Miðvikudagur 10. ágúst, 2022
9.8 C
Reykjavik

Ég var skrýtinn krakki: Hélt með Írak gegn Íran

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

… og hann segir mér fleira um fár og hungur og frostin hörðu þegar hann var ungur, en holtin og ásarnir ættaður frá tungu og álfur í sérhverjum hóli …

Ég er talsvert yngri en Megas, en þegar ég var lítill patti, árið sem lagið við textann hér að ofan, Gamla gasstöðin við Hlemm, kom út á plötunni Fram og aftur blindgötuna, á því herrans ári 1976, var ég fimm ára og 97 prósent læs.

Og ég hef lesið mikið síðan þá, og geri enn.

Vísunin í texta Megasar er einhvers konar þráhyggja gagnvart fortíðinni; hvort sem hún var góð eða slæm. Og við mannfólkið höfum jú afar gaman af því að tala um fortíðina, og stundum á þeim nótum að allt hafi nú verið betra en nú – sem er alls ekki rétt. Það er miklu skemmtilegra að vera til í dag en oftast áður.

En ég fór að rifja aðeins upp þegar mamma og pabbi skildu þetta saman ár og áðurnefnt lag og plata Megasar kom út – 1976. Og fór að velta því fyrir mér hvað maður var að gera á næstu árum á eftir annað en að spila körfubolta, handbolta og fótbolta, og vera í skólanum.

Engar tölvur eða net, heimasími, og lítið sem ekkert gert fyrir börn og unglinga í Hafnarfirði á þeim árum.

- Auglýsing -

En ég fann mér alltaf eitthvað til dundurs enda verið ofvirkur og með massífan athyglisbrest frá því að ljósmóðirin skar á nabblastrenginn þarna á Sólvangi í maí árið 1971.

Eða var það pabbi? Ég þarf að spyrja mömmu.

Um leið og ég var orðin læs las ég allt sem ég festi hönd á; Frank og Jói, Desmond Bagley, Tarzan-blöðin og auðvitað Tinnabækurnar.

- Auglýsing -

En það sem ég las mest var hins vegar málgagnið – Morgunblaðið – blessuð sé minning þess.

Mamma keypti Moggann og ég las íþróttasíðurnar, afþreyingarsíðurnar en þó fyrst og síðast, erlendu fréttirnar, sem ég var sjúkur í, og það er einhvers konar sjúkleiki eða andstaðan við hann.

Ég man svo vel eftir nokkrum forsíðum – en gamli góði Mogginn var með erlendar fréttir á forsíðu en innlendar á baksíðu – hana las ég sjaldan.

Tvær eftirminnilegar forsíður voru þær, þegar Elvis Presley dó í ágúst 1977 og svo þegar fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Aldo Moro, var myrtur af Rauðu herdeildunum í maí 1978.

Ég gleypti allt svona í mig.

Ég las allt um stríðið á milli Írak og Íran, sem stundum er kallað gleymda stríðið, en því stríði hef ég aldrei gleymt og var á tímabili heltekinn af því. Þetta var í raun ekki stríð heldur slátrun og minnti um margt á hinn hryllilega skotgrafahernað fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Tölum ber ekki saman um mannfall, en hæsta talan sem hefur verið nefnd varðandi mannfall er tvær milljóna íranskra og írakskra hermanna á árunum 1980 til 1988 – þeir voru sendir út í opinn dauðann af Saddam Hussein og Ayatollah Khomeini.

Og ég sem barn hélt með Írak. Ástæðan var sú að mikil dýrkun var á Bandaríkjunum á Íslandi á þessum tíma og litið var á Khomeini sem holdgerving hins illa á meðan margir vita ekki einu sinni að það var Saddam sem réðst inn í Íran með stuðningi Bandaríkjanna og líklega mínum. Og hann beitti efnavopnum eins og að drekka vatn.

Margt hefur breyst síðan og í dag eru Bandaríkin fyrir mér eitt mesta hryðjuverka- og þjóðarmorðsland mannkynssögunnar. Á pari við þriðja ríkið og breska heimsveldið.

Þegar að stjórnmálum kemur er nefnilega allt baðað í ljóma þeirra sem stjórna hverju sinni, en ég var hins vegar lítið að spá í það árið 1980. Ég hélt bara með Írak og ég var skrýtinn krakki. Sem er gott.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -