2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Hvar eru fjármunir Ofanflóðasjóðs?

Snjóflóðin sem féllu á Flateyri og Suðureyri á þriðjudagskvöldið höfðu djúp áhrif á alla þjóðina og á andartaki var okkur kippt aftur til ársins 1995 og hinna hræðilegu daga þegar snjóflóðin á Flateyri og Súðavík kostuðu fjölda mannslífa. Í þetta sinn varð ekki manntjón, sem betur fer, en gríðarlegt tjón engu að síður og það blandast engum hugur um hvernig farið hefði ef varnargarðarnir sem reistir voru eftir harmleikinn 1995 hefðu ekki verið til staðar. Þá hugsun getur enginn hugsað til enda.

Það skýtur því óneitanlega skökku við þegar fram kemur í umfjöllun um hamfarirnar að aðeins lítið brot af þeim peningum sem húseigendur greiða í formi skatts sem nýta á til ofanflóðavarna skuli skila sér í uppbyggingu slíkra varna. Og enn óhuggulegri verður sú staðreynd þegar í ljós kemur að Halldór Halldórsson, sem á sæti í ofanflóðanefnd, hefur árum saman reynt að fá stjórnmálamenn til að gera bragarbót í þessum efnum en talað fyrir daufum eyrum alþingismanna.

„Það er óásættanlegt að skattur, sem húseigendur eflaust greiða með glöðu geði í þeirri trú að þeir séu að tryggja að harmleikir á borð við afleiðingar snjóflóðanna 1995 endurtaki sig ekki, sé nýttur í eitthvað allt annað á fölskum forsendum. Það heita einfaldlega svik.“

„Þessi uppbygging gengur alltof hægt því Alþingi dregur lappirnar. Ég hef verið í sambandi við þingmenn vegna málsins en það virðist hafa lítil áhrif,“ segir Halldór í viðtali við Fréttablaðið og bendir á að aðeins einn þriðji af þeim fjármunum sem skila sér í Ofanflóðasjóð á ári hverju er nýttur til uppbyggingar ofanflóðavarna. Hvað verður um afganginn er ekki ljóst og enginn stjórnmálamaður hefur gefið skýringu á þessu undarlega háttalagi. Það er ansi merkingarlaust að senda góðar kveðjur og gefa yfirlýsingar í þá átt að við séum öll Vestfirðingar á degi eins og þessum þegar við blasir sú staðreynd að þrátt fyrir lagasetningu og skatt sem tryggja á uppbyggingu varna draga þingmenn lappirnar og virðast, að sögn Halldórs, hafa sáralítinn áhuga á að framfylgja stefnunni sem mörkuð var eftir hamfarirnar 1995.

Átta þéttbýliskjarnar sem skilgreindir eru á hættusvæði eru enn óvarðir fyrir ofanflóðum þrátt fyrir að stefnan hafi verið að ljúka uppbyggingu varna fyrir alla þá staði árið 2010. Það var fyrir tíu árum, hvorki meira né minna. Og sú spurning hvað hafi orðið um þá fjármuni sem ofanflóðasjóður átti að fá á þessum tíu árum verður áleitin. Í hvað hafa þeir verið nýttir? Hver ber ábyrgð á þessari slaklegu framkvæmd stefnunnar og hvers vegna hafa stjórnmálamenn ekki áhuga á þessum framkvæmdum? Þeim spurningum þarf að fá svör við. Það er óásættanlegt að skattur, sem húseigendur eflaust greiða með glöðu geði í þeirri trú að þeir séu að tryggja að harmleikir á borð við afleiðingar snjóflóðanna 1995 endurtaki sig ekki, sé nýttur í eitthvað allt annað á fölskum forsendum. Það heita einfaldlega svik.

AUGLÝSING


Við hljótum að krefjast þess að hér verði bætt úr, því eins og Halldór segir í fyrrnefndu viðtali í Fréttablaðinu: „Við sem þjóð munum aldrei fyrirgefa okkur það ef líf tapast vegna hamfara á skilgreindum hættusvæðum.“ Við hljótum öll að taka undir það og krefjast úrbóta.

 

 

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni