Föstudagur 13. september, 2024
1.8 C
Reykjavik

Lafðin og óþokkinn: Hjónabandssælan varð skammlíf og tuttugu ára prísund beið eiginkonunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lafði Elizabeth Cathcart taldi sig hafa fundið ástina þegar hún kynntist írskum karlmanni, Hugh Maguire að nafni. Elizabeth keypti handa honum ofurstatign og nánast bjargaði honum úr ræsinu. Þau gengu síðar í hjónaband, en Hugh reyndist vera úlfur í sauðargæru og líf Elizabeth varð að helvíti. En það gekk erfiðlega fyrir Hugh að brjóta eiginkonu sína til hlýðni þegar hann reyndi að koma höndum yfir auðæfi hennar. Óhætt er að segja að málalyktir hafi verið ótrúlegar.

Aðalpersónur þessarar sögu eru lafði Elizabeth Cathcart og Hugh Maguire, írskur ofursti. Elizabeth var vel stæð ekkja á sextugsaldri, en Hugh var 35 ára, allslaus lukkuriddari sem Elizabeth varð ástfangin af. Hugh taldi sig hafa komist í feitt og reyndar taldi Elizabeth slíkt hið sama. En vart voru hveitibrauðsdagarnir hafnir þegar Hugh sýndi sitt rétta eðli og Elizabeth biðu ömurleg ár, svo ekki sé fastar kveðið að orði.

Það vantaði ekki að Elizabeth Malyn gæti státað af ágætu úrvali eiginmanna, enda kvenkostur mikill. Um hana var sagt að hún geislaði af „óviðjafnanlegum yndisleika fegurð, heilbrigði, æsku og hógværð.

Elizabeth var ung að árum þegar hún gekk í fyrsta sinn upp að altarinu. Átján ára lét hún undan þrýstingi foreldra sinna og gekk að eiga James nokkurn Fleet, bernskan son hátt setts embættismanns í London árið 1692. Má segja að sá ráðahagur hafi verið henni og foreldrum hennar að mörgu leyti hagfelldur því faðir Elizabeth var bruggari í London. Foreldrar Elizabeth nánast ýttu henni inn kirkjugólfið, svo áfram voru þeir um að hún festi ráð sitt.

Fjórði eiginmaðurinn

Þetta átti Elizabeth eftir að gera þrisvar sinnum í viðbót; annar eiginmaður hennar var ríkisstjórinn á Gíbraltar, Sabine höfuðsmaður, en hann átti nóg af peningum. Að honum gengnum kom Cathcart lávarður, sem varð frægur fyrir að stjórna einum stærsta, breska flota sem siglt hafði um höfin á þeim tíma.

Fjórði eiginmaður Elizabeth var Hugh nokkur Maguire, írskur ofursti, en hann var sá eini eiginmanna Elizabeth sem hún var ástfangin af. Þrátt fyrir að vera ekki af auðugu fólki komin hafði Elizabeth komið ár sinni vel fyrir borð þegar Cathcart lávarður féll frá. Þegar Hugh Maguire læsti klónum í hana taldi hann sig án efa hafa komist í feitt og 35 ára að aldri kvæntist hann Elizabeth, árið 1745.

- Auglýsing -

Síðar hafði Elizabeth á orði að fyrst hefði hún gifst til að geðjast foreldrum sínum, í annað skipti vegna peninga, í þriðja skipti fyrir þjóðfélagsstöðu og að lokum fyrir ást. Þess má geta að þegar hún giftist Hugh Maguire var Elizabeth 56 ára að aldri. Hvað annað gat hún gert, Hugh var glæsilegur, myndarlegur írskur offisér og Elizabeth var yfir sig ástfangin.

Hugh lætur greipar sópa um silfrið

Hvað sem því öllu leið var Elizabeth gáskafull og í ljósi fjölda hjónabanda hennar lét hún búa til brúðkaupsgjöf handa sjálfri sér; hring með áletruninni „If I survive, I will have five“; ef mér auðnast lengra líf mun ég eiga fimm [eiginmenn].

Hamingja Elizabeth varð að engu við morgunverðarborðið á fyrsta degi hveitibrauðsdaga þeirra hjóna. Morguninn þann sýndi Hugh sitt sanna eðli.

- Auglýsing -

Þá kom í ljós að Hugh hafði látið greipar sópa um silfurmuni Elizabeth og selt þá silfurhöndlurum í London. Og Hugh vildi meira.

Elizabeth var nóg boðið. „Hvað í fjandanum er á seyði, Hugh,“ sagði hún þar sem þau sátu ein að morgunverði á heimili hennar, Melwyn-óðalinu. „Hver gaf þér heimild til að taka besta silfrið mitt og selja það í London?“

Ég er skuldum vafinn,“ svaraði hann og bætti við að hann þarfnaðist fjár og að hún vildi ekki láta hann fá krónu. „Við erum gift núna og allt þitt er mitt. Þannig eru lögin, ekki satt?“ sagði Hugh. „Hvar í helvítinu hefur þú falið allt skartið sem þú barst við giftingu í gær?“ Hugh bætti reiður við að hann hefði farið í gegnum hirslur hennar á meðan hún svaf.

En lafði Elizabeth var ekki á þeim buxunum að gefa eftir og bandaði Hugh frá sér í óþolinmæði: „Það mun aldrei gerast að þú snertir skartgripina mína. Þjóðvegaræninginn sem þú ert! Og silfrið tilheyrði Cathcart lávarði!“ sagði hún, og biturðin í málrómnum leyndi sér ekki.

Slægur ruddi

Elizabeth bar höfuðið hátt og bar sig á allan hátt eins og fullkomin hefðarkona – var eins ensk og nokkur kona gat verið. Hún var lífsreynd og einu merki aldursins sem höfðu færst yfir hana voru fína hrukkur við augun, sem gerðu ekkert annað en gera bros hennar þokkafyllra.

Hugh ofursti hafði aldrei farið leynt með að hann hafði kvænst Elizabeth til fjár og hafði nánast samþykkt ráðahaginn áður en hann leit hana augum. Elizabeth hafði keypt handa honum ofurstastign í breska hernum þegar hann var á leiðinni í ræsið.

Yfirbragð Hughs bar með sér slægð rudda sem taldi sig komast upp með smá harðstjórn og var áhrifamikill að sjá og virðulegur, en reiddi kannski ekki vitið í þverpokum. Við hlið Elizabeth virtist hann líflaus, þrátt fyrir að hann gæti komið fyrir sig orði svo eftir væri tekið.

Hugh hafði kynnst stríðum í Evrópu, en þarna hafði hann kannski komist í tæri við andstæðing sem ekki gæfi eftir.

Nánast eignalaus

Þar sem þau sátu við morgunverðarborðið hafði Elizabeth á orði að þetta væri nú aldeilis ljómandi upphaf hveitibrauðsdaganna, eða hitt þó heldur. „Þú sagði mér að þú ættir mikla fasteign í Fermanagh-sýslu á Írlandi. Af hverju getur þú ekki fengið lán út á veð í henni?“ sagði hún.

Hugh svaraði því kokhraustur til, að hann hefði reynt það, en þannig væri í pottinn búið að Tempo-setrið hans á Írlandi væri baggi frekar en arðbær fasteign. „Hvernig væri að fá fé út á þetta stóra hús þitt? Hvar eru afsölin?“ bætti hann við.

Þau eru þar sem þú munt aldrei finna þau,“ hreytti Elizabeth í Hugh og stóð upp frá morgunverðarborðinu. Morgunverðurinn var ósnertur á borðinu.

Afsölin falin

Elizabeth vissi þar og þá að hún var komin í öngstræti og mætti engan tíma missa. Þegar hún kom í svefnherbergi sitt hófst hún handa við að fela skart sitt. Það gerði hún með því að sauma það inni í fald og fóður fata sinna. Afsölin að húsinu vafði hún inn í olíuborinn pappír og setti í járnkistil. Kistilinn setti hún síðan inn í leynihólf sem var á bak við þykk veggteppi, en lykilinn að kistlinum setti hú í keðju um mitti sitt. Hún fór ekki í grafgötur um að nú væri við ramman reip að draga og að hún yrði að vera snjallari en gullgrafarinn eiginmaður hennar.

Hugh aftur á móti ráfaði, dagana langa, um Welwyn-setrið sem það væri hans eign. Hann var fjölþreifinn í garð þernanna, drakk, spilaði fjárhættuspil og seldi lausamuni Elizabeth; hross, málverk, bækur og fleira sem hann kom höndum yfir.

Dag einn sagði hann við eiginkonu sína að hann mundi hætta þessu öllu saman ef hún bara léti hann fá afsölin að setrinu. Elizabeth sagði við hann að það yrði aldrei, nóg hefði hann niðurlægt hana gagnvart starfsfólki og nágrönnum.

Hugh lét Elizabeth ekki slá sig út af laginu, glotti sjálfbirgingslega og sagði við hana að þetta væri ekki flókið, það hefði lögfræðingur hans sagt: „Allt sem hann þarf er undirskrift þín og afsölin. Hann mundi þá láta mig fá 10.000 pund.“

Snjall er hann,“ hreytti Elizabeth í Hugh og spurði hvort lögfræðingurinn hefði sagt Hugh hvernig hann ætti að greiða lánið: „Áttu einhvern aur?“ klykkti hún út með.

Hugh sagðist ekki eiga krónu með gati. „Hvar eru afsölin, Elizabeth?“ spurði hann höstugur.

Elizabeth sagði að afsölin væru hjá lögfræðingi hennar. „Lygari,“ hreytti þá Hugh í hana. „Hann segir að þú geymir þau hérna á setrinu.“

Hugh bætti við að hann hefði hitt lögfræðing Elizabeth og að hann hefði ekki viljað lána honum krónu og vísað honum á dyr, bölvaður mörðurinn.

Elizabeth yfirgaf herbergið og velti fyrir sér hver næstu skref Hughs yrðu.

Óþokkabragð Hughs

Hugh Maguire hafði óþokkabragð í huga. Viku síðar bauð hann Elizabeth í ökuferð undir því yfirskini að þau mundu hitta gamla vini. Eitthvað fannst Elizabeth ökuferðin löng og krafðist þess að þau sneru heim. Þá sagði Hugh henni sem var, þau væru á leiðinni til Írlands þar sem dvöl á setri hans mundi koma vitinu fyrir hana.

Elizabeth vonaði í lengstu lög að eitthvað gerðist á ferðalaginu sem kæmi í veg fyrir áform Hughs. Hann hafði hins vegar ofið mikinn blekkingavef, meðal annars ráðið konu til að þykjast vera Elizabeth. Sú lét sjá sig sem víðast þar sem þau áttu leið um og lét alla vita að hún væri í för með manni sínum og á leið til Írlands og ekkert væri athugavert við það.

Nánir vinir Elizabeth sem undruðust fjarveru hennar á Welwyn og grunuðu Hugh um græsku fengu þau skilaboð frá leikkonunni að þeirra afskipta væri ekki óskað.

Í prísund á Írlandi

Nokkrum dögum síðar var Elizabeth fangi á Tempo, setri Hughs í Fermanagh-sýslu á Írlandi. Hugh sagði starfsfólki sínu að Elizabeth væri ekki alveg heil á geði og þyrfti á hvíld að halda. Starfsfólkið hélt sig fjarri læstum vistarverum Elizabeth og Hugh sá um að færa henni mat og hélt byssu að höfði hennar til að tryggja að hún tæki upp á einhverri vitleysu.

Segðu mér hvar afsölin og skartgripirnir eru og þú verður komin heim áður en þú veist af,“ sagði Hugh. En Elizabeth var þögul sem gröfin.

Einhvern tímann í prísund Elizabeth tók hún skartið sem hún hafði falið í fatnaði sínum, vafði það inn í vöndul sem hún kastaði út um glugga herbergisins til fátækrar konu sem þar var á göngu. Bað hún konuna að geyma skartgripina.

Árin liðu og alltaf var Elizabeth læst inni í herberginu, ellin færðist yfir en ávallt neitaði hún að svara spurningum Hughs.

Að sjálfsögðu var talað um lafði Elizabeth í sveitinni og þá staðreynd að aldrei sást til hennar. En sveitungar þekktu Hugh Maguire of vel til að hafa hátt um vangaveltur sínar, slíkt var orðspor hans.

Elizabeth bugast

Þrátt fyrir að hafa staðist fortölur Hughs ár eftir ár fór þrek Elizabeth dvínandi og hún var orðin skugginn af þeirri líflegu konu sem hún hafði verið. Einangrun og skortur á fersku lofti setti mark sitt á heilsu hennar og vilja.

Eftir tuttugu ára prísund játaði Elizabeth sig sigraða og ljóstraði upp um leyndarmálið sem hún hafði borið innra með sér öll þessi ár. Hún sagði Hugh frá leynihólfinu og lét hann hafa lykilinn sem hún hafði borið í keðju um mitti sér öll þessi ár. Hugh beið ekki boðanna og hraðaði sér til Englands.

Þegar hann kom til Welwyn-setursins var hann svo spenntur að hann ýtti til hliðar öllum þeim sem urðu á vegi hans og svaraði engum spurningum um erindi hans. Hann rauk upp í svefnherbergi Elizabeth með lykillinn að kistlinum í annarri hönd.

Hugh reif niður veggtjöldin og ýtti á þiljurnar sem leyndu hólfinu, en þiljurnar hreyfðust aðeins nokkra sentímetra. Hugh tók þá hníf úr pússi sínu og hjó í þiljurnar af miklum ofsa og reyndi samtímis að koma fingrum í rifuna til að rífa hólfið upp, en allt kom fyrir ekki.

Asinn var svo mikill að hnífsblaðið rann til og gerði stóran skurð í aðra hönd hans. Lét hann þá af áformum sínum, í bili hugði hann sennilega.

Elizabeth frelsuð

En Hugh Maguire fékk sýkingu í sárið og blóðeitrun dró hann til dauða skömmu síðar, án þess að hann næði takmarki sínu.

Í kjölfar dauða Hughs var Elizabeth frelsuð úr prísundinni, 75 ára að aldri og svo illa haldin að hún gat vart séð mun á manneskju og skepnum, að sögn mannsins sem frelsaði hana.

Sagan segir að síðar hefði Elizabeth Cathcart fundið fátæku konuna sem hafði gripið vöndulinn með skartgripunum mörgum árum áður. Sú hafði geymt skartið öll þessi ár og launaði Elizabeth henni vel tryggðina.

Elizabeth jafnaði sig með tímanum og var sagt að þegar hún var níræð hefði hún dansað með allri þeirri gleði og hressleika sem einkenndi ungar konur. Hún dó 97 ára að aldri og var grafin við hlið fyrsta eiginmanns síns. Auð sinn lét hún renna til starfsfólks síns og til góðgerðarstarfsemi.

Þannig fór nú það.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -