Fimmtudagur 11. ágúst, 2022
9.8 C
Reykjavik

Ég játa mig geðveika

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Ég er geðveik. Ég játa mig geðveika.

Ég hef þurft að leita mér aðstoðar á geðdeild.

Það sem amar að mér er í fyrsta lagi þetta venjulega; kvíði. Almenn kvíðaröskun heitir það víst. Svo bætum við ofan á það dassi af þunglyndi. Ég fékk nýja og glansandi greiningu á því um daginn. Það heitir víst „óyndi“. Það þýðir að mig langar yfirleitt ekki til að deyja, en mér líður svona almennt ekkert vel heldur. Svona alltaf rétt aðeins undir yfirborðinu. Alltaf svona dálítið óhress. Þótt það sem slíkt sé vissulega ekki frábært, þá er nafnið sjálft einstaklega gott og lýsandi. Ég vil meina að þetta hljóti að vera fallegasta geðröskunarorð sem til er. Óyndi. Svolítið eins og óféti, nema fágaðra. Fínna óféti. Það er ég.

Meðlæti með þessum tvískipta aðalrétti er síðan smá athyglisbrestur. Gott og vel; ekki smá, heldur nokkuð mikill. Ég veit, týpískt líka. Ekkert frumlegt að sjá hér – haldið bara áfram göngu ykkar.

Ég er með þetta klassíska „stelpu-ADHD“. Ég var dugleg að læra, hagaði mér frekar vel en var fullkomlega utan við mig og gat týnt sjálfri mér á leiðinni út í frímínútur. Svo var ég skelfilega lengi að öllu. Alltaf sein.

Ég man eftir því þegar við áttum að teikna sjálfsmynd í upphafi sjötta bekkjar og hengja hana svo upp fyrir ofan snagana okkar. Mín mynd var sú eina sem var ekki komin upp á vegg viku síðar. Hún var enn ekki tilbúin í febrúar. Andlitið á mér birtist ekki fyrir ofan snagann minn fyrr en undir lok skólaársins. Þá var ég búin að gera ótal skissur, henda fleiri myndum en ég gat talið og týna lokaútgáfunni að minnsta kosti tíu sinnum.

- Auglýsing -

Svo komum við að rúsínunni í pylsuendanum. Geðveikinni sem ég tala sjaldnast um. Ég veit ekki hvers vegna. Kannski vegna þess að þessi tiltekna röskun hefur verið skrumskæld svo mjög í dægurmenningunni að hún hefur orðið að einhvers konar brandara, ódýrri útgáfu af sjálfri sér og margir hafa ekki hugmynd um hvað hún í raun og veru er. Kannski er það vegna þess að hún hefur valdið mér meiri vandræðum en ég kýs að viðurkenna. Eða kannski af því að mér finnst hún ekki há mér svo mikið – ekki lengur. Ekki eins mikið og oft áður.

Sú kallast þráhyggjuárátturöskun, eða OCD. Í dag lýsir hún sér mestmegnis í þráhyggju; ég fæ hluti á heilann og get orðið eins og rispuð plata. Ákveðnar hugsanir geta leitað á mig og valdið mér óþægindum. Ég held til dæmis reglulega að heima hjá mér leynist pöddur og meindýr úti um allt. Ég hef iðulega fengið myglu á heilann og mælt og rannsakað allt í bak og fyrir í íbúðinni minni, jafnvel losað lista og fjalir til að sanna mál mitt. Sönnunin hefur hingað til ekki verið til staðar.

Ég hugsa stundum um að gera eitthvað slæmt, sem er algjör andstæða persónuleika míns, skoðana og vilja. Ég er með ákveðnar venjur og siði sem mér líkar mjög illa að farið sé á móti.

- Auglýsing -

Á ákveðnum tímapunkti fór ég að vinna í að skrúfa aðeins niður í þessu.

Ætli það hafi ekki verið um svipað leyti og ég æpti á vinkonu mína og kallaði hana ógeð þegar hún kramdi óvart Doritos-snakkið sem við höfðum keypt okkur fyrir kósíkvöld.

Fram að þessu eyddi ég alltaf löngum tíma í að velja snakk í búðum með það að markmiði að finna snakkpokann með minnst brotna snakkinu. Ég kallaði það að „hlusta á snakkið“. Það gat tekið langan tíma þegar starfsfólkið hafði greinilega átt slæman dag og tekið það út á snakkinu þegar það raðaði í hillurnar.

Það sem er sýnilegast af þráhyggjuáráttunni í dag eru nöguðu, kroppuðu og klóruðu fingurnir á mér. Það er í rauninni hægt að álykta með nokkurri nákvæmni hver staðan á geðheilsu minni er með því að skoða á mér puttana. Í það minnsta gefa þeir góða vísbendingu um kvíða- og áráttustig. Þegar ég þarf að koma vel fyrir plástra ég þá alla vandlega dagana á undan. Reyni að temja skrímslið með beisli.

Uppáhaldsdæmi mitt um þessa röskun er þó tvímælalaust handþvottaráráttan sem ég glímdi við á tímabili þegar ég var lítil. Ég varð fullkomlega upptekin af því að allt væri skítugt og að sýklar leyndust á öllum flötum. Sem er í sjálfu sér ekki rangt. Það er hins vegar kannski fullmikið af hinu góða þegar maður getur ekki séð vask í friði án þess að þurfa að þvo sér í honum og hendurnar eru orðnar þurrar, skorpnar og blæðandi.

Pabbi botnaði ekkert í þessu og þessi árátta pirraði hann. Honum hefur kannski þótt óþægilegt að eiga svona ruglaðan krakka, en það þótti hins vegar ekki ástæða til að kíkja með stelpuna í greiningu. Svona þrifalega og fína? Til hvers? Hann þrábað mig í staðinn að hætta þessu bulli.

Einn daginn amaði eitthvað að mér svo hann varð að fara með mig til læknis. Það var eitthvað líkamlegt, alvöru dót. Ég man að við sátum inni hjá lækninum, sem svo skrapp fram að sækja eitthvað. Um leið og hann yfirgaf stofuna sá ég vaskinn. Og pabbi sá að ég sá hann.

„Nei, Gunnhildur,“ sagði hann. Ég leit á pabba. Svo á vaskinn. Ég byrjaði að ókyrrast.

„Gunnhildur. Þú ferð ekki í vaskinn. Þú ert EKKI að fara að þvo á þér hendurnar.“

Leit á pabba. Hann að bora gat í mig með augnaráðinu. Af pabba á vaskinn.

Vaskinn.

Byrjaði að nudda höndunum saman. Hrista fæturna.

„Gunnhildur. Nei.“

Vaskurinn. Pabbi. Vaskurinn.

Svo tók ég á rás. Ég spratt upp úr stólnum eins hratt og ég gat og var komin að vaskinum og byrjuð að skrúbba á um það bil sekúndubroti, vil ég meina. Ég blés frá mér andanum sem ég hafði haldið í mér með feginsandvarpi.

„Nei! STOPPAÐU!“

Ég stoppaði ekki. Ég skrúbbaði vel og vandlega, með nóg af sápu, þar til þörfinni var fullnægt. Svo þurrkaði ég mér í hvelli. Það var meira að segja sprittbrúsi sem ég gat slett úr á hendurnar að þvottinum loknum – hvílíkur lúxus.

Svo settist ég aftur við hlið pabba, skömmustuleg, á meðan hann sendi mér skýr skilaboð með augnaráðinu og hristi höfuðið, æfur yfir óhlýðninni.

Ég læknaðist ekki af þessari áráttu þótt hendurnar á mér væru orðnar flakandi sár og ég með sáran sviða í hvert sinn sem ég þvoði þær. Ég læknaðist ekki fyrr en ég fór í sveitina mína um sumarið. Þá fór ég smátt og smátt að samþykkja að verða skítug – vegna þess að í því samhengi þurfti maður að verða skítugur til þess að hafa gaman og njóta lífsins. Ég held að það hafi líka tekist vegna þess að ég var rólegri þar. Kannski líka glaðari. Ég kom til Reykjavíkur aftur, laus við handþvottarpúkann.

Það skal tekið fram að ég áfellist pabba ekki fyrir viðbrögð hans. Alls ekki. Hann vissi ekki hvað þetta var og þetta stressaði hann.

Það vill þannig til að ég, með mínar raskanir og geðsjúkdóma, er samt frambærileg manneskja. Ég hef gaman af lífinu og finnst þetta litróf að mörgu leyti áhugavert. Ég elska að skapa, er ástríðufull og nýt þess sem ég geri.

Ég er hæf og brotni heilinn í mér er nokkuð skarpur. Ég er bara ansi læs á sjálfa mig og heiminn. Ég held að hæfileiki minn til að tengja við annað fólk hafi þó nokkuð með reynslu mína af geðröskunum að gera.

Þessar raskanir gengisfella mig ekki eða gera mig minna virði. Ég hef ekki alltaf vitað það, en ég veit það núna. Kannski ekki alla daga, en oftast.

Ég vona að fólk sem er ekki komið þangað í sinni vegferð taki ekki mark á fordómafullum einstaklingum sem berja aðra niður fyrir að glíma við geðraskanir.

Ég vona að engir, ungir framhaldsskólanemar sem eiga um sárt að binda vegna geðraskana þurfi að sitja tíma hjá kennara sem opinberar fyrirlitningu sína á þeim og er augljóslega stoltur af afstöðu sinni.

Við þessa einstaklinga vil ég segja: Berðu höfuðið hátt. Gakktu um gangana. Gakktu um þá eins og þú eigir þá. Þú átt ekki minna skilið og þú ert mikils virði. Þetta verður betra.

Ég er geðveik.

Ég játa mig geðveika.

En ég skammast mín ekki fyrir það.

 

 

 

 

Laugardagspistilinn má einnig finna í nýjasta helgarblaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -