2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Gamli maðurinn og Ísland

„Ætlar tími gamla hvíta mannsins sem ráðandi afls í pólítík aldrei að taka enda?“ hugsaði ég og japlaði á kanilsnúð, horfandi á ríkissjónvarpið á internetinu hinum megin við Atlantshafið þegar ég sá að Jón Baldvin var orðinn aðal ráðgjafi þjóðarinnar í málum tengdum þriðja orkupakkanum.

Ég byrjaði á þessum pistli fyrir áramót, þá reyndar stödd á Íslandi. Fann fyrir pirringi vegna þeirra upplifunar minnar að þeir sem stýra ýmis konar óttablöndnum pólitískum áróðri á Íslandi eru gamlir – nota bene ekki einu sinni miðaldra – menn sem sinntu einhvers konar hlutverki er tengist íslenskri pólitík fyrir áratugum síðan. Þessi pistill var til dæmis skrifaður áður en Jón Baldvin fékk sinn tíma í Silfrinu um helgina, en aðallega vegna þess að fyrir nokkrum mánuðum hafði hann fengið drottningarviðtal í sama þætti um þriðja orkupakkann og fengið að fabúlera frjálst þar. Mikið var um fullyrðingar sem hann var ekki beðinn um að færa sönnur eða rök fyrir t.d. eins og að tala um einhver fjármálaöfl sem lægju á hurðinni til að komast inn á íslenskan orkumarkað. Það er auðvitað forvitnilegt að vita hvað er nákvæmlega verið að tala um og hvað nákvæmlega í pakkanum, efnislega, gæfi færi á þessu, umfram það sjálfstæði í orkumálum sem við höfum þegar í dag. Ef það er ekki hægt að sýna fram á það – er þetta óttaáróður.

Árið 2010 steig ég mín fyrstu skref á hinum pólitíska vettvangi.  Davíð Oddson var hættur að vera pólitískur leikandi með formlegum hætti nokkrum árum áður en endanlega með útgöngu úr Seðlabankanum. Honum beið þá rauður dregill í ritstjórnarstól Morgunblaðsins í stað Styrmis Gunnarssonar, en ritstjórnarstóll hefur býsna pólitískt yfirbragð. Þá var Björn Bjarnason einnig hættur formlegri pólitískri þátttöku. Á vinstri vængnum voru Jón Baldvin og Svavar Gestsson líka lönguhættir, þó aðeins með formlegum hætti. Engu að síður voru þessir menn allir áberandi í umræðunni. Níu árum seinna eru þessi nöfn það enn. Það vantar aðeins Ólaf Ragnar inn í þessa mynd og þá væri hringnum lokað.

Gamli maðurinn virðist loða við íslenska pólitík eins og mý við mykjuskán. Sennilega ekki sérstakt fyrirbrigði í íslenskri pólitík, eins og kæst skata og hákarl eru sérstök fyrirbrigði í íslenskri matseld t.d. hefur verið bent á að gamlir menn leiði umræðuna um Brexit að mestu þ.e. þeir sem vilja fara úr Evrópusambandinu.  Fyrir afnréttisríkið Ísland er hins vegar kominn tími á að þetta breytist. Mögulega telja þeir sínar skoðanir vera ómissandi og geta ekki eftirlátið næstu kynslóðum að taka við keflinu. En núverandi kynslóðir eru hoknar af þekkingu og hvet ég með þessu það fólk sem býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á tilteknum málum að gera sig gildandi í umræðunni.

AUGLÝSING


Það sem er merkilegt að flestir þessara manna voru samtíða í pólitík og eiga það sammerkt að vera fyrir löngu stignir út úr hringiðu stjórnmálanna. Ekki misskilja, það er ekki slæmt að fólk á besta aldri taki þátt í margs konar starfi, sitji jafnvel á þingi og virði sínar skoðanir en þetta virðist einkennandi fyrir íslenska pólitík og fjölmiðla. Líka að fá að fabúlera frjálst án nægilegs aðhalds. Þessir aðilar hafa alltof mikið dagskrárvald og of mikla hlustun. Haldið þið að Jón Baldvin eða gamli maðurinn í Valhöll búi yfir mestu efnislegu þekkingunni á hvað felist raunverulega í þriðja orkupakkanum? Þá hefur maður á tilfinningunni að gamli maðurinn ráði býsna miklu bak við tjöldin, þó höfundur átti sig ekki á því hvort það séu getgátur eður ei. Því hefur oft verið fleytt að Steingrímur J. og Svavar Gestsson séu t.d. hugmyndasmiðir nýrrar ríkistjórnar. Það kann að vera en á sama tíma gera slíkar getgátur lítið úr formanni Vinstri Grænna, sem er jú fremur ung kona en reynslumikil.

Að sama skapi virðist gamla konan ekki vera eins fyrirferðarmikil, hvar eru þær? Lögmálið virðist að mestu eiga við um karlmenn þegar horft er yfir pólitíska landslagið. Er það testósterón sem veldur því að það er svona erfitt að stimpla sig út og sleppa tökunum? Er egóið einfaldlega sterkara í karlmönnum eða viljinn til að halda í mikilvægi sitt? Sjálfsmyndina sem mörkuð af því að þeir hafi tilgang og vettvang.

Á Íslandi er valið fólk í hverju rúmi, stútfullt af þekkingu og visku, sem treystir sér til að taka þetta keflið og leiða umræðuna. Gamli maðurinn þarf að minnsta kosti að fara varlega í fullyrðingargleðinni og átta sig á eigin takmörkunum, eins og við öll á tímum internets. Sér í lagi þar sem það sem þeir segja fær meira pláss í fjölmiðlum og spjallþráðum hvers konar.

Mynd / Skjáskot af RÚV

Lestu meira

Annað áhugavert efni