með því að kenna ungu fólki og reyndar þjóðinni allri, ekki aðeins að lesa fallega, heldur með því að lesa Þórberg. Kenna því að lyfta andanum langt yfir efnið, njóta fegurðarinnar og sigrast á andleysinu.

Eftir / Magnús Guðmundsson

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni