Miðvikudagur 27. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Danskur drykkjuskapur: „Af leikurunum fjórum skaraði Jörundur Ragnarsson fram úr“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég skal fúslega játa að ég varð undrandi á þessu verkenavali L.R. þegar ég heyrði fyrst af því. Bæði er myndin mörgum í fersku minni, hefur meiraðsegja dottið inn á Netflix, auk þess sem maður hlaut að spyrja hvort leiksviðið væri líklegt til að skila einhverju betur en myndin. Engu að síður viðurkenni ég jafn fúslega að sýningin hafi átt rétt á sér sem “áhorfenda-smellur”, sem ég hygg að vísu að sé að verulegu leyti leikendunum fjórum og vinsældum þeirra að þakka. Það leyndi sér alltént ekki á þeirri sýningu sem ég sá nú undir vorið að áhorfendur skemmtu sér alveg ljómandi vel. Jafnvel of vel, gæti ég freistast ég til að segja.
Og nei, mér finnst leikgerðin standa myndinni mjög að baki og það jafnvel þótt Tomas Vinterberg muni hafi samið hana sjálfur. Meðal þess sem að henni hefur verið fundið er að drykkjufélagarnir fjórir, sem myndin segir frá, eru hér einu persónurnar; allir umhverfis þá, makar, börn, starfsbræður og nemendur, allt þetta fólk er strikað út – eins þótt það sé enginn þarflaus rammi í myndinni heldur mjög virkur þátttakandi í þeirri ógæfu sem þessir fjórir samkennarar rata í þegar þeir taka upp á þeirri fásinnu að fara að gera “tilraun” með þol sitt fyrir áfengi. Ég get ekki annað en verið sammála þeirri aðfinnslu.
Þó að myndin fjalli um fjóra menn, þá er okkur ekki hleypt jafn nærri þeim öllum. Þar er það snillingurinn Mads Mikkelsen í hlutverki sögukennarans Martins sem í reynd ber myndina uppi og bregst hvergi fremur en fyrri daginn. Flöktandi myndataka Dogma-skólans ásamt djarflegri notkun nærmynda styður leiktúlkun hans og hinna kolleganna þriggja; við bæði sjáum og skynjum hvernig alkóhólið nær tökum á þeim og dregur tvo þeirra niður í sinn svarta svelg sem aðeins endar á einum stað. En þannig er alkóhólisminn nú einu sinni: sumir geta neytt áfengis í miklu magni án þess að ánetjast því; öðrum dugir rétt að reka í það tunguna til þess að verða helteknir af nautninni. Sjúkdómur sem enginn veit hvað veldur – eða getur séð fyrir – og læknavísindin hafa engin ráð við.

Af leikurunum fjórum skaraði Jörundur Ragnarsson fram úr, enda er hlutverk hans hér orðið að þeim burðarási sem hlutverk Martins er í myndinni, og Jörundur nýtti tækifærið vel. Hilmir Snær sem leikur Martin nær aftur á móti ekki vopnum sínum þetta kvöld. Hilmir er alltaf stór leikari, en þegar leikur hans lendir í klisjum, þá verður úr ein stór klisja: rödd sem dregur seiminn og svolítið slyttislegar hreyfingar, nokkuð sem við erum löngu búin að sjá nógu oft. Halldór Gylfason skilar sínu vel, en það er varla við hann að sakast heldur höfund leikgerðar að örlög mannsins verða hvergi nærri jafn átakanleg og í myndinni, þar sem lýsing hans er á mun tempraðri nótum.

Þegar upp er staðið sit ég eftir með þá tilfinningu að tilgangurinn með því að semja leikrit upp úr kvikmyndhandritinu að Druk hafi aðallega verið sá að græða á því. Mér finnst það ekki sérstaklega lofsvert, en á hinn bóginn er auðvitað ánægjulegt að Leikfélagið skuli hafa fundið það kassastykki sem því hefur svo sannarlega ekki veitt af á því ærið brösótta leikári sem nú er að baki. Leikhús lifa ekki á loftinu, gleymum ekki því!

Lestu grein Jón Viðars í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -