Föstudagur 29. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Býr dýraníðingur á næsta bæ við þig?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Ég kem hér persónulega fram undir nafni og fjalla um níðinga sem fá að halda dýr þrátt fyrir að hafa þverbrotið á skepnunum.  Þetta er ljót lesning en staðan er sú sama í dag. Ekkert hefur breyst. Það er ekki gaman að fara út á þennan vígvöll en ef við lokum öll augunum gerist ekki neitt. Ég er bara rétt að byrja. 

Það er ljóst að velferð búfénaðar hér á landi sé langt því frá að vera í lagi. Það er komin tími til að tala hreint út um það, hætta meðvirkni og varpa ljósi á það augljósa sem blasir við okkur. Kerfið hefur brugðis í ótal skipti. Kvalarar dýranna njóta vafans í allt of langan tíma. Þetta er vitað. Nú stöndum við almenningur upp gegn þessu óréttlæti þar sem svokallað kerfi okkar nær ekki að halda betur utan um þessi mál. Það þarf að breyta lagabókstöfum þannig að kvalararnir eigi ekki að geta gert tilkall til þess að halda skepnur ef þeir verða uppvísir að einhverju misjöfnu. Níðingum á ekki að gefa neinn afslátt. Þetta krefst tafarlausra aðgerða stjórnvalda. Hér að neðan ætla ég að renna yfir nokkur ljót mál, máli mínu til stuðnings.

Tölum um skepnurnar sem drápust úr sulti og vosbúð síðasta vor á bæ einum í Dalasýslu. Þessi bær var undir eftirliti MAST í 6 ár. Heimsóknir voru hvorki fleiri en færri  heilar þrjár öll þau ár. Þetta gerist á vakt MAST. Getuleysið er slíkt að þegar um búfjárssviptingu á sér stað þarf nánast undartekningarlaust að fella gripina. Þannig við getum Ýmindað okkur hvað þessar skepnur eru búnar að ganga í gegnum. Eigi að síður telur matvælastofnun í lagi að haldið verði áfram búskap á bænum. Nú vitna ég í frétt Mannlífs af málinu.
Dómsmál vegna hryllilegs dýraníðs á bænum Kringlu í Dalabyggð í Dalasýslu er nú rekið fyrir Héraðsdómi Vesturlands. Bóndanum, er gefið að sök að hafa hætt að sinna dýrunum á bænum með þeim skelfilegu afleiðingum að 120 kindur og átta nautkálfar drápust.
Samkvæmt heimildamönnum Mannlífs var aðkoman að bænum í einu orði sagt hrollvekjandi þegar nágrannar ákváðu að líta eftir skepnunum. Nautkálfarnir höfðu verið dauðir svo lengi að þeir voru orðnir þurrir viðkomu og kindurnar lágu dauðar á víð og dreif. Einhverjar skepnur á bænum náðu að brjóta sér leið í hlöðuna og komast þannig fóður .
Athygli vekur hins vegar að stofnunin hefur nú veitt sambýliskonu Arnars leyfi til að halda fram dýrahaldi á bænum en þau sinntu saman búskap áður en illa fór.
„Þú þarft í sjálfu sér ekkert leyfi til að vera með dýrahald“
Þórður Pálsson, dýraeftirlitsmaður hjá MAST, segist í samtali við Mannlíf lítið geta tjáð sig efnislega um málið en að almennt þurfi ekki leyfi stofnunarinnar til að vera í sauðfjárbúskap. Aðspurður staðfestir hann að sambýliskonan fái að halda áfram búskap og dýrahaldi á bænum. „Þú þarft í sjálfu sér ekkert leyfi til að vera með dýrahald. Þetta fólk er ekki gift og við lítum svo á að hún sé sér einstaklingur. Við lítum ekki þannig á málið að hún hafi verið í búskapnum þegar þetta var. Ég held að hún hafi ekki verið að svæðinu og það eru skepnur þarna núna. Okkar krafa er sú að hann komi ekki nálægt þessu,“ segir Þórður.
Þarna segir Þórður Pálsson einmitt það sem ætti að vera með öllu ólíðandi. Hvaða skilaboð eru þetta til fólks? Haldið bara áfram.
Í sumar blöskraði hestamönnum í Borgarnesi ill meðferð hrossa sem voru látin dúsa inn í hesthúsi um hásumar. Hryssa með nýlega köstuðu folaldi hýmdu inn í stíu. Ung tryppi grindhoruð og algjörlega vannærð var komið út án þess að hafa ekki áhyggjur að ástandi þeirra. Feldurinn  hræðilegur og mun ekki vernda þau fyrir veðrum og vindum.
Það var Steinunn Árnadóttir reyndi að vekja máls á aðbúnaði hestanna við eftirlitsmann Matvælastofnunar í Borgarnesi, án árangurs. Hún hefur fylgt þessu máli vel eftir og opnað augun almennings en það virðist ekki hafa skilað sér sem skildi til MAST.
Úr frétt frá af Vísi kemur fram:
Það var í síðustu viku sem að nágrannar hrossaræktenda í Borgarfirði lýstu yfir áhyggjum sínum af illri meðferð dýra á staðnum. Ræktendurnir voru sakaðir um að vanrækslu og sagt að dýrin væru vannærð og geymd í langan tíma í of litlum húsum. Þá var Matvælastofnun harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki brugðist fyrr við tilkynningum og athugasemdum Borgfirðinga vegna vanrækslu hrossanna..Ríkisendurskoðun ákvað í framhaldinu að hefja frumkvæðisúttekt á eftirliti stofnunarinnar með velferð dýra.
Matvælastofnun sendi í morgun frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem að segir ákvarðanir í dýravelferðarmálum geti verið mjög íþyngjandi og því sé nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar í slíkum málum. Brugðist sé við öllum ábendingum um illa meðferð dýra en oftast sé ekki þörf á þvingunaraðgerðum enda bregðist umráðamenn oftast við og bæti úr.

Í viðtali við Mannlíf segir Steinunn enn fremur:

„Svandísi er nákvæmlega sama“
Steinunn segist óttast að ekkert verði gert í málinu: „Maður óttast bara að þetta fólk fái að hafa skepnurnar áfram og það er búið að sýna fram á að það er ekki í lagi að þau séu með skepnur undir höndum.“ Nefnir Steinunn að hún hafði sent Svandísi Svavarsdóttur bréf á dögunum þar sem hún sagði henni frá misþyrmingu á kú sem festist í skurði hjá þessum sömu einstaklingum. „Ég sendi henni þetta á miðvikudaginn því það hringdi í mig nágranni þeirra sem horfði á manninn misþyrma nautgrip sem hafði dottið út í skurð og var hjálpað upp úr skurðinum en stóð þá ekki í fæturnar. Þá var hann laminn í um hálftíma og líklega er skepnan bara dauð. Þau voru svo miður sín, þessir nágrannar að þau hringdu í mig og þau hringdu í lögregluna og ég sendi þetta bréf á Svanhildi. Ég hef ekki fengið eitt einasta svar frá Svandísi, henni er svo nákvæmlega sama. Ég minnti hana á það í bréfinu að sem matvælaráðherra hafi hún yfirumsjón með velferð dýra. En það á sýnilega ekki upp á pallborðið núna.“
Þetta á ekki að líðast að líta undan slíkum hrottaskap gagnvart  skepnum. Það er eins og það sé einhver innri lömun kerfisins sem gerir það að verkum að skepnur víða fái að líða fyrir.

Orðrétt úr frétt inn á MAST segir:

Ekki er æskilegt að halda fylfullar hryssur á húsi né láta þær kasta í aðþrengdu umhverfi hesthúsa.
Hross eru allt sumarið að undirbúa sig fyrir komandi vetur þó haustið sé mikilvægasti tíminn í því tilliti. Að hausti þurfa öll hross, sem ætlað er að ganga úti frameftir vetri eða vetrarlangt, að hafa aðgang að góðri beit og mikilvægt að þau nái að safna nokkrum fituforða. Fitulag undir húð er einangrandi og eins þurfa hross á fitu að halda til brennslu á meðan stórviðri ganga yfir.
Forstjóri lét þetta hafa eftir sér í viðtali hjá RÚV fyrir skemmstu:
Hrönn Ólína segir gjarnan hættu á að aðbúnaður og meðferð fari aftur í sama farið eftir úrbætur. Því sé mikilvægt að fylgja málum eftir þar sem pottur hafi verið brotinn. Almennt sé þó vel hugsað um dýr á Íslandi.
„En við höfum aðstæður  þar sem er kannski tengt einhverjum öðrum erfiðleikum það er tengt vanþekkingu til dæmis við rekum okkur á að fólk er kannski ekki alveg meðvitað um hvernig aðbúnaður á að vera. Svo sömuleiðis tengist þetta líka öðrum veikindum jafnvel misnotkun á vímuefnagjöfum. Það tengist allt saman.“

Við þetta má svo bæta að áður hafi Mast haft afskipti af þessum aðila vegna dýraníð fyrir tæpum áratug.

Vísir segir svo frá:

Matvælastofnun áður haft afskipti af bóndanumBóndinn á umræddu hrossabúi hefur áður verið sakaður um brot gegn dýrum. Árið 2012 upplýstu þrír fyrrverandi vinnumenn á bænum Matvælastofnun um að gripir á bænum hefðu sætt harðýðgi af hálfu bóndans. 
Ári síðar gaf lögreglustjórinn í Borgarnesi út ákæru á hendur honum. Þar var hann meðal annars ákærður fyrir brot gegn lögum um dýravernd og reglugerð um aðbúnað nautgripa. Þá kemur fram í dómunum að við eftirlit starfsmanna Matvælastofnunar hafi komið í ljós að sjö kýr höfðu misst hluta eða megnið af halanum og um eða yfir tuttugu voru með halabrot eða halaslit. Þá var rör, sem notað var til að hindra kýr i að skíta upp í básana, laust og hvíldi á herðum kúa svo komið var far eftir rörið. Ákærði var grunaður um að hafa valdið ofangreindum halamissi, halabroti og halasliti með því að binda hala kúnna upp.
Þess ber að geta að bóndinn var sýknaður af óskiljanlegum ástæðum.
Förum yfir á annan bæ sem fylgst hefur verið með í mörg ár, allt frá árinu 1994
Enn frétt (frá 2002) af MBL kemur meðal annast þetta fram:
Lögregla og dýralæknar í nítján tíma að skoða 1.600 kindur á bæ í Borgarfirði
Hátt í 200 fjár varð að flytja til slátrunar
HÁTT í 200 fjár af bænum Höfða í Þverárhlíð í Borgarfirði var flutt í sláturhúsið í Borgarnesi í gærmorgun til slátrunar og sýnatöku eftir ítarlega vettvangsaðgerð á bænum nóttina og daginn áður sem alls tók nítján klukkustundir. Lauk aðgerð ekki fyrr en um fimmleytið í fyrrinótt. Þá var á þriðja hundrað fjár flutt burtu af Höfða til fóðrunar á öðrum bæ í hreppnum. Síðdegis í gær barst sýslumanni svo skrifleg kvörtun frá lögmanni ábúenda þar sem aðgerðunum er mótmælt harðlega.
Vegna gruns um illa meðferð á búfénaði fékkst dómsúrskurður til aðgerða á bænum á fimmtudag og fóru á annan tug manna á staðinn frá lögreglunni í Borgarnesi og embætti yfirdýralæknis auk sýslumanns og héraðsdýralæknis. Að sögn Stefáns Skarphéðinssonar sýslumanns var um 1.600 fjár skoðað á bænum og tuttugu af um 120 hrossum.
Stefán sagði að lengi hefði verið grunur uppi um að lög um dýravernd og búfjárhald væru brotin á bænum en eftirlitsaðilar átt erfitt með að sinna skyldum sínum á staðnum vegna mótmæla húsráðenda. Því hefði verið gripið til þess ráðs að fá heimild Héraðsdóms Vesturlands til aðgerða, sem byggði úrskurð sinn á 18. gr. dýraverndarlaga. 
Niðurstan ári síðar í frétt af MBL af máli. Áfram skal halda búfé á bænum þrátt fyrir sakfellingu um vanrækslu:
Sakfelldur fyrir að vanrækja umhirðu og fóðrun á búfé
Ekki sviptur leyfi til að halda og eiga búfé
BÓNDI á bænum Höfða í Borgarbyggð hefur verið dæmdur af Héraðsdómi Vesturlands til að greiða hálfa milljón króna í sekt fyrir brot á dýraverndunarlögum.
BÓNDI á bænum Höfða í Borgarbyggð hefur verið dæmdur af Héraðsdómi Vesturlands til að greiða hálfa milljón króna í sekt fyrir brot á dýraverndunarlögum. Er bóndinn sakfelldur fyrir að vanrækja aðbúnað, umhirðu og fóðrun á 168 kindum sem varð að slátra vegna hors, auk 202 kinda sem komið var fyrir á öðrum bæ í kjölfar eftirlits dýralækna á bænum í febrúar á síðasta ári. Þá er hann einnig sakfelldur fyrir að hafa vanrækt aðbúnað, umhirðu og fóðrun á átta hrossum, en einu þeirra þurfti að lóga.
Héraðsdómur féllst ekki á þá kröfu sýslumannsins í Borgarnesi, sem höfðaði málið, að svipta bóndann leyfi til að eiga eða halda búfé.
Enn eitt dæmið sem það þykir eðlilegt að fólk haldi áfram með skepnur þrátt fyrir sannaðan nýðingshátt.
Árið 2017 lét Mast skjót fjóra stóðhesta á færi í bóginn. Þetta vakti upp óhug hjá landsmönnum sem gagnrýndu þessa aðgerð harkalega.

Úr frétt af Vísi um málið:

- Auglýsing -
Matvælastofnun (MAST) lét skjóta fjóra graðhesta á færi á Skriðulandi í Hörgársveit á fimmtudaginn í síðustu viku. Viku seinna hafði hræjunum ekki verið fargað og lágu þar eins og hráviði um landareignina. Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir á svæðinu, segir mannúðlega að verki staðið við drápið á hrossunum en ekki var farið eftir reglugerð um velferð hrossa.
Upphaf málsins má rekja til þess að á annan tug graðhesta var í fóðurlitlu hólfi á Skriðulandi. Skemmdu þeir girðingar til að brjóta sér leið út úr hólfinu í leit að æti og hlupu á fjall. Þar lenti þeim saman við annað stóð í eigu nærliggjandi bæja sem í voru hryssur, folöld og geldingar. Slógust stóðhestarnir svo mjög að stórsá á þeim og því þurfti að aflífa fjóra þeirra.
Það var gert í síðustu viku. Matvælastofnun fékk dýralækni með stórt skotvopn til að mæta á staðinn. Graðhestarnir, sem átti að aflífa, voru reknir inn í hesthús og teknir út, einn í einu og þeir skotnir á færi við bæinn. „Þetta var að okkar mati mannúðlegasta mögulega aðferðin við að drepa skepnurnar. Samkvæmt mínum heimildum drápust þeir samstundis,“ segir Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir Matvælastofnunar á Norðurlandi eystra.
Af myndum að dæma hafa tveir graðhestarnir samt sem áður borist nokkuð langa leið frá gerðinu fyrir framan hesthúsið. Rauður stóðhestur liggur langt niðri á túni við húsið og brúnn hestur hefur hlaupið úr gerðinu og fest sig í girðingu hinum megin við gerðið og drepist þar.
Hins vegar segir í 14. grein reglugerðar um velferð hrossa að aflífa eigi hross með því að skjóta þau í ennið. „Heimilt er að aflífa hross með skoti í enni […] með skotvopni með lausu skoti. Einnig er heimilt að nota pinnabyssu með pinna sem gengur inn í heila.“ Einnig segir í sömu grein að forðast skuli að hross og önnur dýr verði þess vör.
Ljóst er að ekki var farið eftir þessu ákvæði í reglugerð um velferð hrossa; velferð sem Matvælastofnun á að gæta.
Nú er það bærinn Stórhóll sem hefur verðið til skoðunar frá 2009
Vegna mikilla vanrækslu búfjárs. Tvisvar fyrir dóm vegna slæmra meðferðar á dýrum.

Í Austurfrétt kemur þetta meðal annars fram:

Ítrekaðar athugasemdir
Stórhóll komst fyrst í fréttirnar á sauðburði 2009 en alvarlegar athugasemdir voru þá gerðar búskapinn þar sem féð var illa fóðrað og dauðar skepnur höfðu ekki verið grafnar. Var það þó ekki í fyrsta skipti sem yfirvöld gerðu athugasemdir við aðbúnaðinn á bænum.
Málið fór fyrir dóm þar sem ábúendur voru dæmdir. ábúandi, hefur síðan haldið því fram í fjölmiðlum að hún hafi játað á sig illa meðferð á dýrum til að sleppa við frekari málarekstur.

Árin líða og stöðug vanræksla af hálfu ábúenda heldur áfram.

Í frétt á Rúv árið 2010:

- Auglýsing -
Matvælastofnun áætla að enn séu um 400 kindur frá Stórhóli á fjalli þó kominn sé hávetur. Stofnunin krefur ábúendur um að ljúka smölun fyrir 10. desember og tryggja húsakost fyrir féð. Ábúendur kenna hinsvegar Djúpavogshreppi um hversu illa gekk að smala í haust og segjast ætla að ljúka smölun áður en frestur til þess rennur út.

Austurfrétt fjallaði um úrbætur að hendi Mast 2011:

Féð var að mestu selt en lakasta fénu var slátrað. Þá leituðu búendur sér ráðgjafar ráðunautar til að bæta fóðrun. MAST vonar að þessar aðgerðir komi til með bæta búfjárhaldið á lögbýlinu og telur að ákveðinn árangur þess efnis hafi nú þegar náðst.
Matvælastofnun hefur undanfarin ár haft reglulegt eftirlit með búfé á bænum til að tryggja viðunandi fóðrun og aðbúnað. Stofnunin mun áfram sinna eftirliti með að úrbætur séu í samræmi við lög og reglur um aðbúnað og umhirðu.“
Opið bréf sem birtist í Austurfrétt árið 2010 frá sveitunga, Stefaníu Björg Hannesdóttur:
Undirrituð, sem býr í næsta nágrenni við Stórhól og þekkir því allar aðstæður vel, getur samvisku sinnar ekki lengur orða bundist í ljósi staðreynda. Oft hefur undirrituð á daglegum ferðum sínum, sem  skólabílsstjóri, séð margt illa haldið fé við túnfótinn á Stórhól og hefur svo háttað til á Stórhól um langt árabil
Á síðastliðnu vori mátti sjá sérstaklega illa útlítandi fé allt í kringum bæinn og sömuleiðis við þjóðveginn og  það fé var í stórum stíl grindhorað með slæma sótt og litlu lömbin, stóðu undantekningalaust í keng af sulti. Ábúandi leyfir sér engu að síður að halda því fram eins og áður segir að aldrei hafi verið svelt skepna á Stórhól og heldur því sömuleiðis að jöfnu fram að ástæðan fyrir slæmu útliti fjárins sé lungnaveiki, en lungnaveiki er hinsvegar einmitt einn af fylgikvillum slæmrar meðferðar. Jaxlaveiki hefur sömuleiðis verið borið við til að breiða yfir sannleikann í málinu það er vanfóðruninni og almennt ömurlegum aðbúnaði fjárins.
Það er ljóst að aðbúnaður á þessum tiltekna bæ hefur ekki farið fram hjá neinum. Þess vegna vaknar sú spurning hvort menn sem sinna eiga þessum málum séu hreinlega sofandi.
Í viðtali á MBL segir Eyrún Arnardóttir héraðsdýralæknir, árið 2013:
Spurð hverju ný lög breyti í málum eins og á Stórhóli svarar Eyrún að með þeim sé Matvælastofnun t.d komin með skýrara úrræði. „ Okkur hefur stundum gengið erfiðlega að vinna úr svona málum. Í nýju lögunum er tekið skýrt fram að Matvælastofnun sé heimilt að takmarka eða stöðva starfsemi þegar um alvarleg tilvik eða ítrekuð brot er að ræða. Við erum líka að taka upp dagsektir og það er nokkuð sem við getum vonandi nýtt okkur frekar. Eigandi hefur alltaf andmælarétt og getur kært úrskurð Matvælastofnunar. Þannig að þetta er ekki bara undir okkur komið heldur skilningi dómstóla líka og það er mikilvægt að menn á öllum stigum séu meðvitaðir ef við ætlum að bæta úr þessu.“
Stórhóll Lamb stendur ofan á dauðri á. Mynd tekin um 2009.
Frétt af mbl 2013:
Sauðfjárbú er enn rekið á bænum Stórhóli í Álftafirði í Djúpavogshreppi. Árið 2009 kom í ljós að ástand sauðfjár á bænum var mjög alvarlegt vegna vanfóðrunar og vanhirðu.
Sauðfjárbú er enn rekið á bænum Stórhóli í Álftafirði í Djúpavogshreppi. Árið 2009 kom í ljós að ástand sauðfjár á bænum var mjög alvarlegt vegna vanfóðrunar og vanhirðu. Þá voru um 1300 fjár á bænum en leyfi er fyrir að halda þar um 700 fjár. Árið 2010 fór mál bændanna á Stórhóli fyrir héraðsdóm þar sem ábúendurnir, karl og kona um sextugt, voru sökuð um dýraníð. Þau játuðu á sig slæma meðferð á dýrum og þeim var gert að greiða 80 þúsund krónur í sekt. Í október 2012 dæmdi Héraðsdómur Austurlands aftur í málefnum ábúenda á Stórhóli og þá var konan, sem er skráð fyrir búinu, dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi vegna brota á dýraverndunarlögum. Kröfu um að henni yrði bannað að eiga búfé var hins vegar hafnað. Enn er því fé á bænum.
Á þessum tímapunkti hefði átt að vera löngu ljóst heilvitum mönnum að slíkir bændur eigi ekki að fá að halda skepnur. Samt er ekkert sjálfsagðra en að leifa slíka háttsemi áfram. Enn og aftur fá dýrin ekki að njóta vafans þó svo að sönnur mættu bera á vanrækslu
Langar að lokum að vitna í þennan ágæta dýralækni sem hefur bent á í mörg ár að þessi mál ættu að vera komin á betri stað.

Sigurður Sigurðarson fv, yfirdýralæknir segir á vef Dagskrárinnar, árið 2012:

Ætti að vera leyfisskylt að halda búfé
Sigurður segist þekkja það af eigin reynslu að erfitt geti verið fyrir eftirlitsaðila að koma fram úrbótum þegar þeir mæti ósamvinnuþýðum mönnum. En hann telur vanta upp á vilja og öguð, hiklaus vinnubrögð til hjálpar dýrum. Málin taki allt of langan tíma og réttur eigenda til að ráða yfir og græða á dýrum sínum sé oft metinn hærri af dómurum en réttur dýranna til fóðurs og vatns, lífs og heilsu. 
„Það ætti að vera leyfisskylt til eins árs í senn að hafa búfé og auðveldara þyrfti að vera en nú að svipta þá leyfinu sem bregðast. Hinir, sem allt hafa í lagi fái endurnýjun leyfis sjálfkrafa,“ segir Sigurður
Þarna kemur Sigurður inn á mikilvægan punkt sem ætti vera hægt að vinna út frá til þess að þetta verði ekki áfram líðandi í núverandi mynd. Rödd sem talar af skynsemi og þekkingu í þessum málum.
Ég set spurningamerki við það að búfjáreftirlitsmenn haldi búsetu í þeim héruðum sem þeir starfa fyrir vegna tengsla og vinskapar sem eðlilega myndast. Réttara væri að fá óháða aðila í verkin sem gætu beitt sér harðar.

Það er einlæg ósk mín að þessir hlutir verði teknir alvarlega. Dýrin eiga ekki undir neinum kringumstæðum að búa við slæmar aðstæður. Það á að vera í höndum okkar æðstu yfirmanna að láta sig málið varða og standa upp fyrir fyrir réttlæti. Það er ekki gaman að þurfa að stíga inn á þennan vígvöll, mikið þægilegra að líta undan. En nú er undiralda og við krefjumst úrbóta.

Næst mun ég taka fyrir þau mjólkurbú sem ekki hleypa kúm sínum út.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -