Föstudagur 19. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Æi, hættu þessu væli og farðu í aðhald

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eins og sönnum Íslendingi sæmir sat ég í bílnum mínum á leið til vinnu einn haustmorguninn og hlustaði á viðtal við fjármálaráðherra þar sem ræddar voru skattahækkanir, auknar álögur og aukin gjöld. Hausinn var varla vaknaður og ég sleikti tannkremslínuna úr munnvikinu. Minnkaður stuðningur við orkuskiptin – Já, bömmer.

Ráðherra var spurður hvers vegna ekki væru lagðir frekari skattar á bankakerfið og á þá sem ættu peningana. „Nákvæmlega,“ tautaði ég þegar ég tók snarpa hægri beygju út á Miklubraut.

„Helvíti samt þessi verðbólga,“ hugsaði ég á rauðu gangbrautarljósi og hlustaði á fjármálamálaráðherra réttlæta hækkanir á áfengi og tóbak. Miklabrautin var stöppuð. „Takk fyrir ekkert, Bjarni,“ var gagnrýnin sem hann hafði fengið á sig. 80 króna hækkun á rauðvínsflöskuna. „Er fólk í alvörunni að væla yfir þessu?“ hugsaði ég með mér. Ég held að rúsínupoki hafi hækkað meira en rauðvínsflaska. „Ég skil þig,“ sagði ég upphátt og talaði beint til ráðherrans í gegnum útvarpstækið. Mér leið strax eins og hausinn væri kominn með aðeins meiri meðvitund.

Viðtalið hélt áfram og fjármálaráðherra var spurður út í auknar álögur á frönskum kartöflunum. Þá fór hjartað að dæla óheilbrigðu magni af blóði út í kerfið og losaði örugglega um einhvern kransæðatappa sem var farinn að myndast. Erum við í alvöru að ræða álögur á franskar kartöflur á príma-tíma?

Nú má vera að mörg ykkar hafi litað mig sem kóngabláa forréttindaskjátu sem nýtir tíma sinn í að skrifa pistla og verja Engeyinginn –því fer fjarri. Ef við skoðum þær hækkanir sem hafa verið hvað mest ræddar að þá erum við í öllum tilvikum að ræða munaðarvörur – Já, það er ofsa gott að geta átt rafmagnsbíl en við þurfum hann ekki. – Já, okkur finnst gaman að skála eða „slaka á“ í vikulok og sprengja einn. – Já, okkur finnast fröllur góðar, en við þurfum þær ekki. Ekkert af þessu er lífsnauðsynlegt.

Ég er þakklát fyrir að búa í landi þar sem lífsnauðsynlegu hlutirnir eru ekki að fara að hnésetja mig. Vatn, rafmagn og hiti eru ekki að fara að tæta upp launatjékkann eins og víða í Evrópu. Það eru ekki mannréttindi að eiga bíl og þaðan að síður rafmagnsbíl. Og þó að fröllur séu geggjað góðar makaðar í mæjónesi að þá væri það kannski bara hjartansmál, og magarúllum til bóta að sleppa þeim – svo ekki sé talað um áfengið.

- Auglýsing -

Verðbólga eins og sú sem nú geysar er ekkert flókin: Við þurfum að draga úr einkaneyslu. Verðbólga er tímabundið ástand svolítið eins og tískan. Og við Íslendingar erum örugglega heimsmeistarar í hjarðhegðun. Getum við þá ekki sameinast um að elta þessa nýju tísku; en hún snýst um að draga saman seglin og hægja sem fyrst á þenslunni. Við komumst ekki framhjá hækkunum á húsnæðisliðnum, við sitjum öll í þeirri súpu en geymum það að endurnýja bílinn og reynum eftir fremsta megni að saxa á skuldirnar fremur en að auka þær. Aðhaldstískan er byrjuð og komdu í keppni að lifa sparsamar en nágranninn þinn.

Já, og bara skál … í ískalt vatnsglas.

Hér getur þú lesið nýtt tölublað Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -