Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Barnsröddin og glóparnir í Glasgow

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Loftslagsráðstefnan í Glasgow stefnir í að verða til lítils gagns fyrir heimsbyggð sem glímir við mannkyn sem er að tortíma sjálfu sér. Öll markmið um að draga úr útblæstri og minnka þannig fárið sem hlýst af hlýnun jarðar eru í skötulíki. Sjálfur mættum við Íslendingar með her manna á ráðstefnuna en engin raunveruleg markmið utan þess að vera með afrit af stefnu Evrópusambandsins. Við gátum allt eins verið heima.

Það grátlega við allt uppistandið er að þjóðum heims er fullkunnugt um ástandið en eiginhagsmunir einstakra ríkja verða til þess að ekki tekst að ná samkomulagi um raunveruleg og nauðsynleg markmið. Bandaríkjamenn og Kínverjar skakklappast í málinu og hafa boðað sína eigin stefnu um að draga úr útblæstri. Samstaðan er sáralítil um að bregðast við yfirstandandi vanda sem leiðir af sér flóð, fellibylji og tilheyrandi fjölda glataðra mannslífa.

 

Afneitunarsinnar segja að vandinn sé af náttúrulegum ástæðum og engin inngrip nauðsynleg. Það þarf enga ofurgreind til að átta sig á því að sóðaskapur mannkyns hefur miklar afleiðingar og inngrip geta ekki verið til annars en góðs. Rafvæðing bíla, skipa og flugvéla er eitthvað sem myndi aðeins verða til góðs. Hringrásarhagkerfi er af sama toga. Það minnkar kolefnissporið og gerir líf okkar bærilegra.

bjartasta röddin í Glasgow er barnsrödd.

Fjölmargt frægðarmenna er í Glasgow undir því yfirskini að bregðast við ástandinu. Það skondna er að margir þeirra koma á einkaþotum og spúa þannig sóti yfir heimsbyggðina á ferðalagi sínu til að bjarga heiminum. Þeir predika eitt en aðhafast annað. Það er sláandi að bjartasta röddin í Glasgow er barnsrödd. Sú sænska Greta Thunberg lætur þjóðarleiðtogana heyra það vegna viljaleysisins, getuleysisins, bjargarleysisins og vesaldómsins. Greta er eins og barnið í ævintýrinu. Á meðan múgurinn hyllti nakinn keisarann fyrir að vera í svo fallegum fötum þá var það barnið sem benti á þann raunveruleika að keisarinn var ekki í neinum fötum. Greta er í þessu hlutverki í Glasgow. Keisarar heimsins eru naktir þótt þeir þykist vera uppstrílaðir og viljugir til góðra verka.

Ráðstefnan í Glasgow er út af fyrir sig ágæt til þess að vekja athygli á ástandi sem við Íslendingar sjáum myndgerast í bráðnandi jöklum. Okið er horfið og fleiri jöklar eru á förum. Við sendum 50 manna sendinefnd á ráðstefnuna með óskrifaða stefnu í farangrinum. Afsökunin er sú að ný ríkisstjórn hafi ekki mótað sér stefnu. Glóparnir í Glasgow ættu að hlusta á rödd barnsins í stað þess að halda áfram skollaleiknum sem gengur út á að þykjast vilja gera gagn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -