Föstudagur 13. september, 2024
2.8 C
Reykjavik

Fólskuverk á Flögu – Vanfær kona myrt um miðja nótt í Vatnsdal

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á bænum Kornsá, í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu, bjuggu árið 1766 hjónin Jón Þórarinsson og Gróa Jónsdóttir og áttu þau tvo syni. Á bænum var vinnukona að nafni Helga Símonardóttir og þegar eftirfarandi atburðir áttu sér stað, í júní, 1766, var Helga, þá hálffertug, vanfær eftir eldri son hjónanna, Jón yngri, sem þá var tvítugur.

Þannig var mál með vexti að upp úr miðjum júní hafði Jón eldri, bóndi á Kornsá, gripið til þess ráðs að koma Helgu fyrir á bænum Flögu, þar ekki langt frá, enda var vistin á Kornsá orðin Helgu lítt bærileg. Jón eldri og Gróa voru bæði helst til illa þokkuð í sveitinni og ekki fór mikið skárra orðspor af Jóni, syni þeirra, og segir sagan að Helga hafi verið orsök margvíslegra hótana og illra atlota af hálfu Gróu í garð bónda síns. Einnig hafi Jón yngri verið óspar á hótanir við Helgu. En allt um það. Helga fer sem sagt að Flögu til Jóns, bónda þar, Guðmundssonar, sem ekki hafði þó nema miðlungi gott orð á sér.

Skilaboð frá Jóni

Hugmyndin var að Helga skyldi dvelja á Flögu í um mánuð og fengi mat sér til viðurværis frá Kornsá. Það féll í hlut Gróu að koma með þessi matföng og fór þeim þá ekkert illt á milli, Gróu og Helgu, utan eitt skipti. Þá hafði Gróa fært Helgu linda sem hún vildi gefa barni Helgu þegar það fæddist, en Helga kærði sig ekki um lindann og skar hann í sundur. Í för með Gróu var yngri sonur hennar og náði hann tali af Helgu undir fjögur augu. Færði hann þá henni skilaboð frá Jóni yngri um að hann vildi hitta hana fyrir ofan bæinn, á hálsinum, þegar heimilisfólk hefði tekið á sig náðir. „Ekki er ég svo gangfrá, að ég geti það,“ var svar Helgu.

Sagðist óttast um líf sitt

Helga fór ekki leynt með umleitan Jóns og sagði heimilisfólki á Flögu frá skilaboðunum og bætti þá við að Jón ætti ekkert erindi annað við hana en að fyrirkoma henni. Hann myndi síðan fleygja líkinu í einhvern skurðinn eða jarðfall og dysja þannig að það fyndist aldrei. Gestkomandi á Flögu fengu svipað að heyra og sagði Helga að „blóð sitt myndi hrópa yfir honum og enginn taka eftir drápi sínu, nema ef séra Bjarni á Undirfelli gerir það.“

Blíðuhót á bæjarhlaðinu

Dag einn þurfti Jón á Flögu að bregða sér af bæ, átti þá erindi að Þingeyrum. Þá hafði Helga verið um vikuskeið á bænum og áður en hann reið úr hlaði bannaði hann Helgu að fara út úr húsi ef Jón yngri á Kornsá kæmi. Það var eins og við manninn mælt, að vart var Jón á Flögu úr augsýn þegar Jón yngri á Kornsá kom. Hann reið fyrir bæjardyr á Flögu og kallaði á Helgu að koma út, en hún stóð í bæjardyrunum.

Helga gaf ekki færi á sér fyrst í stað, en Jón yngri sagði að nú væri tíðin önnur en verið hefði; hvort hún kæmi ekki til hans og gæfi honum koss. Enn gaf Helga sig ekki og mælti: „Samur er kærleikurinn, þó við kyssumst ekki.“ Að lokum lét hún þó undan, gekk út á hlaðið og gaf Jóni koss. Þá klappaði Jón henni á herðarnar og reið á brott. Þegar Jón var farinn sagði Helga heimilisfólki að hann hefði verið „yfirburðagóður“ við hana og hann ætti ekki skilið allt það slæma sem fólk sagði um hann.

- Auglýsing -

Hvarf um nóttina

Jón á Flögu kom heim þegar eitthvað var liðið á kvöldið og einhverra hluta vegna bauðst Helga til að vaka yfir vellinum, þ.e. gæta þess að féð væri ekki á beit í túninu. Jón bóndi taldi það ónauðsynlegt en þegar Helga sótti það fast, þekktist hann boðið.

Næsta morgun var Helga horfin og upphófst mikil leit að henni. Um síðir fannst lík hennar í brekku á hálsinum fyrir ofan Flögu og þurfti enginn að fara í grafgötur um að hún hefði verið myrt. Fyrrnefndur séra Bjarni á Undirfelli lét skoða líkið tvisvar, en það var með band tvíbrugðið um hálsinn, var blátt og marið og bólgið. Margar stungur voru á líkinu og hafði skónál verið stungið í kviðinn.

Torfhleðsla um miðja nótt

Morðið var umsvifalaust eignað Jóni yngra á Kornsá og var sá grunur styrktur með framburði bróður hans, sem sagði Jón hafa farið á fætur þessa nótt til þess að hlaða torfi. Jón yngri meðgekk hins vegar ekki neitt nema „þungann, sem Helga gekk með“ og breytti engu hve gengið var á hann.

- Auglýsing -

Jón var þekktur fyrir ýmsa óknytti og hafði verið sakaður um að misþyrma og drepa búfénað granna sinna og fleygja skrokkunum í ár. Sagt var að hann hefði verið á barns aldri þegar hann hóf þá iðju. Einnig hafði hann verið sakaður um að drepa hryssu sem hafði sparkað í hund hans, en hann sór af sér þann verknað. Mörgum hafði hann hótað dauða ef þeir fjölyrtu um óþverraverknaði hans og einni stúlku í dalnum hótaði hann nauðgun, hvar sem hann fyndi hana fyrir.

Stuldur og galdrar

Jón yngri var einnig bendlaður við stuldi og var sagður hafa galdrakver undir höndum. Í kverinu því var kennt hvernig vinna skyldi hylli ríkismanna, stinga svefnþorn [ræna menn vöku], vinna ástir kvenna og finna þjófa. Kona ein sá ástæðu til að vara Jón við að daðra við galdur því „það væri grey og maktarlaust“. Jón sagði að hún myndi segja annað ef hann dræpi hana með því.

Ári síðar, í júní 1767, var Jón yngri Jónsson á Kornsá dæmdur til strýkingar og ævilangrar þrælkunarvinnu á Brimarhólmi. Hann játaði aldrei á sig verknaðinn.

Heimild: Öldin átjánda

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -