• Orðrómur

Kindarlegur á Tinder: „Gleymi aldrei hryllingssvipnum á manninnum“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Um helgina síðastliðan hræddi ég mann nokkurn upp úr skónum. Í Hagkaup af öllum stöðum. Hann tók hreinlega stökk yfir búðina. Við erum að tala um ólympískan hraða. Ástæðan? Stefnumótaforritið og samfélagsundrið Tinder.

Aumingja maðurinn var augljóslega svo sjokkeraður yfir að hafa rekist á mig að ég er allt að því með áhyggjur af honum. Ég vona innilega að hann sé búinn að jafna sig.

Ævintýri miðaldra kvenna á Tinder

- Auglýsing -

Í febrúar síðastliðnum skráði ég pistil um vægast sagt misjafna reynslu mína af stefnumótaappinu Tinder. Sá pistill fór upp og ofan í lesendur og kommentakerfið á Facebook fór á kostum. Man til dæmis eftir reiða manninum sem sagði mig líta út eins og önd. Og ljóta önd í þokkabót. Sjálf þekki ég ekki mun á fríðum og ófríðum öndum. Tæpum fimm mánuðum og einhverjum hundruðum greina seinna virðist þessi blessaði Tinder pistill sitja hvað fastast í fólki þegar til tals kemur starf mitt við skriftir.

Ég á afmæli í næstu viku. Stórt afmæli sem endar á núlli. Mamma sáluga kenndi mér alltaf að engum kæmi við hvað dömur væru gamlar og held ég sem fastast í þann lærdóm. Fyrir ríflega viku mönuðu vinkonur mínar í að enduropna aðganginn að Tinder í tilefni tímamótanna. Þá voru liðnir sjö mánuðir frá því að ég eyddi aðgangnum og svarið við guð og menn að fara aldrei út í þessa vitleysu aftur. Var alvarlega að íhuga að fjölga köttum heimilisins og verða skrýtna kattakonan í hverfinu.

Ég er aftur á móti bölvuð með að geta aldrei sagt nei þegar ég er mönuð og lét vaða.

- Auglýsing -

Ég viðurkenni alveg að vel var vandað til vals á myndum á Tinderprófílnum þótt ég megi nú eiga það að enginn myndanna var eldri en eins árs og hvorki notast við filtera né fótósjoppfítusa.

Sannkallaður sjentilmaður

Og sjá, innan hálftíma poppaði upp þessi ágætlega útlítandi herramaður á mínum aldri. Snögg netleit fann ekkert sem benti til þess að viðkomandi hefði komist í kast við lög né menn eða hvað það annað sem réttlætti ekki kurteisilega kveðju. Hófst nú nokkurra daga spjall á almennum nótum, herrann virkaði hinn almennilegasti í alla staði, sannkallaður sjentilmaður.

- Auglýsing -

Við færðum talið yfir á samfélagsmiðla.

Herrann ofangreindi hrósaði myndunum mjög. Ég var gullfalleg. Gyðja jafnvel. Og svo fyndin. Og klár. Svona líka skemmtileg. Hvenær gætum við hist? Í dag? Á morgun? Annað kvöld? Á eftir? Viðurkenni að ýtnin var örlítið óþægileg en að öðru leiti gekk spjallið með ágætum.

Svo vildi til að ég var á yfirsnúningi við undirbúning stórveislu sem haldin var síðastliðin föstudag en lofaði kaffibolla strax að henni lokinni.

Kanínupeysan og Landssímajakkinn

Veislan heppnaðist með ágætum en daginn eftir var ég alveg búin á því og lá eins og skata í sófanum í uppáhalds flónelspeysunni með kanínumyndum og elstu og ljótustu jogging buxum á Schengen svæðinu. Kom þá yfir mig þessi líka gríðarlega löngun í laugardagsnammi (appelsín og harðfisk í mínu tilfelli) svo mín dröslaðist í gamla strigaskó, tróð kanínupeysunni ofan í joggarann og henti yfir sig regnjakka sem er svo gamall að hann er enn merktur Landssíma Íslands.

Svo það var hoppað í næstu Hagkaupsverslun í hellidembunni. Og hver er fyrsti maðurinn sem ég rekst á í Hagkaup? Mjúkmælti Tindermaðurinn! Ég þekkti kauða strax af myndinni og það var augljóst að hann gerði slíkt hið sama. Ég mun aldrei, svo lengi sem ég lifi, gleyma hryllingssvipnum á manninnum þegar hann renndi augunum yfir kanínupeysuna, joggarann og blautu klessuna á hausnum á mér sem hefði mátt kalla hár á góðum degi.

Þegar heim var komið opnaði ég Tinder og samfélagsmiðla. Og sjá; öllum samskiptum hafði verið eytt og ég blokkuð í drasl. Alls staðar.

En vinkonuskömmunum var þó alla vega skemmt… Verði þeim að því, blessuðum.

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

HVAR ERU STYRKTARAÐILAR KSÍ?

Hallsteinn Arnarson skrifar:Íþróttum fylgja eftirsóknarverð gildi. Þess vegna vilja fyrirtæki styrkja íþróttastarf og þannig samsama sig slíkum...

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -