2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Hvernig væri að hlusta og hlýða?

Kórónaveirufaraldurinn sem veldur sjúkdómnum Covid-19 hefur verið aðalumræðuefni heimsbyggðarinnar undanfarnar vikur. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, hefur lýst því yfir að faraldurinn sé nú orðinn heimsfaraldur og flestar þjóðir heims hafa gripið til alls kyns ráðstafana til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. Íslendingar eru þar engir eftirbátar, nema síður sé, og íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa staðið sig fádæma vel í miðlun upplýsinga og ráðlegginga til almennings. En þá bregður svo við að nánast hvert mannsbarn í landinu geysist fram á Internetvöllinn og telur sig vita betur en sérfræðingarnir. Einu sinni enn.

Skoðanir Internetspekinganna skiptast nokkuð í tvö horn. Annars vegar eru þeir sem telja aðgerðir heilbrigðisyfirvalda ekki ganga nógu langt, heimta samkomubann og innilokun, fangelsisvist og refsingar fyrir þá sem ekki hlíta fyrirmælum. Hins vegar er svo stór hópur dæmigerðra Íslendinga sem lifir samkvæmt slagorðinu „Ég að öllum háska hlæ“ og telur sig ekki þurfa að hlíta neinum fyrirmælum. Þeir koma sér undan sóttkví og gorta af því, hlæja að þeim sem nota handspritt og hanska við grænmetisborðið í Hagkaup, berja sér á brjóst og segjast sko ekki vera hræddir við þessa veiru og detti ekki í hug að láta hana stjórna lífi sínu. Blessaðir víkingarnir.

Það er vandséð hvor hópurinn er hættulegri á þessum viðsjárverðu tímum en ljóst að báðir valda þeir ómældum skaða, skapa enn meiri ringulreið og grafa undan trausti á sérfræðingunum sem ólíkt þeim vita um hvað þeir eru að tala. Þeir sem hæst hrópa um slæleg vinnubrögð og að það þurfi hertar aðgerðir til að takast á við veiruna skapa ótta og kvíða hjá öðrum. Fólk trúir gjarnan þeim sem hæst gala og áður en varir er komin af stað múgæsing sem gerir lítið úr því góða starfi og faglegu yfirvegun sem heilbrigðisyfirvöld sýna í þessu máli. Það er ekki bara heimskulegt heldur hættulegt í þeim aðstæðum sem við búum við þessar vikurnar og óskandi að fólk tæki sér tíma til að hugsa áður en ætt er af stað með yfirlýsingar og upphrópanir.

„Það er vandséð hvor hópurinn er hættulegri á þessum viðsjárverðu tímum en ljóst að báðir valda þeir ómældum skaða, skapa enn meiri ringulreið og grafa undan trausti á sérfræðingunum sem ólíkt þeim vita um hvað þeir eru að tala.“

Þeir „óhræddu“ eru þó kannski enn hættulegri. Það að hunsa ráðleggingar, gera lítið úr vandanum og fylgja mottóinu „Það segir enginn mér fyrir verkum“ er algjörlega út í hött í þessari stöðu. Ungt fólk og hraust þarf kannski ekki að óttast dauða af völdum veirunnar en þeir sem ekki viðhafa þær varúðarráðstafanir sem mælt er með eru ekki einir í heiminum. Þeir umgangast fjölda fólks, fara í flugvélar og strætó og gætu þess vegna smitað einhvern sem veikari er fyrir, jafnvel valdið dauða hans. Er það virkilega eitthvað sem fólk vill hafa á samviskunni vegna þess að það er svo sterkt og sjálfstætt og miklir víkingar? Þetta er bara rugl. Hættum þessu nú. Stöndum saman. Gerum það sem þeir sem best vita segja okkur að gera og sýnum, einu sinni, til tilbreytingar, að við séum ábyrgir einstaklingar sem hlíta þeim reglum sem settar eru. Allt annað er fullkomið ábyrgðarleysi.

AUGLÝSING


 

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni