2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Konur og kvótar

Fyrir nokkrum árum var ég stödd í matarboði þar sem aðalumræðuefnið var kynjakvótar. Þá voru lögin um kynjakvóta í stjórnum íslenskra fyrirtækja við það að taka í gildi. Eins og oft vill verða skipti fólk sér tvær fylkingar og í hvorum hópi fyrir sig var fólk af báðum kynjum. Helstu rökin á móti voru þessi klassísku; það á bara að ráða hæfasta einstaklinginn hverju sinni, óháð kyni, og konurnar sögðust jafnframt alls ekki vilja vera ráðnar í stöðu bara vegna þess að þær væru konur.

Ég var, og er, mjög hlynnt kynjakvótum og í mínum hug snýst þetta um fyrirmyndir og fordæmi. Konur eru sjaldnast minna hæfar til að gegna stjórnunarstöðum, þær hafa aftur á móti verið ólíklegri til að sækjast eftir þeim. Fyrst svo er, ef valið stendur milli tveggja jafnhæfra einstaklinga er einhver skaði skeður með því að ráða konuna frekar en karlinn? Það setur gott fordæmi og skapar fyrirmyndir sem aðrar konur geta litið til.

Umrædd lög tóku að fullu gildi hér á landi í september 2013 og samkvæmt þeim ber fyrirtækjum með 50 eða fleiri starfsmenn að tryggja að hlutfall hvors kyns í stjórn sé ekki undir 40 prósentum. Strax árið eftir fór hlutfallið upp í 33,2 prósent, en það hæsta sem það náði og hlutfallið hefur farið lækkandi síðan. Það eru óneitanlega vonbrigði að lágmarkið skyldi ekki einu sinni nást.

Samskonar lög voru samþykkt í Noregi árið 2003 og tíu árum síðar var gerð úttekt á áhrifum lagabreytingarinnar. Þá kom í ljós að hlutur kvenna í stjórnum hafði ekki aðeins aukist heldur einnig fjöldi kvenna í hæstráðandi stöðum tvöfaldast eftir innleiðingu laganna. Í þessu samhengi eru hæstráðendur fimm launahæstu starfsmenn í viðkomandi fyrirtæki. Í Noregi virðast konur því frekar fá tækifæri til að vera meðal æðstu stjórnenda meðan stjórnin sjálf er skipuð bæði körlum og konum.

AUGLÝSING


Lagasetningin hefur ekki skilað áþekkum árangri hér á landi og það á sérstaklega við um í fjármálageiranum eins og sjá má í úttekt Kjarnans. Hjá viðskiptabönkunum fjórum er kynjahlutfallið jafnt en af þeim fjórum sparisjóðum sem enn eru starfandi er þremur stýrt af körlum og sama má segja um fjögur af fimm lánafyrirtæki landsins. Mest sláandi eru þó niðurstöðurnar úr verðbréfafyrirtækjum, en alls eru átján verðbréfafyrirtæki eða rekstrarfélög verðbréfasjóða og þeim eru öllum stýrt af körlum.

Að staðan sé enn svona í þessum mikilvæga geira íslensks atvinnulífs árið 2018 er áhyggjuefni. Samkvæmt tölum sem Kjarninn hefur safnað undanfarin fimm ár hefur lítið sem ekkert breyst á þeim tíma. Þýðir það að kynjakvótar séu gagnslausir? Ég hef enn trú á því að þeir virki og hugarfarsbreytingar taki einfaldlega tíma. Í framtíðinni munum við ekki þurfa á þeim að halda þegar konur standa jafnfætis körlum á öllum sviðum, en við höfum greinilega ekki náð þangað enn.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni