2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Landsréttur: Tillögur til lausnar

Íslensk stjórnvöld og Alþingi brutu gegn 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þegar skipaðir voru dómarar við Landsrétt. Ekki er annað að sjá, en að Mannréttindadómstóll Evrópu, telji að skipun allra dómara við réttinn hafi verið gerð í trássi við umrædda grein Mannréttindasáttmálans. Í umræddu ákvæði segir:

„Þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti eða um sök, sem hann er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Sé skipan hans ákveðin með lögum.[…]“

Eins og margir þekkja, þá stillti hæfisnefnd upp þeim umsækjendum um embætti dómara við Landsrétt í styrkleikaröð. Listinn rataði svo til dómsmálaráðherra, sem ákvað að henda út fjórum af þeim 15 sterkustu fyrir fjóra umsækjendur sem höfðu raðast aftar í röðina. Þennan lista lagði hún svo fyrir Alþingi, sem staðfesti í heild sinni í stað þess að kjósa um hvert nafn fyrir sig, eins og gert var ráð fyrir. Um þetta segir MDE:

„…rétturinn getur ekki komist að annarri niðurstöðu en að það ferli, sem leiddi til skipunar A.E. sem dómara við Landsrétt, með hliðsjón af þeim brotum á málsmeðferðarreglum sem staðfest hafa verið af Hæstarétti Íslands, hafi verið alvarlegt brot á þeim reglum sem þá voru í gildi. Þá telur rétturinn að í ferlinu hafi framkvæmdavaldið farið út fyrir valdsvið sitt með þeim hætti sem ekki var gert ráð fyrir í þeirri löggjöf sem í gildi var, þegar það kom að vali þeirra fjögurra dóma við Landsrétt, þ. á m. A.E., til viðbótar við að Alþingi hafi mistekist að fylgja því lagalega ferli sem áður var komið á til þess að tryggja viðeigandi jafnvægi á milli framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins í skipunarferlinu. Þessu til viðbótar, þá voru aðgerðir dómsmálaráðherra, eins og Hæstiréttur Íslands hefur áður komist að, augljóslega þvert á þær reglur sem í gildi voru þegar það kom að því að skipta út fjórum af þeim 15 umsækjendum, sem nefndin taldi hæfasta, fyrir aðra fjóra umsækjendur, sem voru taldir minna hæfir, þ.m.t. A.E. Ferlið var þar af leiðandi skaðlegt fyrir það traust sem dómsvald í lýðræðisríki verður að hafa hjá almenningi og var þvert á það grundvallaratriði að dómstóll verður að vera skipaður með lögum, sem er eitt að grundvallaratriðum réttarríkisins.“

AUGLÝSING


Með öðrum orðum, þá telur MDE að ferlið allt hafi verið gallað hjá stjórnvöldum og Alþingi. Þó svo að dómurinn snúi kannski helst að skipun Arnfríðar Einarsdóttur, Ásmundar Helgasonar, Jóns Finnbjörnssonar og Ragnheiðar Bragadóttur, verður ekki hjá því litið að hinir dómararnir 11 voru skipaðir í þessu sama ferli. Þegar það er haft í huga, er annað ómögulegt en að álykta sem svo að skipun allra dómaranna 15 hafi verið gölluð og brjóti gegn Mannréttindasáttmálanum.

Hvað er til ráða?

Að greiða úr þessari flækju er ekki auðvelt. Þó svo að MDE hafi komist að þessari niðurstöðu er ljóst að þessir 15 dómarar við Landsrétt eru löglega skipaðir af íslenskum yfirvöldum – niðurstaða MDE hefur m.ö.o. ekkert bindandi lagagildi að íslenskum lögum. Hins vegar er það svo, að skugga hefur verið varpað á öll þau mál sem dæmd hafa verið í Landsrétti til þessa – algjörlega óháð því hvaða dómarar dæmdu málin. Allir sem hafa tapað máli í Landsrétti velta því nú fyrir sér, hvort þeir hafi fengið réttláta málsmeðferð í samræmi við ákvæði Mannréttindasáttmálans.

Til þess að laga þetta allt saman, eru ekki margir kostir í stöðunni. Það er ekki hægt að reka dómara og ráða nýja, á grundvelli nýs mats. Stjórnarskráin kemur í veg fyrir það, en þar segir að dómarar verði ekki reknir nema aðeins með dómi. Sú leið er því á engan hátt fær.

Í huga þess sem þetta skrifar, eru valkostirnir því aðeins tveir:

  • Fyrri kosturinn felur í sér að stjórnvöld semji við þá 15 dómara sem eiga sæti í Landsrétti um að þeir segi af sér, gegn greiðslu skaðabóta. Dæmi um slíkar bætur gætu verið laun í X-langan tíma og að réttur til launa falli niður fái þeir aðra vinnu.

Í kjölfar þess að allir dómararnir segi af sér, eru skipaðir dómarar til bráðabirgða (hugsanlega allir þeir sömu og sögðu af sér) á meðan nýtt umsóknarferli, með nýju hæfismati fer af stað. Þeir dómarar sem þegar hafa starfað við Landsrétt eru þar augljóslega með töluvert forskot á aðra umsækjendur.

Þegar þessu er öllu saman lokið, þá skipar Alþingi hæfustu 15 umsækjendurna aftur og þeir taka sæti sem dómarar við réttinn.

Allir þeir sem rekið hafa mál fyrir Landsrétti fá endurupptöku fyrir þeim dómstól, óski þeir svo, og kostnaðurinn við rekstur málanna er greiddur úr ríkissjóði.

  • Seinni kosturinn er sá, að stjórnvöld skjóta dómi MDE til yfirdómstólsins réttarins og á meðan þeirrar niðurstöðu er beðið, fara öll áfrýjuð mál beint til Hæstaréttar Íslands. Þeir sem hafa þegar fengið úrlausn í Landsrétti fá sjálfkrafa rétt til áfrýjunar til Hæstaréttar.

Báðar þessar leiðir munu kalla á lagabreytingar og líklega er fyrri valkosturinn hreinni leið, ef svo mætti að orði komast. Síðan er náttúrulega hægt að gera eitthvað allt annað og gefa okkur lögmönnum færi á því, að draga í efa allar niðurstöður Landsréttar til eilífðarnóns. Vonandi berum við gæfu til þess að komast hjá því.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni