„Kennari að nafni Wagner bilaðist fyrirvaralaust á geði í Mühlhausen í gær. Brjálæðingurinn byrjaði á að stinga eiginkonu sína og fjögur börn til bana, síðan fór hann, vopnaður skammbyssu, í hjarta bæjarins þar sem hann bar eld að nokkrum húsum.“
Þannig hefst frétt í The New Zealand Herald, 8. september árið 1913.
Umræddur maður hét Ernst August Wagner. Hann fæddist í Eglosheim, skammt frá Ludwigsburg í suðurhluta Þýskalands, árið 1874. Faðir Wagners var bóndi, hávær og gefinn fyrir sopann, af móður Wagners segir fátt annað en að hún hafi verið helst til lauslát.
Þegar Wagner var tveggja ára lést faðir hans, móðir hans giftist á ný en það hjónaband rann sitt skeið þegar Wagner var sjö vetra. Af hinum unga Wagner er það að segja að hann þótti gáfaður með afbrigðum og að loknu grunnskólanámi fékk hann styrk til kennaranáms. Bókmenntir áttu hug hans allan og í frítíma sínum orti hann ljóð. Wagner var afleysingakennari í nokkrum skólum í Württemberg árin 1894-1901 en þá fékk hann fastráðningu í Mühlhausen an der Enz.
Afdrifaríkur ölæðisgjörningur
Sagan segir að einhvern tímann, sumarið 1901, hafi hann í ölæði níðst kynferðislega á einhverri skepnu. Hvers kyns skepnu fylgir ekki sögunni. Nú, í kjölfarið óttaðist hann að þorpsbúar kæmust að verknaðinum og að lokum fannst honum sem, hvert sem hann fór og hvar sem hann var staddur í Mühlhausen, að fólk hefði hann að háði og spotti vegna dýraníðsins. Wagner keypti sér sína fyrstu byssu. Hvað sem þessu leið þá hóf Wagner ástarsamband við Önnu Friedericke Schlecht, dóttur eiganda öldurhúss í þorpinu. Anna varð barnshafandi vorið 1902 og í desember sama ár lést móðir Wagners. Hann flutti til Radelstetten, afskekkts þorps, og þótt honum fyndist það óttalegt skítapláss þá varð dvölin þar til þess að draga úr ofsóknaræði hans vegna dýraníðsins.
Tvær sjálfsvígstilraunir
Vegna þrýstings af hálfu fjölskyldu Önnu kvæntist Wagner henni í desember 1903, enda var dóttir þeirra þá orðin 10 mánaða. Næstu árin eignuðust hjónin fjögur börn og varð þremur þeirra lífs auðið. Wagner elskaði ekki eiginkonu sína, honum fannst hún standa honum langt að baki hvað vitsmuni áhrærði og umgekkst hana fremur sem hjú en eiginkonu. Einnig fannst honum börnin vera byrði, fjárhagsleg og andleg. Um sumarið 1904 fór Wagner til Sviss og var greinilega ekki í góðu ástandi því hann gerði þar tvær tilraunir til sjálfsvígs, en tókst sem sagt ekki því hann var, að eigin sögn, „of veikgeðja“.
Wagner vopnvæðist
Það var síðan árið 1906 eða 1907 sem hann taldi að fennt hefði yfir ölæðisverknað hans með óskilgreindu skepnunni, en þess í stað skaut í huga hans rótum hefndarfýsnar gagnvart þeim sem hann taldi orsök allrar eymdar hans, einkum og sér í karlmönnum í Mühlhausen. Wagner keypti sér Mauser C96-skammbyssu árið 1907 og síðan aðra eins árið 1909. Í nágrenni þorpsins og skógum þar í kring æfði hann skotfimi af miklu kappi. Allan þennan tíma hafði hann starfað sem kennari og í maí 1912 fékk hann stöðu sem kennari við skóla í Degerloch, í úthverfi Stuttgart.
Myrt í morgunsárið
Hugmyndin um hefnd kraumaði í huga Wagners og styrktist enn frekar þegar hann taldi sig sjá þess merki að nýir vinnufélagar „vissu“ um fortíð hans. Undir lok sumarleyfis 1913 ákvað hann að láta til skarar skríða og dagana fyrir morðin skrifaði hann nokkur bréf þar sem hann útskýrði ástæðurnar fyrir þeim ódæðum sem í vændum voru. Sem fyrr segir voru eiginkona Wagners og fjögur börn fyrstu fórnarlömbin. Um klukkan fimm að morgni 4. september, 1913, rotaði hann Önnu með tjakki og gekk síðan til verks með rýtingi. Stakk hann Önnu ótal sinnum í háls og bringu, þannig að slagæðar skárust í sundur. Síðan fór Wagner inn í herbergi barna sinna; tveggja sona og tveggja dætra sem hann stakk hann í háls og bringu. Þessum fyrstu fimm fórnarlömbum Wagners blæddi út.
Lognið á undan storminum
Sagan segir að þegar hann yfirgaf heimili sitt í Degerloch, eftir að hafa fyrirkomið fjölskyldu sinni, hafi ekki verið hægt að merkja að þar færi maður sem ekki gekk andlega heill til skógar. Hann hafði lagt teppi yfir líkin, farið úr blóðugum fötum sínum og þvegið sér. Engu líkara er en að Wagner hafi tekið ákvörðun um að dúlla sér það sem eftir lifði þessa dags. Hann skildi eftir orðsendingu á hurð íbúðar fjölskyldunnar þar sem sagði að fjölskyldan væri að dandalast í Ludwigsburg. Umsjónarmaður byggingarinnar fékk skilaboð um að panta fyrir fjölskylduna mjólk og pöntuninni fylgdu 35 pfennig. Síðan hjólaði Wagner til Stuttgart og tók þaðan lest til Ludwigsburg. Í fórum sínum hafði hann þrjár skammbyssur, 500 skot, svarta slæðu, sem konan hans sáluga hafði átt, og belti. Frá Ludwigsburg fór Wagner til Eglosheim þar sem bróðir hans bjó. Þangað kom hann um ellefu leytið.
Taktu eitur!
Hvað hann aðhafðist þennan daginn er vart frásagnar vert nema ef vera skyldi að hann póstlagði nokkur bréf, þar á meðal eitt til systur sinnar. Það bréf innihélt tvö orð: Taktu eitur! Einnig sendi hann bréf til dagblaðs nokkurs og annað til heimspekings að nafni Christoph Schrempf, sá fékk einnig eintak af sjálfsævisögu Wagners. Klukkan sjö um kvöldið fór Wagner til Mühlhausen an der Enz og kom að hæðunum þar í kring um ellefu leytið um kvöldið. Þar girti hann sig með áðurnefndu belti, setti á sig húfu og vopnaðist Mauser C69-skammbyssunum tveimur. Að auki greip hann tösku sem innihélt skotfærin, svörtu slæðuna og þjöl. Wagner hugðist rjúfa símasamband við Mühlhausen með því að rjúfa símalínurnar. Það gekk ekki eftir því honum varð um megn að klifra upp háa símastaurana auk þess sem úrhellisrigningu gerði um það leyti. Hann varð því frá að hverfa og fór rakleitt inn í þorpið.
Kúlunum rignir
Í þorpinu hófst Wagner handa og byrjaði á því að bera eld að fjórum hlöðum. Hann huldi andlit sitt sem best hann gat með slæðu eiginkonu sinnar og hóf för sína í gegnum þorpið. Hann skaut hvern einasta karmann sem á vegi hans varð, einhverjar konur urðu einnig fyrir skotum úr byssu hans, en síðar fullyrti hann að það hefði verið fyrir slysni. Alls hleypti Wagner af 80 skotum og hitti 20 manns. Af þeim létust átta samstundis þar á meðal ein kona. Eitt fórnarlambanna dó síðar af sárum sínum. Einnig drap Wagner tvær skepnur og þegar upp var staðið voru nokkur hús brunarústir einar. Wagner varð að lokum yfirbugaður þegar hann var að endurhlaða skotvopn sín. Þrír karlmenn neyttu þá færis og réðust á hann vopnaðir hlújárnum og sverðum. Þeir léku Wagner illa og hann fékk ótal skurði í andlit og á hægri handlegg. Vinstri handleggur hans hékk á lyginni.
Vildi dauðadóm og aftöku
Eftir að hafa afvopnað Wagner, höggvið og barið í kássu skildu mennirnir hann eftir liggjandi í blóði sínu og gerðu ráð fyrir að hann myndi skilja við án frekari afskipta af þeirra hálfu. En Wagner dó ekki, klukkan tvö um nóttina gekk lögregluþjónn fram á hann, þar sem hann lá rænulítill en enn á lífi. Wagner komst til fullrar meðvitundar og játaði hiklaust sök sína og einnig að hafa myrt fjölskyldu sína.
Hann sagðist hafa ætlað að fremja sjálfsvíg en ekki yrði það mögulegt úr því sem komið var. Því þætti honum vænt um ef hann yrði bara dæmdur til dauða og hálshöggvinn. Að kvöldi 5. september var farið með Wagner á spítala í Vaihingen þar sem gert var að sárum hans og vinstri handleggur fjarlægður. Wagner fékk ekki uppfyllta ósk sína um dauðadóm og aftöku, því hann var dæmdur til vistar á geðveikrahæli og þar dó hann 27. apríl árið 1938.