Fimmtudagur 7. desember, 2023
2.1 C
Reykjavik

Leggjum niður siðanefnd Blaðamannafélagsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er er lýsandi fyrir landlægan aumingjaskap og meðvirkni íslenskra blaðamanna að þeir hafa sætt sig við að þeirra eigin stéttarfélag haldi úti rannsóknarrétti sem beinist að þeim sjálfum. Ekki skortir aðhald að störfum blaðamanna, þar sem á Íslandi er meiðyrðalöggjöf nokkuð ströng og Fjölmiðlanefnd starfandi. Blaðamenn þurfa oft að standa reikningsskil fyrir dómstólum og hafa oft verið sakfelldir þar.

Við þetta bætist auðvitað almenningsálit sem getur snúist gegn blaðamönnum á svipstundu. Hvers vegna í ósköpunum er stéttarfélag blaðamanna, sem á að gæta hagsmuna þeirra, að bæta gráu ofan á svart með því að starfrækja nokkurs konar vara-meiðyrðadómstól? Því siðanefnd félagsins er í raun ekkert annað, neyðarhemill fyrir þá sem vilja koma höggi á blaðamenn, þó þeir geti ekki bent á neitt rangt.

Vafalaust var siðanefnd stofnuð með göfugar hugsjónir að baki en staðreyndin í dag er sú að þangað fara mál sem öllum er ljóst að myndu tapast fyrir dómstólum. Stundum er verið að prófa jarðveginn fyrir óhefðbundin meiðyrðamál. Niðurstaðan verður því sú að þeir sem eru ósáttir með frétt, en geta ekki bent á rangfærslu, fá eitt tækifæri til að hefna sín og vonandi niðurlægja blaðamanninn. Og það í samstarfi við stéttarfélag hans.

Reglurnar eru líka vondar og ótrúlega loðnar

Hér er rétt að geta þess að úrskurðir siðanefndar hafa engar afleiðingar né þýðingu. Fyrir utan eitt, úrskurðir hennar rata samstundis í aðra fjölmiðla og ef viðkomandi gerðist brotlegur við siðareglur þá er hann niðurlægður. Þá getur sá sem var ósáttur við frétt, en gat ekkert leiðrétt, fagnað sigri og sagt: „sjáiði bara“.

Hér komum við svo að næsta rugli í þessum fíflagangi: siðareglurnar sem dæmt er eftir eru frá árinu 1991. Líklega eru ekki mörg störf sem hafa umturnast jafn mikið og blaðamennska frá þeim tíma.  Reglurnar eru líka vondar og ótrúlega loðnar. Ein regla segir að blaðamenn megi ekki valda „óþarfa sársauka“. Sú regla er vinsæl hjá þeim sem rata í fréttir fyrir eitthvað vafasamt, enda alltaf sárt þegar syndir manns eru afhjúpaðar.

Siðanefnd úrskurðar yfirleitt blaðamönnum í vil. En að telja það nefndinni til hróss er eins og að afsaka ofbeldisfullan maka og segja hann bara berja sig bara þegar maður á það skilið. Það er ekki eins og sýknudómarnir séu ókeypis, yfirleitt eyða menn ómældum tíma í að verja sig.

Blaðmannafélag Íslands ræðst á fórnarlamb í innbroti

- Auglýsing -

Vafalaust halda margir að hér haldi á penna maður sem hafi lent í siðanefnd og láti nú stjórnast af biturð. Svo er ekki því þrátt fyrir að hafa þótt umdeildur hef ég einungis tvisvar, ef ég man rétt, ratað fyrir siðanefnd á tíu ára ferli. Bæði mál vann ég. Tilefnið, og það sem sannfærði mig endanlega, er galnir úrskurðir siðanefndar gegn Reyni Traustasyni, ritstjóra Mannlífs.

Siðanefnd vill banna Mannlífi að fjalla um Róbert Wessman, umdeildan auðmann, sem er innvinklaður í innbrot í ritstjórnarkerfi og á skrifstofu Mannlífs, að sögn þess sem framdi glæpinn. Hver eru rökin fyrir hinum harða dómi? Jú, Sólartún, útgefandi Mannlífs, hafi þegið greiðslu til að skrifa bók um Róbert. Þetta þýðir væntanlega að sama eigi við um allar fréttir Morgunblaðsins og Fréttablaðsins þar sem stjórnmál bera á góma.

Enda varla leyndamál að eigendur umræddra fjölmiðla styðja Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og Viðreisn hins vegar. En siðanefnd ber líklega fyrir sig að engin kæra hafi komið um það, og þar erum komum við að grundvallaratriðinu; stéttarfélag blaðamanna á ekki að hjálpa þeim sem eru ósáttir með fréttir, en geta ekki bent á nein ósannindi, að koma höggi á meðlimi félagsins. Blaðamannafélag Íslands ræðst á fórnarlamb í innbroti í stað þess að veita stuðning og skjól. Þetta er masókismi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -