2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Erfitt árferði hjá flugfélögum

Flugfélög í alþjóðlegri samkeppni hafa mörg hver glímt við rekstrarerfiðleika að undanförnu. Fyrst má nefna félagið Primera Air sem setti fram beiðni um gjaldþrotaskipti í byrjun október.

Wow air hefur síðan glímt við erfiðleika frá því í haust. Í september fór félagið í alþjóðlegt 100 milljón evra skuldabréfaútboð, ásamt því að stefna að skráningu á hlutabréfamarkað í kauphöllinni í Frankfurt. Síðar bárust fréttir af því að Icelandair myndi yfirtaka Wow air. Af því varð ekki. Í stað þess var tilkynnt um 75 milljón dala fjárfestingu Indigo Partners á 49 prósenta hlut í flugfélaginu.

Og það eru ekki bara íslensk flugfélög sem glíma við rekstrarerfiðleika. Þannig féll hlutabréfaverð Norwegian Air nú í upphafi árs um 20% eftir að International Airlines Group (IAG), móðurfélag British Airways, hætti við mögulega yfirtöku og seldi 4,6% hlut sinn í félaginu. Í vikunni var sagt frá gjaldþroti þýska flugfélagsins Germania sem hefur meðal annars flogið til Íslands. Þá var Ryanair rekið með tapi á síðasta ársfjórðungi 2018 í fyrsta skipti frá árinu 2014. Air Berlin varð gjaldþrota í lok sumars 2017 og svona mætti lengi telja.

Aldrei fjárfesta í flugfélögum?

En af hverju eru fjárfestar að setja fjármagn í flugfélög? Fræg eru orð Warren Buffets, fjárfestis. Aldrei, aldrei, aldrei fjárfesta í flugfélögum. Honum snérist reyndar hugur í lok árs 2016 þegar hann fjárfesti í Delta Airlines, United Continental, American Airlines og Southwest Airlines. Fjárfestingar í flugfélögum virðast einhvern veginn sambærilegar við fjölmiðlarekstur. Þannig hafa margir áhuga á því að setja peninga í fjölmiðlarekstur án þess að vænta ávöxtunar.

AUGLÝSING


Önnur fræg ummæli Warren Buffet eru þau að áhætta sé afleiðing þess að fjárfestar viti ekki hvað þeir séu að gera. Hafi ekki þekkingu á þeirri starfsemi sem þeir eru að fjárfesta í. Því má segja að áhættustýring sé lykilatriði númer eitt er kemur að rekstri alþjóðlegra flugfélaga.

Helstu áhættuþættir hjá flugfélögum eru margs konar. Má þar fyrst nefna gjaldmiðlaáhættu. Flugfélög fá greitt í ýmsum gjaldmiðlum. Og þurfa á móti að greiða kostnað í mismunandi gjaldmiðlum. Flest stærri flugfélög kaupa sér gjaldmiðlavarnir gegn slíku. Annað hvort í formi valrétta (kaup- og sölurétta) eða framvirkra samninga.

Þekktasta áhætta flugfélaga er líklega olíuverðsáhætta. Gegn henni verja flest flugfélög sig líka. Í þessu samhengi má nefna að líklega eru mun færri að vinna í áhættustýringu og fjárstýringu hjá Wow air heldur en Icelandair. Því eru áhættuvarnir Icelandair líklega mun viðameiri og flóknari en hjá Wow air.

Önnur þekktasta áhætta flugfélaga er lausafjáráhætta sem Wow air fann vel fyrir í sumar og gerði félaginu erfitt fyrir í haust.

Annað er til dæmis kolefnisfótsporsáhætta. Eins og kunnugt er er sérstakt viðskiptakerfi með losunaheimildir innan Evrópusambandsins. Óvissa er með hver þróunin verður með það á komandi árum vegna vaxandi þrýstings um minnkun gróðurhúsalofttegunda.

Þá má nefna útlánaáhættu. Mörg flugfélög hafa reynt að dreyfa áhættu sinni með því að fjárfesta í fyrirtækjum í ferðaþjónustu eða flutningastarfsemi. Má þar nefna Icelandair sem hefur rekið ferðaskrifstofur undir nafninu Iceland Travel og Vita, flugflutningafyrirtæki undir nafninu Icelandair Cargo og hótel undir merkjum Icelandair Hotels. Ef Icelandair þarf nauðsynlega á lausafé að halda gæti það reynst þeim erfitt að vera með of mikið að fjármunum bundið í dótturfélögum. Icelandair hefur verið að reyna að selja hótelhluta sinn.

Frekari samrunar framundan

Hér verður ekki reynt að spá fyrir um hvernig flugfélögum muni ganga að aðlaga rekstur sinn að sífellt harðandi umhverfi á árinu 2019. Þar spila áhættuþættir inn í sem margir hverjir hafa þegar verið nefndir. Þó má að lokum nefna að yfirleitt vilja félögin alls ekki hækka miðaverð á sínum harða markaði. Þannig er helsta vandamál flugfélaganna í dag einmitt það að þau eru að lenda í vanda vegna lækkandi miðaverðs. Flugfélögin eru einfaldlega of mörg og því eru samrunar líklega af hinu góða.

Þá getur oft reynst erfitt að draga úr rekstarkostnaði. Sérstaklega hjá ríkisreknum félögum eins og SAS, Lufthansa, Air France, Alitalia og Finnair svo nokkur séu nefnd. Má hér einnig nefna að Icelandair hefur sem dæmi verið með allra hæsta launahlutfallið í samanburði við önnur alþjóðleg flugfélög. Þá hafa mörg lággjaldafélög getað ráðið starfsmenn sína sem verktaka og þá jafnvel í gegnum lönd með hagstætt skattaumhverfi. Við slíkt er erfitt að keppa við á þeim stöðum sem verkalýðsfélög standa sterk líkt og til dæmis á Íslandi.

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni