Sunnudagur 29. maí, 2022
8.1 C
Reykjavik

Ég á heim’ á Bannlandi, Bannlandinu góða

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -
Úti í guðsgrænni náttúrunni
Bjartur nýtur tilverunnar og frelsisins.

Ég man þá tíð þegar listinn yfir það sem var leyfilegt var lengri en sambærilegur listi yfir það sem bannað var. Vissulega var fyrr meir ýmislegt bannað; sumt var bannað með lögum og síðan var sitt lítið af hverju sem ekki þótti tilhlýðilegt að aðhafast.

Nú um stundir virðist sem að víða sé komin til valda kynslóð sem sér enga leið færa, ef skóinn kreppir, en að banna allt mögulegt. Nýjasta dæmið er bann við lausagöngu katta sem taka á gildi í höfuðstað þeim hluta landsins sem Norðurland nefnist, í ársbyrjun 2025. Þannig er nefnilega mál með vexti að kettir í því þorpi hafa annaðhvort ekki fengið minnisblað þess efnis að þeir eigi að draga saman hringvöðvann ef þeim verður „brátt í brók“ úti í guðsgrænni náttúrunni og eigi slaka á fyrr en þeir eru komnir til síns heima, eða fengið fyrr nefnt minnisblað og látið sig litlu varða innihald þess.

Sem sagt, nú hafa íbúar Akureyrarþorps, þ.e.a.s. ef þeir hafa gerst sekir um þá ósvinnu að gerast hjú kattar, svigrúm til að venja húsbændur sína á nýjasta bannið áður en það skellur á af fullum þunga.

„Við þurfum að tala saman,“ er sígilt upphaf samræðna sem ekki boða gott, en sennilega það eina sem í boði er; að ná kettinum á eintal og segja: „Við þurfum að tala saman.“

 

Síðan yrði að leiða köttinn í sannleikann um þá framtíð sem bíður hans og fá hann til að skilja mikilvægi þess að nýta aðlögunartímann vel. Kettir verði að draga hægt og rólega úr „klósettferðum“ sínum út í garð og temja sér „veiða/sleppa“-aðferðina hvað öll flygildi áhrærir. Í stuttu máli verður að koma köttum norðan heiða, nánar tiltekið á Akureyri, í skilning um það að Adam er ekki lengur í Paradís og ekki er í boði að kæra mismunun í líkingu við það sem tíðkast meðal manna sem segja sýknt og heilagt: „Þetta er réttur minn!“ og horfast ekki í augu við þá staðreynd að ef þeir ná fram „rétti sínum“ eru þeir sennilega að ganga á rétt einhvers annars. Það er vandlifað í veröld þar sem tilhneigingin og krafan er að öllum sé gert til hæfis; það sé réttur allra!

- Auglýsing -

Mér er til efs að kettir og eðli þeirra muni ríða þessari veröld á slig, mannskepnan er þar mun líklegri kandídat og reyndar komin asskoti vel á veg í því samhengi.

Á göngu í mínu hverfi í Reykjavíkurbæ má iðulega rekast á ketti og aldrei hef ég séð nokkurn mann amast við þeim. Þeir spranga þar um í öllu sínu veldi, sumir með bjöllu sem sindrar á og aðrir með trúðakraga, sem er mjög móðins nú um stundir. Án efa ganga þeir örna sinna í görðum hér og hvar og veiða einn og einn fugl, þegar svo ber undir. Þeir hafa enda ekki lesið smáa letrið í tilvistarsáttmálanum sem á að tryggja þeim frjálsa för um vegi, í það minnsta í norðlenska þorpinu við Eyjafjörð þar sem gras er eingöngu til að horfa á og fuglum skal tryggt líf fram í háa elli, að ekki sé minnst á litlu, sætu mýsnar sem fólk þar býður sennilega velkomnar með vænu stykki af Góðosti (fyrr meir Gouda-osti) sem þær geta síðan skolað niður með flóaðri mjólk, nú eða rjóma ef um sunnudagsheimsókn er að ræða.

En aftur að boðum og bönnum hér á Bannlandi. Ég bý ekki í Akureyrarþorpi, ég á ekki einu sinni kött. Ég átti kött, Bjart í Kolbeinshúsum, og fátt fannst honum skemmtilegra en að rölta um hverfi sitt, kanna lendur sínar og fullvissa sig um að allt væri sem skyldi. Bjartur átti það til að bera björg í bú, stundum var um mýs að ræða, stundum rottur, stundum fugla og einnig átti hann til að bera inn mikinn fjölda ánamaðka.

- Auglýsing -

Af framansögðu má telja ljóst að boðað bann fyrir norðan mun ekki hafa bein áhrif á tilveru mína, nema á henni verði breyting sem inniber annan kött á heimilið. Reglan, nokkurn veginn án undantekninga, hér á Bannlandi er sú að þegar ein beljan mígur verður annarri mál og því má telja nokkuð öruggt að reynt verði að koma viðlíka banni, og nú er boðað í höfuðstað Norðurlands, á annars staðar á landinu.

Sennilega væri þó farsælast fyrir jörðina og vistkerfi hennar að banna lausagöngu mannskepnunnar.

Smelltu hér til að lesa brakandi feskt helgarblaðið eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -