Föstudagur 27. maí, 2022
12.1 C
Reykjavik

Kynferðisleg áreitni á krá – Dyravörður kom til bjargar

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Laugardagskvöld eitt fyrir einhverjum árum var ég mættur með kassagítarinn og græjur á ónafngreinda krá í nágrannabæjarfélagi Reykjavíkur. Ég var ráðinn til að hefja leik á miðnætti en var mættur tímanlega til að gera allt klárt fyrir kvöldið.

Þegar ég mætti á svæðið tók ég eftir því að ekki var að sjá nokkurn karlmann á staðnum ef frá er talinn einn og var hann lítt klæddur með glansandi líkama. Húsið var lokað til miðnættis öllum öðrum en konum þeim sem vildu berja gripinn augum.

Mér tókst nokkuð áfallalaust að stilla upp græjunum, en ekki var laust við að konurnar renndu hönd upp rassinn minn, utanklæða vel að merkja, þar sem ég bograði við uppsetningu tækjakostar míns.

Að undirbúningi loknum leitaði ég skjóls í litlu rými inn af barnum og taldi að þar yrði ég óhultur. En Bleik var brugðið því áður en ég vissi af var þar vargur í véum. Fátt var um leiðir til undankomu og fyrr en varði var ég umkringdur konum í fremur ókræsilegum ham.
Fyrir utan þukl og strokur þá var veifað framan í mig spilum af þeirri gerð sem nýtast vel til að spila til dæmis veiðimann. Spilin þau sem rekin voru upp að nefi mínu þetta kvöld hefðu seint verið notuð til dægrastyttingar á íslenskum baðstofum.

Þau voru skreytt myndum af karlmönnum í hinum ýmsu stellingum, með besefann beinstífan og flírulegt glott á vör. „Er ‘ann svona á þér …?“, spurði ein konan mig, „… eða svona? … má ég sjá?“

Vertinn sá að ég var í miklum ógöngum og tókst að lokum að smala konunum út í salinn. Ég varpaði öndinni léttar. Við tók tíðindalítil bið eftir að klukkan slægi tólf á miðnættiÉg lét lítið fyrir mér fara og leyfði mér að vona að öldur lægði frammi í salnum á þeim tíma.
Klukkan sló tólf og ég olnbogaði mig í gegnum kvennafansinn, kom mér fyrir á sviðinu og hóf upp raust mína með undirleik.

- Auglýsing -

Fyrst um sinn gekk allt greiðlega, einhverjir karlmenn tíndust inn, en konur voru enn í miklum meirihluta og ekki allar búnar að ná sér niður eftir frammistöðu kyntröllsins hálfnakta, sem horfið var út í nóttina.

Þannig var ég í miðju lagi úr smiðju Simon & Garfunkel eða Högna Stefáns (eins og hann var oft kallaður fyrrum, heitir nú Yusuf Islam en hét Cat Stevens), þegar kona ein vatt sér að mér og var fyrr en varði komin með lúkurnar í klofið á mér. Ég reyndi að mjaka mér frá krumlunum en átti erfitt um vik því ég sat á háum kolli.

Ég reyndi að sinna starfinu ásamt því að gera konunni ljóst að því færi fjarri að hegðun hennar væri ásættanleg. Ég átti í vök að verjast en náði augnsambandi við dyravörðinn sem brosti til mín, enda sá hann ekki yfir þvöguna á gólfinu hvað konan aðhafðist.
Ég greip til þess ráðs að lauma nafni dyravarðarins inn í texta lagsins sem ég var að flytja þá stundina og það rann upp fyrir honum að eitthvað var ekki sem skyldi. Hann lagði af stað yfir gólfið.

- Auglýsing -

En lagið varð endasleppt því konan var þegar þarna var komið sögu að myndast við að opna buxnaklauf brókar minnar og því nauðsynlegt fyrir mig að nýta báðar hendur í varnarskyni.

dyravörðurinn kom og náði með herkjum að draga konuna úr klofinu á mér og mátti litlu muna að henni tækist að krækja sér í eina tölu sem minjagrip. Í kjölfar þessa varð hlutfall karla og kvenna nokkuð jafnt á staðnum og ég gat sungið og spilað án þess að sæta kynferðislegri áreitni umfram það sem eðlilegt gat talist.

Smelltu hér til að lesa brakandi feskt helgarblaðið eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -