Fimmtudagur 25. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Hundarnir á Steindórsstöðum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég hef alla mína tíð átt hund eða hunda. Samleiðin með þessum dýrum hefur gefið meira en margt í samskiptum við annað fólk. Hundurinn er gjarnan trölltryggur húsbændum sínum og sannur félagi í leik og starfi. Þannig er það með hann Tinna, félaga minn, sem hefur fylgt mér alla sína hundstíð. Ég hef þá reglu að sína honum virðingu í að reyna að gera líf hans sem bærilegast.

Það hafa orðið uppákomur í tengslum við hundinn, þar sem ég hef þurft að takast á við mannskepnur um réttindi hans. Eitt sinn flúði ég undan ofviðri inn á ónefnt hótel á Ströndum og óskaði eftir gistingu, gegn gjaldi. Jú, það var sjálfsagt. Þá impraði ég á því að hundurinn væri með í för og hvort hann mætti ekki örugglega vera með mér. Hótelhaldarinn sagði þá að það mætti ekki. „Ofnæmið, skilurðu“. Við vorum í matsal hótelsins og tveir hundar voru þar á ferli innan um gesti, líklega í von um að fá matarbita. Ég benti hótelstjóranum á þá þversögn. Svarið kom hiklaust. „Þetta eru heimahundarnir“. Minn hundur svaf í bílnum þessa nótt og ég hef alltaf séð eftir því að kaupa gistingu á þessum stað og svíkja hundana.

Í sumar kom upp enn furðulegra mál þar sem hundurinn Tinni var enn og aftur miðpunkturinn. Við vorum á ferð um Borgarfjörð og fengum þá hugmynd að gista á Steindórsstöðum, í grennd við æskuheimili mitt á Búrfelli. Booking sá ekkert því til fyrirstöðu að við fengjum herbergi. Við ákváðum samt að heyra í staðarhaldara og spyrja hvort ekki væri í lagi að hafa hund með í gistingunni. Guðfinna nokkur varð fyrir svörum. Hún þvertók fyrir það og sagði bannað að vera með hund inni á heimilinu. Skýrar reglur. Við skildum það. En svo kom upp sú hugsun að svíkja Tinna í annað sinn um inniveru.

Ó, Guðfinna

Við sögðum að við gætum haft hundinn í bílnum. En Guðfinna var snögg upp á lagið og sagði útilokað að við fengjum gistingu. Það snerist um að við værum hundaeigendur. Ekki er ofsagt að við urðum forviða. Var okkur slaufað fyrir að vera með hund í bifreið á hlaði gistiheimilisins? Guðfinna virtist dálítið pirruð, en útskýrði svo málið. Hún sagðist vera með hunda sjálf og þeir ættu það til að rispa bíla þar sem hundar væru innanborðs. Það kom ekki til greina að hýsa okkur. Við mölduðum í móinn og vildum skýringu á fordómunum gegn hundaeigendum. Guðfinna brást pirruð við. Hún sagðist ekkert þurfa á okkur að halda. Aðsóknin væri svo góð.

Það var ákveðinn léttir að aka burt úr Hálsasveit eftir að hafa verið hársbreidd frá því að svíkja Tinna öðru sinni. Úr hljómtækjum bifreiðarinnar ómuðu raddir Halla og Ladda: Ó, Guðfinna, þig að finna. Ég hét því að leiða aldrei aftur hugann að því svíkja Tinna. Um nóttina gistum við hjá Steinari í Fossatúni. Við sofnuðum við niðinn í fossunum. Tinni var velkominn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -