Sunnudagur 27. nóvember, 2022
2.8 C
Reykjavik

Kæri offitusjúklingur: Ísbíllinn kemur alltaf aftur

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Stærsta heilbrigðisvandamál Íslendinga á sér rætur í sykuráti sem fer vaxandi árlega. Sykurinn er eitur sem læðir sér hægt og hljótt í ótal vörur og veldur gríðarlegu tjóni. Sykur og annað sem  tengist óhófi í mat drepur fleiri en kórónaveiran sem nú er mál málanna.  Ekki verður á móti því mælt að Íslendingar eru feit þjóð. Mörg okkar eru í ævilangri glímu við offitu. Þeir sem opna augun sjá að offitan hefur komið sér rækilega fyrir hjá yngri kynslóðunum. Stór hluti þjóðarinnar burðast með þyngd sem hann ætti alls ekki að þurfa að bera. Þessi þróun hefur orðið á örfáum áratugum.

Afleiðingar af óhóflegri neyslu eru ekki aðeins yfirþyngd og fætur sem kikna undan farginu. Ofátið og sykurinn leiða til ótímabærs dauða fjölda fólks. Sjúkdómar tengdir hjarta og æðum eiga sér beinlínis rót í þessu fíkniefni sem þó er ekki skilgreint sem slíkt. Þunglyndi feita mannsins er þekkt fyrirbæri. Fólk sem er afmyndað í útliti tekur út þjáningu vegna þess að margir hafa fordóma og fyrirlíta hina feitu. Það þykir skammarlegt að vera of þungur. Samfélagið viðurkennir ekki að það er fíkn sem ræður því að fólk úðar í sig sykri og annarri óhollustu. Auðvitað eigum við ekki að gefa offitusjúklingum hornauga. Þvert á móti eigum við að hlúa að þeim og leita leiða til að bjarga þeim frá sjálfum sér og fíkninni sem situr fyrir fólki allstaðar. Samfélagið þarf að gera sáttmála um leiðir til að bjarga þjóð úr heljargreipum offitu.

Sumir geta varla gengið

Útlit hins feita er minnsta málið í heildarsamhenginu. Stærsta vandamálið er að fólk á erfitt með hreyfingu og kemur sér upp sjúkdómum snemma á lífsleiðinni. Sjúkdómarnir eru ekki aðeins líkamlegs eðlis. Andlega hliðin er gjarnan í molum. Fólk getur ekki hlaupið eða stundað íþróttir með boðlegum árangri. Sumir geta varla gengið. Getuleysið þarf engan að undra ef litið er til yfirþyngdarinnar. Tvíburasysturnar eru þrítugar. önnur er 60 kíló og í kjörþyngd. Hin er 90 kíló sem þýðir að hún burðast dag og nótt með 10 ára barn á bakinu. Ímyndið ykkur að á gönguleiðinni upp Esjuna sé þrítug kona með krakka á bakinu. Hún mun þurfa að hvíla sig oft á leiðinni og gefst að líkindum upp. Ýktara dæmi er 150 kílóa þungur maður sem er í þeim skilningi með konu í meðalþyngd á bakinu. Þetta er veruleiki hins feita og til skamms tíma hans stærsta vandamál. Til lengri tíma felur ástandið oft í sér dauðadóm.

Hugurinn sljór og líkaminn linur.

Það er til lausn. Sem þaulreyndur offitusjúklingur get ég bent á leiðirnar. Fyrst þarf fólk að gera sér grein fyrir því að tvennt þarf að koma til bjargar. Fólk þarf að innbyrða minna magn og rétta fæðu. Þá þarf það að auka hreyfingu. Ég hef stundum rifjað upp að fyrsta gangan mín upp Úlfarsfell tók þrjár klukkustundir. Þá var ég 140 kíló og með aukabyrði sem nam konu í meðalþyngd. Ég náði að breyta mataræðinu og léttist hratt og örugglega. Ári eftir fyrstu ferðina náði ég að fara upp fjallið á 17 mínútum. Nú er ferðirnar upp fjallið orðnar 1150. Þessi árátta bjargaði lífshamingju og hugsanlega lífi mínu. En þetta er ekkert einfalt. Fitan kemur og fitan fer. Sykurdjöfullinn kemur alltaf aftur og birtist þá síst skyldi. Bjölluhljómurinn í ísbílnum felur í sér freistingu. Sykraðar mjólkurvörur, súkkulaðihúðaðar kleinur, kex með súkkulaði, sykurpúðar, feitmeti, flís af feitum sauðið. Freistingar eru á hverju strái í formi fitu og sykurs. Varðstaðan gegn þessari vá þarf að  vera stöðug. Sjálfur er ég sykurfíkill og þarf stöðugt að vera á varðbergi. Það  hjálpar mér að hugsa til þess að  þegar konfektkassinn er tæmdur ligg ég afvelta í sykursjokki. Hugurinn sljór og líkaminn linur.

Þegar eru farin sex kíló

Undanfarna 70 daga hef ég tekið út mestallan sykur og nánast allt hveiti. Undantekningar hafa verið leyfðar tvo daga í mánuði. Í september nýtti ég einn dag og í október einn dag. Ég tel  mig vera afeitraðan þar sem sykurþörfin er nú hverfandi. Í eldhússkúffunni minni er pakki af Homeblest, þessu með ljósa súkkulaðinu, sem ég snerti ekki með töngum. Mér er sama um kexið þar sem ég naga gulrótina mína. Þessi mánuður mun líða með því að sleppa sykrinum og hveitinu. Þegar eru farin sex kíló og fyrir jól fara fleiri. Meðfram þessu tek ég þrjár fjallgöngur í viku og reyni að hjóla þegar færi gefst. En ég veit að ísbíllinn kemur alltaf aftur.

Kæri offitusjúklingur. Þín leið er einmitt þarna. Byrjaðu rólega. Taktu út sykurinn en leyfðu þér þó undantekningar sem verða þó að vera fyrirfram ákveðnar. Skyndiákvarðanir eru harðbannaðar. Taktu út kvalirnar sem fylgja sykurbanninu og þú munt uppskera. Settu þér markmið um hreyfingu. Ferðafélag Íslands býður upp á hreyfingu fyrir alla aldurshópa og auðvelt er að finna hreyfingu við hæfi hvers og eins. Og það eru fjölmargir aðrir hreyfihópar, sumir ókeypis. Kosturinn við að borga fyrir aðild að hreyfihópi er að þú hættir síður við. Brottfall úr gönguhópum er gjarnan á bilinu 10 til 20 prósent. Ef þú heldur út námskeið og breytt mataræði muntu standa á toppi Hvannadalshnúks áður en þú veist af. Og þú munt uppgötva þann létti sem felst í því að þurfa ekki að vera með ígildi annars einstaklings á bakinu, hvert sem þú ferð. Frelsið og lífshamingjan er handan við martröðina.

- Auglýsing -

Fyrirvari: Höfundur starfar að hluta sem fararstjóri og skálavörður hjá Ferðafélagi Íslands. 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -