2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Eðli lífsins er þróun

Kvikmyndin Matrix er að mínu mati einhver djúpheimspekilegasta mynd síðustu aldar – fyrir utan hvað hún er yfirgengilega töff. Í einu atriði hittir aðalsögupersónan Neo fyrir strák sem er gæddur þeim hæfileikum að geta beygt skeið með hugarorkunni. Strákurinn segir við Neo þegar hann reynir hið sama: „ekki eyða orkunni í að reyna beygja skeiðina, heldur sjáðu: það er engin skeið.“ Neo lendir í allskonar ævintýrum en hans stærsta hindrun og stef myndarinnar er að frelsa sinn eigin huga. Frelsa sinn eigin huga frá öllum fyrirframgefnum hugmyndum um heiminn og hvað hann sjálfur sé.

Við erum oft með fyrirgefnar hugmyndir um samfélagstrúktúralisma og kennisetningar – um okkur sjálf, hvernig eitthvað eigi að vera og svo framvegis. Hugur minn er yfirfullur af fyrirframgefnum hugmyndum sem ég hef að endingu séð að eru engin lögmál – um mig, aðra og heiminn. Öll samfélagsleg kerfi sem við höfum – fá af þeim eru lögmál. Samfélagið og reglurnar eru bara þær sem við ákveðum þær séu hverju sinni enda öll kerfi verk mannanna og breytingum háð. Allt sem er bundið formi og tilheyrir hinum ytri heimi er breytilegt í eðli sínu.

Kerfi virðast stundum hafa öðlast sjálfstætt líf. Og þegar kerfið hefur öðlast sjálfstætt líf er tilhneigingin að það veiti breytingum andspyrnu – íhaldssemi og sumpart stöðnun verður meginstefið. Er það eðli kerfa að verjast breytingum? Eitt stærsta lögmál náttúrunnar og lífsins er þróun. Vöxtur. Ekki stöðnun. Orðið stöðugleiki merkir bara það sem hver vill en stöðugleiki er ekkert markmið í sjálfu sér, ef hann hindrar þróun. Stöðugleiki er eitthvað sem við höldum að við þurfum, þægindarammi. En hann getur verið samnefndari fyrir stöðnun og ekkert vex eða þroskast í þægindarammanum.

Þannig er það með margar pólitískar umræður í íslensku samfélagi – þær fá ekki að þróast. Fátt gerist. Líklega af því að fólk er óttaslegið við breytingar, það óþekkta. Þetta á við um stór mál og smá. Stjórnarskrárnefndir hafa starfað frá 1942 – raun og veru linnulaust frá því að Íslendingar fengu sjálfstæði en samt hefur okkur ekki tekist að fá samþykkta eigin stjórnarskrá. Ný stjórnarskrá er þó tilbúin í heildardrögum. Vegferð forsætisráðherra er engu að síður 8 ára heildarendurskoðun. Að mínu mati óþörf miðað við alla þá vinnu sem þegar hefur verið unnin og umboðslaus ákvörðun, miðað við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Að sama skapi sjáum við sömu umræðuna aftur og aftur um klukkuna, áfengi í búðir, gjaldmiðilinn og svo framvegis. Skjaldborgin um stöðugleikann er svo gott sem stöðnun.

AUGLÝSING


Á meðan stöðnun ríkir verður reglulega ólga innan samfélagsins. Það skapast ólga þar sem það er verið að hindra sjálfsagðan vöxt, sem stundum virðist vera hlutverk kerfisins eða íhaldsins. Það verða til atburðir sem eru til þess gerðir að vekja okkur og gera okkur kleift að taka út skjótan þroska. Hrunið var gott dæmi – en þroskinn hefur staðið á sér. Sambærilegir atburðir munu endurtaka sig þangað til lærdómnum hefur verið náð.

Við þurfum að skoða þessi kerfi sem höfum byggt upp eins og frá sjónarhóli barns. Spyrja af hverju? Það er eins í okkar daglega lífi. Verum ekki alltaf að skrapa í yfirborðið. Förum dýpra. Spyrjum spurninga á borð við: Af hverju njóta fyrirtæki betri skatthelgi en einstaklingar? Frekar en að fókusa á að hreyfa prósentustig upp eða niður, færa þrep upp eða niður. Hvað með grundvallarforsendur skattkerfisins, eiga þær enn rétt á sér – hverjar eru þær? Af hverju þurfum við að vinna 8 klukkustundir á dag á sama stað? Er það eitthvað lögmál – hver ákvað það og á það jafnvel ekki lengur við miðað við þróun samfélagsins? Hefur tækni t.d. ekki hraðað vinnu – hefur það endurspeglast í álagi? Hvað myndi gerast ef allir ynnu t.d. bara 4-6 tíma? Ég giska á ekkert. Heimurinn héldi áfram að snúast og sólin að rísa. Hvað myndi gerast ef við myndum banna eldsneyti vegna þess að það er að eyðileggja jörðina? Er það ekki svo að við myndum finna aðra samgöngumáta? Og svona má lengi halda áfram.

Í stað þess að eyða allri orkunni í að reyna beygja skeiðina, er betra að sjá sannleikann: það er engin skeið. Allt sem er gert af mönnum er ekkert náttúrulögmál. Það eru kerfi sem má breyta þegar þau þjóna ekki lengur undirstöðu gildum. Það er blekking að þeir kastalar og stjórnkerfi sem við byggjum feli í sér heilagan sannleik. Eðli lífsins er þróun. Eðli mannsins er aðlögunarhæfni. Vestræn samfélög standa á tímamótum með yfirvofandi breytingum á jörðinni vegna loftslagsbreytinga og hraðrar tækniþróunar. Annað hvort tökum við forystu í þeirri þróun eða að við reynum að verja núverandi lifnaðarhætti og synda á móti straumnum. Ef við getum ekki þorað að stíga út fyrir þægindarammann til að gera tilraunir eins og t.d. með klukkuna eða lent ágreiningi eins og með áfengi í búðir er hættan sú að við höfum ekki hugrekki til að reyna við stóru málin.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni