2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Karlmenn þurfa líka að hafa hátt

„Karlmenn mega margt en það er samt mjög þröngt skilgreint hvað þeir mega.“ Þetta segir Alexander Björn Gunnarsson, annar viðmælenda í áhugaverðu forsíðuviðtali Mannlífs í dag. Hinn, Davíð Illugi Hjörleifsson Figved, bætir við að karlmenn hafi verið aldir upp svo lengi við það að þeir megi ekki opna sig og tala um tilfinningar að þeir eigi erfitt með það. Hvorugur dregur dul á að stöðluðum kynhlutverkum sé um að kenna; þröngt skilgreindum hugmyndum samfélagsins um hvernig kynin eigi að vera.

Skoðanir Alexanders og Davíðs eru í takt við málflutning þeirra karla sem hafa stigið fram undanfarið og rætt opinskátt á samfélagsmiðlum um skaðsamar hliðar karlmennskunnar, undir myllumerkinu #karlmennskan. Málflutningur sem er hluti af átaki sem karlar hrintu af stað fyrr á árinu til að varpa ljósi á skaðlegar staðalímyndir sem eru margar hverjar samofnar hugmyndum um karlmennsku. Staðalímyndir sem eru meðal annars sagðar geta valdið því að karlar eigi erfitt með að tjá tilfinningar sínar, af því þeir þora ekki að vera þeir sjálfir, að þeir glíma við sálræna kvilla á borð við kvíða, þunglyndi og sjálfsmorðshugsanir og eiga meiri hættu á að misnota ávanabindandi efni. Svo ekki sé talað um þá ofbeldisfullu hegðun sem slíkar staðalímyndir eru sagðar ala á.

Þessi samfélagsbylting hefur reyndar ekki flogið jafnhátt og #metoo-byltingin, þar sem fjöldi kvenna hefur stigið fram og greint opinberlega frá kynferðislegu áreiti og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir, meðal annars vegna þess að margir karlar eru beinlínis feimnir við að taka þátt í byltingunni, eins og forsprakki hennar Þorsteinn V. Einarsson hefur bent á í viðtölum. Mögulega af ótta við gagnrýni, ekki síst annarra karla og mögulega af því að þeir hafa hreinlega ekki sömu áratugalöngu reynslu og konur af því að berjast gegn kynjuðum staðalímyndum. Karlar eru einfaldlega eftirbátar kvenna hvað það varðar.

Á samfélagsmiðlum hafa sumir gagnrýnt þessa byltingu einmitt fyrir þær sakir. Þeir hafa lýst yfir vonbrigðum með að fleiri karlar skuli ekki hafa tekið þátt og virðast þannig missa sjónar af aðalatriðinu sem er sú staðreynd að hér er að stíga fram á sjónarsviðið ný kynslóð karla sem kærir sig ekki um að gangast inn á fyrri hugmyndir um karlmennsku. Sem kærir sig ekki um að viðhalda slíkum hugmyndum. Sem er reiðubúin að bjóða þeim byrginn. Meðal annars vegna þeirra skaðlegu áhrifa sem þær hafa, ekki bara á þá sjálfa heldur samfélagið allt.

Einblínum frekar á þá staðreynd að hér er að verða vitundarvakning meðal karla um þessi mál í stað þess að festast í smáatriðum og höldum umræðunni gangandi. Eða eins og Davíð Illugi orðar það í fyrrnefndu viðtali: „Þegar svona byltingar fæðast þá verður fólk háværara og fólk meðtekur eitthvað smávegis af því sem byltingarsinnarnir segja. Svo kemur önnur barátta og fólk meðtekur örlítið meira og svo framvegis. En þá má ekki hætta. Við verðum að vera hávær.“ Og Alexander segir: „ … þessar bylgjur, eins og #metoo, mega ekki deyja. Við þurfum að halda áfram að ýta undir þær og ekki leyfa þeim að deyja út.“

AUGLÝSING


Skiptir það ekki mestu máli?

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni