Laugardagur 9. nóvember, 2024
10.5 C
Reykjavik

Katrín og auðrónarnir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Smám saman hefur hallað á verri veginn með ríkisstjórnina. Óeining hefur brotist upp á yfirborðið. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn gátu unað vel saman á meðan Covid yfirskyggði allt samfélagið. Nú er að koma á daginn að samleiðin byggist á eftirgjöf Vinstri grænna í þeirra veigamiklum málum. Flokkurinn er nánast orðin hækja Sjálfstæðisflokksins og ráfar stefnulaust inn í framtíð sem getur ekki falið í sér annað en örbirgð eða endalok. 

Salan á bréfunum í Íslandsbanka var á ábyrgð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem, meðvitað eða ómeðvitað, tryggði föður sínum skerf af þeirri köku. Útboðið var þannig að einungis útvaldir fengu að taka þátt. Þetta blasir við, sama hvernig menn reyna að snúa út úr þeim málum. Í besta falli siðlaust. 

Fjármálaráðherra ber stærsta ábyrgð á sölunni. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra axlaði svo ábyrgð með því að kvitta upp á gjörninginn og gera þannig flokk sinn meðsekan. Vinstri græn, sem hafa gefið sig út fyrir að vera samviska þjóðarinnar, eru komin á kaf í sukkið með einhverjum verstu auðrónum Íslands. 

Þjóðin treysti því lengst af að VG stæði vörð um íslenska náttúru og hag fátækra og þeirra sem lítið eiga aflögu. Ekkert af þessu stenst lengur. Flokkurinn stendur að undarlegum og fráleitum ákvörðunum um að aflétta friðun svæða á þar sem Héraðsvötn skarta sínu fegursta. Aðeins einn þingmaður flokksins andmælti þeirri breytingu. Flokkurinn stendur ekki lengur í lappirnar gegn stóriðju eða skemmdum á náttúru Íslands. Flokkurinn stendur varla fyrir neitt annað en það að hanga á völdum með flokki sem er í senn óalandi og óferjandi. Nýjustu fylgistölur benda til þess að hann sé kominn niður í 7 prósenta fylgi. Fyrir því er aðeins ein ástæða; dauðadansinn við Sjálfstæðisflokkinn. 

Heiðarlegt fólk flýr flokkinn unnvörpum

Rétt eins og VG hefur grafið hugsjónir sínar í haug valdafíknar þá er Sjálfstæðisflokkurinn sama marki brenndur. Flokkurinn hefur verið að visna og dragast saman í formannstíð Bjarna Benediktssonar. Hann siglir undir fölsku flaggi, flokkurinn þykist vera málsvari frelsis og einkaframtaks en er í raun fyrirgreiðsluflokkur með gæðinga sína á beit í aldingarði þjóðar. Ekkert fer fyrir aðhaldi flokksins í ríkisfjármálum eða ráðdeild hans. Flokkurinn er upptekinn af því að raða sínu fólki á ríkisjötuna og gætir þess að hlunnindin fari til innmúraðra félaga. Núverandi stjórn flokksins gerir ekkert með frelsi eða aðrar hugsjónir. Afleiðingin af falsinu blasir við. Heiðarlegt fólk flýr flokkinn unnvörpum og eftir sitja hinir spilltu og halda áfram að stela forboðnum ávöxtum. 

Katrín Jakobsdóttir á ekki marga kosti í stöðunni. Hún getur haldið áfram að fljóta að feigðarósi ásamt spillingarkólfum hægrisins og endað sem formaðurinn sem skipti út hugsjónum fyrir völd. En hún getur líka stöðvað það ferli með því því að slíta núverandi samstarfi og henda Sjálfstæðisflokknum út í von um að mynda fjögurra flokka stjórn með því að kippa Samfylkingu, Pírötum eða Flokki fólksins um borð ásamt Framsóknarflokki. Þá fengjum við ríkisstjórn sem veitt getur nauðsynlegt aðhald. Jafnframt fengi Sjálfstæðisflokkurinn tækifæri til að stokka upp spilin og hverfa frá frændhygli og spillingu. Breytingar eru nauðsynlegar í samfélaginu. Stjórnmálamenn þurfa að standa við yfirlýsta stefnu sína.  

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -