2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Heimskur er hauslaus maður

Síðast en ekki síst

Eftir / Óttarr Proppé

Við fordæmalausar aðstæður er að mörgu að gá. Á fordæmalausum tímum verða venjulegustu fyrirbæri furðuleg. Nú upplifum við allt í gegnum möskva veirunnar. Tilveran er veiruð. Það mætti segja að við lifum útúrveiraða tíma. Það er alvarlegt. En látum alvarleikann ekki heltaka okkur.

Á gaggóárunum veltum við vinirnir okkur upp úr bókum. Við sperrtum okkur og stældumst með skrúðmælgi og þóttumst betri í íslensku en var innistæða fyrir. Okkur þótti fínt að slá um okkur með tilvitnunum og sjaldheyrðum málsháttum.

AUGLÝSING


Úr þessu varð stundum ruglingur en vandræðagangurinn vék fyrir ósjálfráðu flissi. Stundum urðu til ógleymanlegar bommertur sem enn er vitnað til. Flest er gleymt en sumt lifir. „Heimskur er hauslaus maður“ varð samstundis ódauðlegur málsháttur þegar einn félaginn henti honum hróðugur fram. Þessi málsháttur hljómar gáfulegur í agnarstutt andartak, en jafnharðan svo dæmalaust vitlaus, þegar hann nær alla leið inn í heila.

Samt er þetta dagsatt. Sennilega er enginn maður heimskari en sá hauslausi. Það er að minnsta kosti ekki mikið vit í kollinum á honum enda veit hann yfirhöfuð ekki neitt.

Svona vitleysu er gaman að spá í. Sérstaklega í samkomubanni þegar við finnum hvers við söknum sárast. Þau okkar sem erum frísk upplifum strax hvað er erfitt að fara á mis við samneyti við aðra. Maður er manns gaman og ber er hver að baki, nema sér bróður eigi. Söknuður, hlýhugur, snökt.

En nú er tími til að leggja á ráðin um hvað við gerum þegar sóttin dvínar. Við skulum skipuleggja samverustundir og samkomufár með vinum og vandamönnum. Því það er það sem skiptir máli. Það er aukaatriði hvort kom á undan, appelsínan eða hænan. Það gildir einu hvort einhver rugli saman eggjum og eplum. Fólk er best. Skemmtilegt er betra en leiðinlegt og ást er allt sem þarf. Verum ekki hauslaus. Verum góð.

Viltu birta pistil á mannlif.is? Sendu okkur línu. > 

Lestu meira

Annað áhugavert efni